Samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012

Þriðjudaginn 15. júní 2010, kl. 16:34:51 (0)


138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012.

582. mál
[16:34]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er svo umfangsmikið plagg að það er erfitt að spyrja margra spurninga — ég vonast kannski til að hæstv. ráðherra geti drepið á einhver atriði í lokaræðu sinni. Þegar ég var að tala um Hlíðarfótinn átti ég líka við tengingarnar yfir í Kópavog (Gripið fram í: Öskjuhlíðargöng.) — já, sem heitir Öskjuhlíðargöng, þá hef ég bara farið rangt með nafnið. Ég ætla að þakka fyrir þær 400 milljónir sem fara til Reykjavíkur út af þessum hlutum sem hæstv. ráðherra nefndi en ég sakna þess samt sem áður, þó að ég ætli ekki að fara að gagnrýna þær framkvæmdir sem eru í Suðvesturkjördæmi, þær eru líka brýnar, við þær aðstæður sem nú eru uppi, og ég veit að menn leggja áherslu á það að koma verklegum framkvæmdum í gang á sviði samgöngumannvirkja, að ekki sé meira að hafa í Reykjavík.

Mig langar að bæta við og kannski hnykkja betur á spurningum mínum út af spítalanum, ef hæstv. ráðherra gæti brugðist við því í seinna andsvari. Í svari hæstv. ráðherra við fyrirspurn Jóns Gunnarssonar um samgönguframkvæmdir vegna uppbyggingar í Vatnsmýri, vegna háskólasjúkrahúss og annarrar uppbyggingar, þá er talað um göng, þessi Öskjuhlíðargöng sem hæstv. ráðherra nefndi. Reyndar er gert ráð fyrir að þau haldi áfram til suðurs frá Reykjanesbraut í Síðuhvamm og gert er ráð fyrir að öll framkvæmdin sem þyrfti að fara í til að gera þessi mannvirki vel úr garði kosti um 25 milljarða. Er það skoðun hæstv. samgönguráðherra að fara þurfi í samgönguframkvæmdir í tengslum við byggingu Landspítala? Er það skoðun hæstv. ráðherra, bæði vegna umferðarþunga og öryggissjónarmiða, og þá ekki síst gagnvart sjúklingum, að í þær þurfi að fara? Og metur hæstv. ráðherra þær framkvæmdir upp á þá upphæð sem þarna er nefnd? Það skiptir máli að við höfum heildarmyndina þegar við tökum endanlega ákvörðun, herra forseti, um þessa framkvæmd.