Samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012

Þriðjudaginn 15. júní 2010, kl. 16:05:33 (0)


138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012.

582. mál
[16:05]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil blanda mér í umræðu um tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2009–2012 með þeim breytingum sem orðið hafa á henni í meðförum hv. samgöngunefndar.

Mig langar að ræða þessa þingsályktunartillögu, þessa samgönguáætlun, til að byrja með í samhengi við frumvarp sem nú liggur fyrir þinginu og verður væntanlega afgreitt síðar í dag um stofnun opinbers hlutafélags um vegaframkvæmdir. Verði það frumvarp að veruleika, þar sem gert er ráð fyrir því að hægt sé að fjármagna ákveðnar vegaframkvæmdir með veggjöldum, má segja að það losni fjármagn sem í mínum skilningi — og ég sé ekki betur en sé sameiginlegur skilningur hv. samgöngunefndar — ætti þá að geta nýst í öðrum landshlutum til annarra verkefna, þ.e. verkefna sem ekki er að svo stöddu unnt að fjármagna með veggjöldum. Þessum skilningi vil ég koma skýrt á framfæri og ég hef skilið ræður hæstv. samgönguráðherra þannig að hann hafi sama skilning á þessu og ég. Í því samhengi fagna ég því sömuleiðis að sjá inn á samgönguáætlun komið undirbúningsfjármagn til Arnarfjarðar-/Dýrafjarðar-ganga á árinu 2012 og vona að það sé þá til vitnis um að menn hafi heilan hug á því að ráðist verði í þær framkvæmdir þegar um hægist.

Eins og fram kom í fyrri umr. um samgönguáætlun þegar við ræddum hana ekki alls fyrir löngu hlýtur það að vera vandaverk að útdeila takmörkuðum fjármunum svo sanngjarnt sé því að aðstæður landshlutanna eru misjafnar og það er afar misjafnt hversu miklar og ríkar þarfir eru fyrir samgöngubætur. Við höfum rætt í dag, og eins við fyrri umr. aðstæðurnar á afskiptasta landsvæðinu í samgöngumálum, þ.e. Norðvesturkjördæmi, nánar tiltekið á Vestfjörðum, þar sem háttar svo til að suðursvæði Vestfjarða er ekki í sómasamlegu vegasambandi við þjóðvegakerfið. Ég fagna þar af leiðandi ummælum hæstv. samgönguráðherra fyrr í dag um mikilvægi þess að bæta ástand þeirra vega og neyta allra tiltækra ráða til að flýta sem mest og ljúka vegalögninni um Barðastrandarsýslu, þessa umdeildu vegalögn sem hefur tafist árum saman og mun fyrirsjáanlega eitthvað tefjast vegna málaferla og ýmiss konar vandkvæða.

Talandi um samgöngur á þessu svæði og Arnarfjarðar/Dýrafjarðargöng vil ég líka árétta það sem ég hef áður sagt að það er auðvitað forsenda þess að markmið byggðaáætlunar og sóknaráætlunar nái fram að ganga um tengingu byggðarlaga, uppbyggingu atvinnusvæða og þjónustusvæða að þessi tenging komist á. Hún er þessu byggðarlagi lífsnauðsynleg því að það má vel rifja það upp að hvergi á landinu hefur fækkun íbúa og búsetu- og atvinnuröskun verið meiri en á því svæði.

Áður en ég segi skilið við Vestfirði vil ég taka undir það sem hér hefur komið fram í umræðum fyrr í dag um vegaframkvæmdir í Strandasýslu, þ.e. þörfina á því að fara í framkvæmdir á Veiðileysuhálsinum. Ég styð það að sjálfsögðu heils hugar að Veiðileysuhálsinn komi inn við endurskoðun samgönguáætlunarinnar í haust. Það er þörf samgöngubót sem heimamenn hafa lengi vakið athygli á og beitt sér fyrir.

Almennt séð fagna ég og lýsi mig mjög samþykka þeim megináherslum sem settar eru fram í samgönguáætlun. Ég tel að þær áherslur séu framsæknar og skýrar. Ég er mjög sátt við þau meginmarkmið sem hér eru sett fram um almenningssamgöngur, um eflingu reiðhjólanotkunar, og ég tala ekki um þá áherslu sem hér liggur á umferðaröryggi sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson gerði að umtalsefni áðan. En sérstaklega vil ég líka lýsa ánægju með það áform að gera úttekt á því með hvaða hætti megi koma á strandsiglingum að nýju með það að markmiði að draga úr landflutningum með tilheyrandi álagi á vegakerfið. Við vitum það sem búum úti á landi og búum við misjafna vegi að umferð þungaflutninga er mjög skaðleg og skemmir vegina, sérstaklega á vorin þegar þeir eru hvað viðkvæmastir vegna bleytu. Ég held að þetta sé hið besta mál og það er þá líka vonandi til þess fallið að lækka flutningskostnað.

Samgöngurnar eru hin raunverulega grunngerð samfélagsins eins og ég hef oft sagt í umræðum um samgöngumál. Líf og viðgangur byggðanna veltur á þeim. Á þeim veltur velferðarþjónustan, löggæslan, verslunin og annað atvinnulíf. Þetta væru allt í rauninni merkingarlaus hugtök ef ekki væru samgöngur og um vegakerfið berast daglega vörur og vinnuafl sem er undirstaða verslunar, þjónustu, atvinnulífs og búsetu má segja um landið allt. Sá tími sem það tekur að koma aðföngum og afurðum milli staða hefur áhrif á verðlag og þjónustugæði og þar með markaðsstöðu fyrirtækja t.d. þegar verðmætar sjávarafurðir og landbúnaðarvörur þurfa að komast fljótt á markað. Því getur aðkoma fyrirtækja í útgerð, fiskvinnslu og landbúnaði oltið verulega á góðum og traustum samgöngum. Öflug verslunarfyrirtæki veigra sér við að setja upp útibú á stöðum sem ekki njóta greiðra samgangna sökum vandkvæða og kostnaðar við að koma varningi á milli og halda uppi þjónustugæðum þannig að ástand vega getur ráðið og ræður mjög miklu um samkeppnisstöðu byggðarlaganna og þess atvinnulífs sem þar þrífst. Þetta vil ég árétta sem almennt innlegg inn í þessa umræðu. En ég undirstrika það sem ég sagði áðan sem mér finnst mikils um vert að verði þetta frumvarp að lögum, sem liggur fyrir og verður til umræðu síðar í dag, um stofnun opinbers hlutafélags um vegaframkvæmdir, bind ég vonir við að þar með losni fjármunir sem geti runnið til þarfra og mjög brýnna samgöngubóta í þeim landshlutum þar sem þessari tegund fjármögnunar verður ekki við komið.