Samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012

Þriðjudaginn 15. júní 2010, kl. 12:13:36 (0)


138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012.

582. mál
[12:13]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir þessa spurningu. Þetta hefur verið deilumál lengi, þetta með gjaldtöku fyrir samgönguframkvæmdir. Við höfum dæmi um eina framkvæmd sem hefur virkað mjög vel og fólk sætt sig mjög vel við, Hvalfjarðargöngin. Við höfum líka dæmi um framkvæmd sem var með vegskýlum þar sem borga þurfti tolla og gekk engan veginn upp og það var á Keflavíkurveginum.

Ég held að framtíðin sé tvímælalaust sú að við þurfum að fjármagna samgönguframkvæmdir og viðhald einhvern veginn öðruvísi en við höfum gert núna. Það eru að koma nýir orkugjafar til að drífa áfram bifreiðar, rafmagnsdrifnar bifreiðar verða sennilega margar hér í framtíðinni o.s.frv. Ég tel réttlætanlegt að huga að nýjum leiðum til að innheimta fé til að borga fyrir samgönguframkvæmdir og er í raun fylgjandi því prinsippi að notandi greiði fyrir notkun á vegum. Ef við getum farið út í samgönguframkvæmdir sem öllum eru til ábata með því að nota veggjöld í staðinn fyrir að fresta samgönguframkvæmdunum um ókomna tíð er ég fylgjandi þeim. Jafnframt tel ég að það fyrirkomulag sem er verið að skipuleggja núna, (Forseti hringir.) opinber hlutafélög um framkvæmdirnar, sé vissulega að hluta til gert til að breyta skuldastöðu ríkisins.