Samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012

Þriðjudaginn 15. júní 2010, kl. 14:07:03 (0)


138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012.

582. mál
[14:07]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Hér liggur fyrir tillaga til þingsályktunar um samgönguáætlun til fjögurra ára, fyrir árin 2009–2012. Af sjálfu leiðir að þetta er mikið plagg þegar við fjöllum um helstu verkefni á sviði samgöngumála sem við stöndum frammi fyrir að reyna að koma til framkvæmda. Ég verð þó að segja eins og er að miðað við umfangið á skiliríinu er innihaldið rýrara en kannski æskilegt væri, þó svo að við sjáum að verið er að færa hér hluti í ákveðinn búning, færa í rauninni fjárveitingar til samgönguframkvæmda sem fjármagnaðar eru með beinum hætti úr rekstri ríkissjóðsins yfir til afnotagjalda.

Ég get þó ekki, forseti, látið hjá líða að minnast á það við upphaf ræðu minnar að orð hv. þm. Árna Johnsens komu mér töluvert á óvart, mér þótti úr honum mesti móðurinn þegar hann ræddi það hér mjög fjálglega að það væru draumórar einir að horfa til þess að millilandaflug frá Akureyrarflugvelli gæti gengið skrykkjalaust. Öðruvísi mér áður brá, mér hefur ætíð þótt hv. þingmaður mjög stórhuga. Ég vænti þess að ég geti blásið honum kjarkinn í brjóst á ný, því að þó svo að við sjáum fram á þau áform sem uppi eru varðandi flugsamgöngur í gegnum Akureyri, get ég fullvissað hv. þingmann um að það skulu ekki verða neinar tafir á því að Vestmannaeyingar geti fengið birgðir sínar úr forðakistu norðursins, Grímsey, fyrir sína árlegu þjóðhátíð, þó svo að flugstöðin stækki. Það verður enginn skortur á slíku.

Ég skal hins vegar deila áhyggjum hv. þingmanns af því að þarna eru á ferðinni dálítið stórar hugmyndir en ég er þeirrar skoðunar að okkur beri að skoða þessa hluti. Okkur ber að skoða það með hvaða hætti við getum gert framleiðslusvæði landsins í öllum landshlutum, fyrir vestan, norðan, austan og sunnan, fær um að koma afurðum sínum beint á markað öðruvísi en að þurfa að sæta því skipulagi sem er í samgöngumálum nú og hefur verið um margar aldir, að flytja þær í gegnum einn punkt á öllu landinu. Þetta var ekki svona forðum tíð og gekk þá vel. Eftir því sem við höfum þjappað þessu betur og meira saman, þeim mun verr hefur framleiðslufyrirtækjum í landinu gengið að koma afurðum sínum með lægri tilkostnaði á markaði erlendis. Þar af leiðandi er ég mjög fylgjandi því að sú hugmynd sem hv. þingmaður var að draga hér niður, allt niður undir Húsavíkur-Jón, sé skoðuð í þaula. Ég er mjög ötull talsmaður þess að greitt verði með sem bestum hætti fyrir möguleikum sjávarútvegsfyrirtækja, framleiðslufyrirtækja í landbúnaði og ferðaþjónustufyrirtækja til að gera þeim kleift að stunda milliliðalaus viðskipti inn og út af sínu svæði. Það er andstætt þeirri hugsun sem hingað til hefur verið.

Einhvers staðar verður að byrja. Ég er fullviss um það að skilningur landsmanna á þessum viðhorfum sem margir þingmenn landsbyggðar hafa talað fyrir í gegnum tíðina, þar á meðal hv. þm. Árni Johnsen sem hefur verið mjög ötull talsmaður þessara sjónarmiða, hefur vaxið allnokkuð þó ekki væri nema fyrir eldgosið í Eyjafjallajökli og þá röskun á samgöngum sem það olli á milli Íslands og annarra landa. Þá gera menn sér það kannski ljóst betur en áður að við getum ekki sem eyþjóð hér við ysta haf lifað af í þessu harðbýla en gjöfula landi með þeim hætti að leggja allt okkar traust á einn punkt. Það gengur ekki. Við verðum að dreifa áhættu. Við verðum að skipuleggja búsetuna í landinu með þeim hætti að við eigum aðra kosti en einn. Þetta dæmi er í mínum huga liður í því.

Fyrst ég er kominn að þessum þætti held ég að meginspurningin varðandi samgönguáætlun snúist um það hvernig við skipuleggjum þessar lífæðar íslensks samfélags með það í huga að gera okkur sem þjóð sem best í stakk búna til að hámarka þau verðmæti sem við getum fengið af því að nýta gögn og gæði til lands og sjávar.

Einn þáttur sem ekkert er ræddur í samgönguáætluninni en lýtur að þessum efnum er það sem snýr að flutningskostnaði. Ekki er minnst orði á flutningskostnað eða jöfnun flutningskostnaðar í þessu langa mikla plaggi. Þó er þetta atriði sem hæstv. samgönguráðherra hefur oftar en einu sinni og oftar en tvisvar kynnt í kosningabaráttu sinni, þar sem hann sækist eftir umboði kjósenda í kjördæmi sínu, sem sitt meginstefnumál. Hann er ekki einn um það. Í gegnum áranna rás hefur verið unnið plagg eftir plagg, tillaga eftir tillögu, sem lýtur að því að taka til vandlegrar skoðunar jöfnun á flutningskostnaði fyrirtækja á Íslandi, því að það er að allra mati sem þessi mál skoða augljóst að framleiðslufyrirtækin úti um land búa við þann galla, ef svo mætti segja, að þurfa að bera hærri kostnað af aðföngum til framleiðslu sinnar og síðan að koma vöru sinni á stærsta markaðssvæði landsins. Þetta snýst ekki allt um fjármuni til uppbyggingar vega eða beinar niðurgreiðslur til fyrirtækja. Það er hægt að beita ýmsum öðrum atriðum, þó ekki væri nema að skoða regluverkið sem ríkið býður fyrirtækjum í landinu að starfa eftir.

Ég hef flutt þingsályktunartillögu sem lýtur að því að endurskoða reglur um móttökustöðvar áfengis í landinu. Ríkið hefur hagað þeim málum með þeim hætti að brugghús, segjum bara á Vestfjörðum, þarf að sæta því ef það er staðsett t.d. í Ísafjarðarbæ og ætlar að selja vöru sína í Bolungarvík að reglurnar séu með þeim hætti að það þarf að flytja vöruna fyrst til Reykjavíkur frá Ísafirði áður en hún kemst í verslun eða einokunarsölu ÁTVR í Bolungarvík vegna þess að dreifingarstöðin er í Reykjavík. Menn sjá það í hendi sér hvernig staða þessa fyrirtækis er í samkeppni gagnvart bjórframleiðanda sem er staðsettur svo að segja við hliðina á þessari dreifingarstöð ríkisins í Reykjavík. Enn hefur ekki fengist almennilegur framgangur þess að breyta þessu óréttláta regluverki gagnvart þeim framleiðendum sem hafa kosið að hasla sér völl í þeirri starfsgrein að brugga bjór ofan í landsmenn og sumir jafnvel farið það langt að þeir hafa sótt á erlenda markaði, a.m.k. er bjórverksmiðjan Kaldi á Árskógssandi farin að þreifa sig áfram með það að flytja bjór til Færeyja. Ég held ég fari rétt með það að bjórframleiðandi á Suðurlandi, af öllum landsvæðum, er farinn að þreifa sig áfram með það að flytja bjór til Danmerkur.

Fleiri þætti mætti taka. Það er nefnt hér í samgönguáætlun, á fyrstu síðu hennar, atriði sem lýtur að sjóflutningum. Þar er gert ráð fyrir því, með leyfi forseta, að „gera úttekt á því með hvaða hætti megi koma á strandsiglingum að nýju með það að markmiði að draga úr landflutningum með tilheyrandi álagi á vegakerfið“. Þetta er örugglega ein leið. Og nýlega var kynnt skýrsla frá hæstv. samgönguráðherra, starfshópur á hans vegum skilaði af sér skýrslu um þessi mál. Þar var verið að vinna með hugmyndir um að hefja strandsiglingar frá Reykjavík norður og austur um með ströndinni til Akureyrar. Útgerð þessa skips átti að hátta með þeim hætti að ríkið þurfti að sjálfsögðu að greiða með þessu fé, en útgerðinni var háttað þannig að skipið átti að liggja af sér helgina á Akureyri og þá ætti að fara að greiða úr ríkissjóði fyrir það að skipið gæti legið í höfn heila helgi. Þetta gerir enginn útgerðarmaður sem stendur í eigin rekstri. Hann reynir að halda drift í fleytunni helst alla sólarhringa ársins ef mögulegt er. Það fór ekkert fyrir því í þessari úttekt að það er starfandi fyrirtæki í þessari grein, strandsiglingum, sem óvart gerir út frá Akureyri og hefur ekki sótt neina ríkisstyrki, gerir út sín skip og sína starfsemi án þess að þiggja krónu úr ríkissjóði.

Ég tók þátt í því fyrir tveim eða þrem árum að vinna skýrslu fyrir hæstv. þáverandi viðskiptaráðherra. Sá starfshópur var skipaður í desember 2007 og sú nefnd sem þar var sett á laggirnar var sett af stað fyrst og fremst vegna umræðu um flutningsjöfnunarsjóð olíuvara. Þá stóð til að leggja hana af, en með þeirri röksemdafærslu sem fram kom í störfum þessa starfshóps var sem betur fer hætt við þá fyrirætlan. Þar var m.a. rætt um möguleika á því að jafna flutningskostnaðinn í landinu með ýmsum aðferðum. Við skoðuðum m.a. hvað aðrar þjóðir voru að gera, Noregur og Svíþjóð. Við skoðuðum möguleika á því líka að skjóta með styrkari hætti stoðum undir millilandaflug á ýmsum stöðum á landinu til að gera útflutningsfyrirtækjum þar kleift að flytja afurðir sínar beint á markað. Við skiluðum frumvarpi til hæstv. ráðherra, þáverandi, um tímabundna jöfnunarstyrki. Ekkert af þessu hefur komið fram og ég undrast það stórlega að hæstv. núverandi samgönguráðherra hafi ekki tekið þetta til umræðu.

Ef ég ræði síðan þingsályktunartillöguna sjálfa og einstök verkefni þar, hefur mest borið á því í morgun í þeirri umræðu um áætlunina sem hér hefur farið fram að menn hafa verið svona heldur hræddir við að fara út af hringveginum þar til hv. þm. Árni Johnsen hér áðan með einhverja sýn til lengri tíma og horfði til þess og nefndi það hvort það væri möguleiki á að stytta leiðir á milli Norður- og Suðurlands. Sú umræða hefur oftast nær, þegar hún hefur komið upp, verið skotin í kaf af einhverjum svokölluðum umhverfissjónarmiðum, eins og það sé ekki hægt að leggja vegi eða búa til samgöngur á milli landshluta án þess að þurfa að valta yfir náttúruna. Það er vel hægt að mínu mati og ber að skoða af fullri alvöru. Að minnsta kosti hef ég horft mjög til þess að við með búsetu í þessu tiltölulega stóra landi miðað við íbúafjölda þurfum að sæta því að aka alltaf hringinn um eyjuna til að komast á milli tveggja staða. Hvers vegna í ósköpunum getum við ekki skoðað aðrar leiðir? Ég held að það séu full rök fyrir því, jafnvel umhverfisleg, þó ekki væri nema að nefna fjárhagsleg rök, sparnað í eldsneyti og því um líkt. Okkur ber að ræða hugmyndir sem þessar.

Þær eru og verða að sjálfsögðu framtíðarmál, ekki síst í ljósi þess sem greinir hér í áætluninni þar sem kemur fram í nefndaráliti með tillögunni að nefndin öll hefur verulegar áhyggjur af því að áætlunin eins og hún liggur hér fyrir gerir ekki einu sinni ráð fyrir því að hægt sé að sinna viðhaldi á vegum með skynsamlegum eða ásættanlegum hætti. Þá er nú illa komið fyrir garminum ríkissjóði ef við erum orðin í vandræðum með að viðhalda því vegakerfi sem fyrir er því að á sumum stöðum er það ekki mjög burðugt og nægir þá bara að nefna blessaðan hringveginn, sem menn hafa oftast nær verið fastir á í umræðunni í morgun. Ef við förum út fyrir hann og skoðum tengivegi, safnvegi — af því að hv. formaður samgöngunefndar er hér — eru menn enn í sama byggðarlaginu, Fjallabyggð, að keyra Lágheiðina á milli tveggja þéttbýliskjarna. Sem betur fer hillir undir það að menn taki ný skref í þeirri byggð með opnun Héðinsfjarðarganga í september. En þetta er veruleikinn sem fólk á þessu svæði hefur búið við í allmörg ár, allt frá því sveitarfélögin voru sameinuð. Blessaður hringvegurinn er ekki einu sinni allur í dag lagður bundnu slitlagi. Það er stutt síðan maður ók á moldarvegi um vegi í mínu kjördæmi. Ég ætla nú ekkert að fara miklu dýpra í það því að ég ætlaði helst ekki að detta niður í kjördæmaumræðuna.

Ég vil nefna það líka út af viðhaldinu að við sjálfstæðismenn lögðum fram tillögu við fjárlagagerð fyrir árið 2010 þar sem við buðum upp á samstarf um meiri lækkun útgjalda en tillögur stjórnarmeirihlutans lágu til. Ein af þeim tillögum var að verja hærri fjárhæðum til viðhalds þeirra verkefna sem Vegagerðin er að glíma við og vorum við þar að ræða fjárhæð upp á 4,4 milljarða. Við því var ekki orðið af einhverjum óútskýrðum ástæðum og nú erum við að horfa fram á það að sú fjárhæð sem ætluð er í þetta eru 1,9 milljarðar kr. Það er sameiginlegt mat nefndarinnar að þetta dugi ekki með neinum hætti til.

Þegar við horfum á heildardæmið allt saman sjáum við að það er gríðarlegur samdráttur í beinum framlögum ríkissjóðs til samgönguframkvæmda, hvaða nafni sem þær nefnast, og kemur væntanlega inn í fjárlagagerðina. Framkvæmdamagnið í fjárhæðum hins vegar skerðist í rauninni ekkert svo mikið. Það sem veldur því að menn geta haldið með þeim hætti á málum er í rauninni ósköp einfaldlega það að vinstri grænt framboð er farið að sætta sig við þær hugmyndir sem menn hafa þar á bæ gagnrýnt í áranna rás, að einkaframkvæmd væri ættuð frá Húsavíkur–Jóni.

Nú er staðan þannig að í samgönguáætluninni og í þeim áformum sem ríkisstjórnin hefur uppi er gert ráð fyrir því að bróðurpartur framkvæmda á sviði samgöngumála verði fjármagnaður í einkaframkvæmd. Með öðrum orðum, það er áætlað að halda úti svipuðu framkvæmdamagni en það á bara að skattleggja landsmenn með öðrum hætti en gert hefur verið, þ.e. með notendagjöldum, til að standa undir þessu. Um það getur vel verið samkomulag en menn verða að ræða þessi mál undir réttum formerkjum hverju sinni og viðurkenna það að þeir hafi fallist á einhverja aðra hugmyndafræði en þeir börðust gegn á sínum tíma.

Eina raunverulega viðbótin inn í samgönguáætlun eins og hún liggur hér fyrir er hv. þm. Ásbirni Óttarssyni að þakka, þó ekki væri nema fyrir uppruna hans og starfsreynslu, og hún er sú að það bætast við 10 millj. kr. í öryggismál sjómanna. Þetta er eina hreina krónutöluhækkunin í samgönguáætlun, 10 millj. kr. í öryggismál sjómanna. (Gripið fram í.) Hún verður 20 milljónir í heildina, en hún hækkar um 10 milljónir. Hv. formaður samgöngunefndar leiðrétti mig hér snarlega og tvöfaldar upphæðina. Er einhver hv. þingmaður í salnum sem vill redobbla? (BVG: Tvisvar tíu.) Tvisvar tíu, segir hv. þm. Björn Valur Gíslason og ég tek það sem satt og rétt.

Ég vil þakka hv. þingmanni og fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í hv. samgöngunefnd sérstaklega fyrir framgöngu hans í þessu máli því að ekki veitir af, þetta er sá málaflokkur sem ekki má undir neinum kringumstæðum sæta því að verða skertur. Vissulega eru ærin verkefni á þessu sviði.

Að lokum í fyrstu ræðu minni vil ég, forseti, nefna sérstaklega eitt atriði sem lýtur að þjónustu ríkisins við hinar smæstu byggðir. Það eru eyjarnar við landið, það er Grímsey og síðan samgöngur yfir Breiðafjörð og við Vestmannaeyjar. Það er ekki forsvaranlegt á þessum tímum, ofan á allt annað sem þarna dynur á, að við sjáum fram á að fjárveitingar til reksturs ferja dragist saman ár frá ári. Það er ekki góður gjörningur gagnvart því þrautseiga fólki sem býr á þessum svæðum. Ég skora á menn að leita allra leiða til þess að gera búsetuna bærilegri með þeim hætti að standa vörð um þær samgöngur sem nú þegar eru þar (Forseti hringir.) fyrir hendi.