Samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012

Þriðjudaginn 15. júní 2010, kl. 14:34:06 (0)


138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012.

582. mál
[14:34]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég var spurður að því frammi í sal áðan undir ræðu hv. þingmanns hvað ég ætlaði að gera við sjóveika fólkið. Ég hef litlar áhyggjur af því, Vestmannaeyingar hafa alltaf spjarað sig. Ekki verðum við landkrabbarnir sjóveikir.

Málflutningur hv. þingmanns leiðir það í rauninni í ljós við hvað er að glíma í þessum efnum. Við erum að horfa upp á að það er verið að draga saman fjárveitingar til þeirra samgönguleiða sem ferjurnar eru. Ef við líkjum þessu við veginn sem þeir nýta sem búa á stærstu eyjunni mætti líkja þessu við það að við værum að loka ákveðnum samgönguæðum þannig að menn þyrftu að fara lengri leiðir að og frá heimili eða að og frá vinnu þegar þeir sæktu sér þjónustu.

Mér er til efs að við mundum láta það líðast á stærri svæðum ef í húfi væri afkoma fólks sem skapaði þau verðmæti sem við nýtum til að koma okkur í gegnum þennan brimskafl sem efnahagur þjóðarinnar er í. Þó að það væri ekki nema á þeirri forsendu um þessar mundir að við vinnum með öðrum hætti í samgöngum fjarlægustu byggðanna væri það stórt skref fyrir okkur ef við gætum séð Alþingi láta það ógert að draga úr möguleikum þeirra sem þarna búa til búsetu og þess að þeir geti lagt það af mörkum (Forseti hringir.) til þjóðfélagsins sem þeir hafa gert í gegnum árhundruðin.