Samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012

Þriðjudaginn 15. júní 2010, kl. 13:33:51 (0)


138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012.

582. mál
[13:33]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Hér er grafalvarlegt mál á ferðinni og upplýsa þarf hvort hæstv. ríkisstjórn er að semja á bak við tjöldin við Breta og Hollendinga um lyktir Icesave-málsins.

Ég skil þessa frétt sem hv. þm. Óli Björn Kárason reifaði hér áðan ekki öðruvísi en svo að Bretar og Hollendingar telji sig hafa fengið tryggingu fyrir því að Íslendingar ætli að fallast á þær kröfur sem Bretar og Hollendingar hafa gert á hendur tryggingarsjóðnum og íslenskum stjórnvöldum. Það er út af fyrir sig ekkert athugavert við það að Íslendingar standi við skuldbindingar sínar, auðvitað eigum við að gera það. En ekki þær skuldbindingar sem Bretar og Hollendingar telja að leiði af tilskipun Evrópusambandsins um innstæðutryggingar. Ég spyr: Hafa menn ekki lesið rannsóknarskýrslu Alþingis þar sem er farið kerfisbundið og lögfræðilega yfir það að íslenska ríkinu beri ekki skylda til að greiða þær kröfur sem Bretar og Hollendingar (Forseti hringir.) hafa haft frammi á hendur Íslendingum? Það verður að upplýsa um þetta mál. Ég vona að ríkisstjórnin (Forseti hringir.) hafi eitthvað lært af þjóðaratkvæðagreiðslunni en við verðum að fá að vita hvort hún er að semja bak við tjöldin og bak við þingið um lyktir Icesave-málsins.