Samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012

Þriðjudaginn 15. júní 2010, kl. 15:25:59 (0)


138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012.

582. mál
[15:25]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að ræða mikið um hrifningu á Evrópusambandinu eins og hv. þingmenn á undan mér því að ég deili þeirri hrifningu ekki með þeim. Hv. þingmaður sagði í lok andsvars síns: „þegar við verðum komin í Evrópusambandið“, en ég ætla svo sannarlega að vona að við lifum það hvorugir að komast í það.

Hvað um það, ég kem hér upp til að þakka hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni fyrir afskaplega góða ræðu, mér fannst hún afskaplega góð. Hann kom inn á það sem margoft hefur verið talað um í þessum ræðustól, og hv. þingmaður hefur gert áður, þ.e. misskiptinguna á skatttekjunum. Margir halda því fram, og jafnvel hv. þingmenn, að þingmenn í landshlutakjördæmunum séu í kjördæmapoti. Hv. þingmaður benti réttilega á það í ræðu sinni að þetta fjallar um hvernig skattfénu er skipt, hvort íbúar úti á landsbyggðinni njóti sanngirni í því.

Hv. þingmaður kom í ræðu sinni líka inn á ástand vega á sunnanverðum Vestfjörðum sem er alveg með ólíkindum og ekki hægt að lýsa þeim hörmungum í raun og veru nema í löngu máli. Það er nánast ófært að keyra þá vegi. Menn keyra þar á flutningabílum og sitja fastir í drullu. Menn sjá alveg hvernig þetta er.

Ég spyr hv. þingmann af því að hann gerir sér mjög vel grein fyrir þessu: Vegur um Teigsskóg hefur verið ein hörmungarsaga. Í raun og veru hafa verið til peningar fyrir honum í 10 ár, síðan 2000, en ekki hefur verið hægt að fara í framkvæmdir vegna atriða í sambandi við umhverfismat og kærur og allt sem því fylgir. Nú liggur fyrir frumvarp um að setja sérlög um þessa einu veglagningu vegna þess að annars tekur sjö ár til viðbótar að komast fyrir óvissuna um niðurstöðuna. Hver er skoðun (Forseti hringir.) hv. þingmanns á því, telur hann koma til greina að setja sérlög um þessa (Forseti hringir.) vegframkvæmd í ljósi sögunnar?