Samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012

Þriðjudaginn 15. júní 2010, kl. 16:01:01 (0)


138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012.

582. mál
[16:01]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðalatriðið er að það er í samgönguáætlun undir liðnum 5.10.5, Umferðaröryggi, 310 millj. á ári, og það er sú tala sem hér hefur verið unnið eftir. Þar sem hv. þingmaður er að tala um umferðaröryggisgjaldið ítreka ég það sem ég sagði áðan, gjaldið var tekið út af þáverandi fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins án þess að talað væri við nokkurn mann um það. Þessa upphæð, 340 millj., þarf að taka annars staðar og hún kemur af tekjustofnum Vegagerðarinnar en hún er hér inni, það er aðalatriðið. Það er ekki verið að slá neitt slöku við í umferðaröryggismálum, síður en svo. Það er verið að bæta við ef eitthvað er.

Það er rétt að hafa það í huga plús það ef við förum inn í einstaka liði, hv. þingmaður talaði um að litlu væri varið t.d. til Reykjavíkur og Suðausturkjördæmis. Mér sýnist að á árunum 2011–2012 séu það 4.500 millj., sem er langhæsta upphæðin í þeim kjördæmum eða svæðum sem hér er talað um. Þá koma þættir sem snúa að umferðaröryggismálum en bæta líka umferðarflæði, almenningssamgöngur og annað. Það fer milljarður á þessum fjórum árum í bætt umferðarflæði og almenningssamgöngur. Síðan er nýr liður inni í þessu, öryggisaðgerðir, sem eru hvorki meira né minna en 400 millj., sérmerktar, 200 millj. árið 2011 og 200 millj. árið 2012. Hér eru settir inn hjóla- og göngustígar. Það má líka tala um það sem umferðaröryggisatriði að taka þá umferð af þjóðvegunum og setja hana á brautir við hliðina. Það eru 400 millj. Svo eru göngubrýr og undirgöng 200 millj., þannig að bara það sem hér er talið upp er í kringum milljarður plús 340 millj. sem þarna eru inni. Ég verð því að biðja hv. þingmann að lesa þessa samgönguáætlun aðeins betur yfir og horfa ekki bara á bls. 87 heldur skoða aðrar blaðsíður sem eru í þessu riti.