Samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012

Þriðjudaginn 15. júní 2010, kl. 15:17:01 (0)


138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012.

582. mál
[15:17]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni fannst ég höggva of mikið í kjördæmapot landsbyggðarþingmanna en ég vil árétta það sem ég sagði í ræðu minni að mér finnst kjördæmapotið eiga að vera meira stórhuga. Við eigum að vera stærri í sniðum, stærri í hugsun þegar við vinnum að framgangi kjördæma okkar. Þess vegna talaði ég um að við landsbyggðarþingmenn ættum að leggjast á árarnar með umbjóðendum okkar í kjördæmunum, sóknarsvæðum okkar, og hugsa heildstætt um þróun svæðisins í stað þess að iðka svokallað kjördæmapot og beita okkur fyrir smávegabút hér og smávegabút þar.

Að sjálfsögðu verðum við að rækta okkar kjördæmi, til þess buðum við okkur fram, en um leið landið allt og gæta hagsmuna allra sem búa hér á landi, óháð því hvar þeir eru. Að sjálfsögðu viljum við jafna búsetuskilyrði hvar á landinu sem er. Ég er viss um að við erum sammála um það.

Í mínum huga er þetta ekki bara spurning um að breyta vinnubrögðum, láta af gamaldags vinnubrögðum sem endurspeglast í núverandi þingsályktunartillögu um samgönguáætlun sem er til umfjöllunar og ég geri mér vonir um að taki breytingum strax frá og með næsta hausti þegar við leggjum fram sóknaráætlun fyrir Ísland.

Hins vegar hef ég uppi í erminni afar áhugavert verkefni sem mun gagnast, ekki bara Suðurkjördæmi heldur líka kjördæmi hv. þm. Sigmundar Ernis Rúnarssonar. Ég mundi vilja koma (Forseti hringir.) því á framfæri í næsta andsvari. (Gripið fram í.)