Framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna

Þriðjudaginn 15. júní 2010, kl. 17:54:06 (0)


138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[17:54]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að beina stuttri fyrirspurn til hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur. Við 1. umr. þessa máls var fjallað um svokallaða Lýðræðisstofu í nefndaráliti utanríkismálanefndar þar sem hv. þingmaður situr einnig og þar var fjallað um að þjóðaratkvæðagreiðsla um Evrópusambandsumsókn skyldi kynnt í gegnum Lýðræðisstofu sem skyldi fara með framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Ég hygg að þessi breyting hafi komið frá Borgarahreyfingunni þá, sem nú er Hreyfingin. Mig langar að spyrja hv. þingmann sem einnig situr í allsherjarnefnd hvernig þessu hafi verið háttað í nefndinni, hvort hún telji þetta ekki brjóta í bága við þingsályktunina um Evrópusambandsumsóknina og hvort þetta frumvarp geti þá yfirtekið þjóðaratkvæðagreiðsluna er varðar ESB-umsóknina.