Samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012

Þriðjudaginn 15. júní 2010, kl. 11:42:12 (0)


138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012.

582. mál
[11:42]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það kemur hv. þingmanni vafalaust ekki á óvart en ég var sammála nánast hverju orði sem hv. þingmaður sagði. Við erum algjörlega sammála um að í núverandi þjóðfélagsstöðu væri mjög æskilegt að hafa meira fjármagn til að geta ráðist í framkvæmdir sem tengjast samgöngubótum. Hv. þingmaður færði mjög elegant rök fyrir því, það skapar atvinnu og styrkir fyrirtækin, og mörg fyrirtækin í þessari grein eru þannig stödd að þau þurfa virkilega á þeirri innspýtingu að halda. Síðast en ekki síst treystir vegagerð innviði landsins og gerir okkur kleift að eiga viðskipti við aðra landshluta og færir okkur það frelsi að geta notið landsins okkar og iðkað fagurt mannlíf í gegnum heimsóknir og tengsl við aðra landshluta.

Staðan í samfélaginu er sú að peningarnir liggja ekki á lausu. Þá vil ég segja að ég held að hæstv. samgönguráðherra hafi staðið sig ákaflega vel í því að leggja hér fram nýjar og frísklegar, vissulega umdeildar, hugmyndir um það með hvaða hætti er eigi að síður hægt að ráðast í stórframkvæmdir. Hæstv. ráðherra hefur mælt fyrir því að menn fari þá leið sem tengist að hluta til veggjöldum og skuggagjöldum og reyni að laða til fjármagn úr t.d. lífeyrissjóðunum. Þær hugmyndir sem hæstv. samgönguráðherra hefur beitt sér fyrir gagnvart Vaðlaheiðargöngum finnast mér allrar athygli verðar. Hið sama gildir um aðrar stórframkvæmdir sem ég tel að væri mjög æskilegt að ráðast í sem byggjast á þessum sama grundvelli.

Þá þurfa menn að fara í gegnum ákveðna grundvallarumræðu sem ég held að þinginu væri mjög hollt að gera hér og spyrja sig: Með hvaða hætti viljum við ráðast í fjármögnunina? Viljum við gera það með því að ráðast í stórar og mjög þarfar samgöngubætur sem yrðu að verulegu leyti grundvallaðar á veggjöldum? Mér finnst sjálfum að það komi alveg sterklega til greina. Ég er líka reiðubúinn til að skoða aðrar leiðir. Þetta vildi ég nú segja hérna, ég tel sem sagt að í þröngri stöðu hafi hæstv. samgönguráðherra (Forseti hringir.) lagt fram hugmyndir sem geta leyst úr þessari stöðu sem hv. þingmaður var hér að lýsa. (Forseti hringir.) Mér finnst það jákvætt og við eigum að ræða það með málefnalegum hætti eins og hv. þingmaður var að gera.