Samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012

Þriðjudaginn 15. júní 2010, kl. 16:03:13 (0)


138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012.

582. mál
[16:03]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér er alveg fyrirmunað að skilja af hverju hæstv. ráðherra gerir athugasemd við að ég lesi upp úr skýrslunni eða áætluninni. Ef hæstv. ráðherra finnst framsetningin í samgönguáætluninni ekki rétt eða góð á hann auðvitað að taka á því en ekki að skamma þá sem lesa upp úr henni. (Samgrh.: … Lestu … á blaðsíðu …) Hæstv. ráðherra getur ekki gert athugasemdir við það að vitnað sé beint í áætlunina.

Aðalatriðið er að umferðaröryggismálin séu ekki út undan og ég spurði um þennan alþjóðlega vinkil á þessum málum. Við erum að fara inn í nýjan áratug í umferðaröryggismálum og ég sé þess ekki merki hér. Ég sé ekki heldur merki um sjálfbærar samgöngur varðandi einkabílinn. Varðandi framlögin til höfuðborgarsvæðisins veit ég ekki til þess að það sé rangt sem hér kemur fram um heildarframlög vegna stofnaðgerða. Ég fór yfir stofnkostnaðinn. Fór ég með eitthvað rangt þar? Það væri gott ef hæstv. ráðherra mundi þá leiðrétta þann misskilning. Ég tók bara það sem var í töflunni sem sýndi að um 6.700 millj. eiga fara í þessi mál á fjórum árum í Reykjavík og Suðvesturkjördæmi á meðan 13.400 millj. eiga að fara í Norðausturkjördæmi. Er þetta rangt? Ef þetta er rangt skulum við leiðrétta það. Við skulum ekki hafa það í þingtíðindum án þess að leiðrétta þetta. Ég hef engan áhuga á því að fara með rangt mál, ekki nokkurn. En ég var að vísa beint í skýrsluna, beint í samgönguáætlunina og spurði um stefnuna í samgöngumálum höfuðborgarsvæðisins. (Forseti hringir.) Ég ætla að hæstv. ráðherra mundi fagna því (Forseti hringir.) að fá að taka þá umræðu.