Samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012

Þriðjudaginn 15. júní 2010, kl. 11:51:28 (0)


138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012.

582. mál
[11:51]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Það gleður mig að 30% pólitíska hluta ríkisstjórnarinnar skuli vera í þingsal og hlusta á okkur þingmenn tala um samgöngumál og taka virkan þátt í umræðunni. Það er mikið gleðiefni (Gripið fram í.) — það er mikið gleðiefni.

Það er ljóst að bót á samgöngum hefur gríðarlega mikla þýðingu fyrir allt þjóðfélagið. Margar rannsóknir sýna að bættar samgöngur auka framleiðni í þjóðfélaginu og leiða beint út í meiri hagvöxt. Stundum er hann svæðisbundinn en stundum nær hann yfir heilu þjóðfélögin. Með þessum rökum er auðvelt og gott að styðja samgönguframkvæmdir.

Annað mál sem snýr að þessu er að besti byggðastyrkur sem við Íslendingar getum veitt eða besta byggðastefna sem við getum fylgt er sennilega að bæta samgöngur á landsbyggðinni vegna þess að því auðveldara og fljótlegra sem það er fyrir fólk sem býr í hinum strjálu byggðum landsins að komast í þjónustu sem ekki er eðli samkvæmt hægt að veita í litlum bæjarfélögum því líklegra er að fólk sé tilbúið til að festa rætur í litlum sveitarfélögum og í hinum dreifðu byggðum. Bættar samgöngur eru því tvímælalaust besta byggðaaðgerð sem við Íslendingar getum farið út í. Það skiptir ekki máli hvar samgöngubæturnar eru, til að mynda eins og að leggja Sundabraut bætir mjög samgöngur fyrir þá sem búa t.d. í Árneshreppi og þurfa að sækja sér þjónustu til Reykjavíkur.

Það er eitt sem mér hefur mislíkað og ég hef talað mikið um, alveg frá því í fyrrasumar hér á Alþingi, og það er að ríkisstjórnin forgangsraðaði fjármunum rangt. Það hefur verið skorið gríðarlega niður til samgöngumála sem hefur bitnað á verktakastarfsemi, það hefur bitnað á þessum samgöngubótum sem ég talaði um áðan o.s.frv. Það er ljóst að með því að stöðva eða minnka jafnmikið stofnframkvæmdir og verið er að gera núna, vegna þess að þau stóru verk sem nú eru í gangi voru fyrir löngu síðan ákveðin og ekki hægt að skipta um hest í miðri á, hefur ríkisstjórnin forgangsraðað rangt. Það er ekki við hæstv. samgönguráðherra að sakast í þeim efnum vegna þess að ég veit að hann er maður sem skilur nákvæmlega það sem ég er að tala um og mundi glaður vilja hafa meiri fjármuni til að spila úr. Þetta er því ekki gagnrýni á hæstv. samgönguráðherra.

Það sem sparnaður í stofnkostnaði endurspeglar, það er að hann er ekki varanlegur sparnaður. Hann er einungis einskiptissparnaður vegna þess að menn hætta ekki við sama hlutinn oftar en einu sinni. Það sem þarf að ráðast í í fjármálum ríkisins er miklu fremur rekstrarkostnaður þar sem greinilegt er að skatttekjurnar standa ekki undir rekstrinum. Þar þarf að skera niður, sameina, hagræða og annað slíkt. Það á að varast í lengstu lög að skera niður í fjárfestingunni og fjárfestingum til samgöngumála vegna þess að það að verktakarnir hafi ekkert að gera leiðir af sér mikinn kostnað fyrir samfélagið. Það leiðir af sér kostnað sem kemur fram í gjaldþrotum verktakafyrirtækja. Það leiðir af sér ónýtta afkastagetu í hagkerfinu þegar vegagerðarmenn og verktakar ganga um atvinnulausir og þurfa kannski að þiggja bætur úr ríkissjóði. Það er því ekki góð ráðstöfun að skera niður í stofnkostnaði.

Mig langar aðeins til að beina augum að kjördæmi mínu, sem er Norðausturkjördæmi. Norðausturkjördæmið er um margt sérstakt og ég og hæstv. samgönguráðherra erum þingmenn kjördæmisins og vitum að kjördæmið er hálendasti hluti Íslands í vegalegu tilliti. Þar er mest um fjallvegi, hæstu fjallvegirnir o.s.frv. Þess vegna er eðli máls samkvæmt dýrt að byggja upp samgöngukerfi í kjördæminu. En þar hafa þó verið lagðir miklir fjármunir og mikil vinna í að bæta samgöngur. Þetta er náttúrlega allt annað en þegar ég var að alast upp á Neskaupstað þar sem fjallvegurinn yfir Oddsskarð var lokaður meira og minna yfir veturinn og það voru kannski margar vikur sem ekki var hægt að komast nema með snjóbíl á staðinn. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan og vegurinn er orðinn mun betri en aftur á móti er hann barn síns tíma. Göngin á milli Norðfjarðar og Eskifjarðar eru gömul göng og það að fara inn í göngin líkist því helst að fara inn í námagöng frá 18. öld. Það er brýnt að bæta þar úr. Það þurfum við líka að gera til að sameining sveitarfélaganna í Fjarðabyggð fái notið sín til fulls. Það hefur verið gert gríðarlega mikið átak í samgöngum milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar þannig að nú tekur ekki nema örskotsstund að fara á milli þessara staða og þarf ekki að fara fyrir skriðurnar sem á vetrum var oft stórhættulegt, í rigningum voru aurflóð og annað slíkt, þannig að þar hafa orðið miklar samgöngubætur. Það þarf að koma á almennilegri tengingu á milli Norðfjarðar og Eskifjarðar til að tryggja enn betur sameiningu sveitarfélagsins. Reyndar vantar aðra stóra samgönguframkvæmd í sveitarfélaginu sem ég mun koma að á eftir.

Þess vegna er gleðilegt að sjá að það er sett fé til undirbúnings jarðganga á milli Norðfjarðar og Eskifjarðar, að mig minnir 200 milljónir á næsta ári og svo hefjast framkvæmdir af alvöru á þarnæsta ári, á árinu 2012, þegar settar verða 1.200, 1.300, 1.400 milljónir í þetta. Ég hefði viljað hraða þessum framkvæmdum vegna þess að það er bæði hægt, allri hönnun og öðru slíku er lokið og það er auðvelt að bjóða út göngin, og ég held því fram að gríðarlega mikil arðsemi geti komið af því.

Fjarðabyggð er um margt merkilegt sveitarfélag. Úr sveitarfélaginu kemur næstum því 1/3 allra gjaldeyristekna okkar Íslendinga. Á því byggir m.a. að hægt var að gera það að einu atvinnusvæði. Á því byggir að þar hefur átt sér stað mikil erlend fjárfesting í álveri. Á því byggir að í gegnum kvótakerfið sem við höfum hefur orðið mjög mikil hagræðing og hagkvæmni í uppsjávarveiðum og í sveitarfélaginu eru stærstu fyrirtækin í uppsjávarveiðum á Íslandi. Niðurstaðan er því sú að þetta sé gjaldeyrismaskína Íslands.

Syðst í sveitarfélaginu er Stöðvarfjörður sem er í nokkuð mikilli einangrun frá kjarnanum. Það stafar af því að fara þarf fyrir skriður. Þar eru enn þá gríðarlega slæmar samgöngur á milli, sérstaklega á vetrum. Því þarf að bæta úr og þess vegna getur sú ráðstöfun að byggja upp þjóðveg, eða hringveg 1, yfir Öxi orkað tvímælis. Þrátt fyrir að það stytti leiðina frá Egilsstöðum og austur fyrir og gefi möguleika á því að Djúpivogur og Fljótsdalshérað verði eitt sveitarfélag þá skilur hún eftir Stöðvarfjörð, þennan útvörð Fjarðabyggðar í suðrinu, nokkuð einangraðan auk þess sem upphaflega hugmyndin með hringveginum var sú að tengja saman byggðir landsins. Samgöngur eru orðnar greiðar alveg frá Fáskrúðsfirði og yfir á Reyðarfjörð og upp um Fagradal og til Egilsstaða, þar eru greiðar og mjög góðar samgöngur. Þarna vantar bútinn á milli sem mundi tengja Stöðvarfjörð inn í sveitarfélagið. Síðan væri hægt að halda suður úr og hringvegurinn, þjóðvegurinn, lægi þá í skaplegri hæð, færi ekki upp í 500–600 metra og þyrfti ekki að vera á vetrarvegi eins og ef farið er yfir Öxi, en það er annað mál. Þetta er álitamál og menn eru alls ekki sammála um þetta í sveitarfélögunum á Austfjörðum en ég vildi bara vekja athygli á að e.t.v. ætti að skoða þessa ákvörðun betur. En með því er ég ekki að segja að það eigi ekki að bæta samgöngur yfir Öxi. Ég mundi vilja sjá þar góðan sumarveg, a.m.k. ef mat mitt er rétt á að það sé e.t.v. hagkvæmara að tengja byggðirnar þrátt fyrir að það mundi lengja örlítið fyrir Héraðsmenn leiðina suður fyrir.

Víkur þá sögunni norðar í kjördæmið. Þar er nokkuð greiður vegur þar til við komum að brú einni yfir Jökulsá. Það fer að verða mjög aðkallandi að ráðast í að endurnýja brúna og jafnvel er hægt að stytta leiðina eitthvað. Yfir farartálmann Jökulsá er einungis leyfður 30 km hámarkshraði yfir einbreiða brú. Þar er slysahætta auk þess sem við sáum í náttúruhamförunum á Suðurlandi að við öllu megi búast og að tengja þyrfti Suðurland mun betur norður fyrir til að stoppa ekki framleiðslu og aðdrætti þaðan, því er nauðsynlegt að Jökulsá geti tekið við umferð.

Næst víkur sögunni að Dettifossveginum. Miklar framkvæmdir eru á efri hluta Dettifossvegar og hann er að breytast í góðan veg. En það vantar að neðri hlutinn sé greiður vegur og hann nýtist sem best. Þess vegna sakna ég þess, nákvæmlega eins og með Jökulsá, að sjá engar fjárveitingar í Dettifossveg. Eins og margir hv. þingmenn hafa sagt og hæstv. samgönguráðherra, eru ekki til peningar nema af skornum skammti á Íslandi um þessar mundir þannig að e.t.v. verðum við að bíða með þá framkvæmd. En þetta er samt sem áður mikilvæg framkvæmd og með röksemdafærslunni sem ég hóf í upphafi um að samgöngubætur séu framleiðniaukandi væri e.t.v. skynsamlegt að fara í Dettifossveginn núna á þeim tíma sem samgönguáætlunin nær yfir.

Þá komum við að Vaðlaheiðargöngum. Ég deili því með hæstv. samgönguráðherra að Vaðlaheiðargöng væru gríðarlega mikil samgöngubót sem við ættum að ráðast í núna á næstunni. Ég er sammála hæstv. samgönguráðherra um að við eigum að reyna að gera þetta í einkaframkvæmd og að greiða eigi að mestu leyti fyrir framkvæmdina með vegtollum. Þarna er umferð tæplega 1.500 bíla á dag og ef við reiknum með svona 1% aukningu í framtíðinni á ári, sem er varlega áætluð aukning, er hægur vandi að sjá fyrir sér að hóflegt veggjald, kannski 800–1.000 kr. líkt og er í Hvalfjarðargöngum, mundi standa undir stórum hluta framkvæmdarinnar, en ekki allri náttúrlega. Með Vaðlaheiðargöngum stækkum við atvinnusvæðið í Eyjafirði um þetta svæði þar sem liggja gríðarlegar náttúruauðlindir. Þá er augljóst að stórt atvinnuverkefni, á Bakka t.d. sem mundi nota orkuna úr Þeistareykjum og af svæðinu þarna í sveitunum, mundi ekki bara verða mikil lyftistöng fyrir það svæði heldur fyrir Eyjafjarðarsvæðið líka, fyrir Akureyri þar sem sárlega vantar eitthvað naglfast. Akureyri byggir um of á opinberum störfum. Við sjáum að það er þörf á að skera niður og hagræða hjá hinu opinbera og það mun, sama hvað hver segir, bitna á opinberum störfum og mun bitna illa á Akureyri. Þar af leiðandi væri gott að geta boðið þarna upp á stórt verkefni sem væri tengt með göngum undir Vaðlaheiði. Ég er algjörlega sammála hæstv. samgönguráðherra um að það sé nauðsynlegt.

Síðan eru það auðvitað tengivegirnir fyrir norðan sem þarf sérstaklega að lagfæra. Eitt verkefni á sviði samgöngumála mundi verða mikil lyftistöng fyrir Norðurland. Það er að bæta Akureyrarflugvöll þannig að hann geti tekið betur á móti þotuflugi sem er að mestu til útlanda. Við sáum mjög vel hlutverkið sem Akureyrarflugvöllur gegnir í flugöryggi í landinu þegar öskufallið var sem mest frá eldgosinu í Eyjafjallajökli og fólk var flutt með rútum til Akureyrar og þaðan úr landi og tekið á móti fólki til baka, jafnframt sem það sýndi þörfina á því að bæta flugstöðina.

Ég er kominn í Eyjafjörð í þessari ræðu minni. Ég á eftir að tala þó nokkuð mikið í viðbót þannig að ég verð að biðja virðulegan forseta að setja mig aftur á mælendaskrá.