Framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna

Þriðjudaginn 15. júní 2010, kl. 18:00:01 (0)


138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[18:00]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Ég ætla ekki að halda langa tölu um þetta frumvarp. Ég er í hópi þeirra sem hafa beðið lengi eftir slíkum lýðræðisumbótum, eins og t.d. þjóðaratkvæðagreiðslum. Ég er fylgjandi auknu lýðræði og auknum völdum til íbúa landsins. Þess vegna varð ég fyrir miklum vonbrigðum með þetta frumvarp. Mér finnst vanta að almenningur geti kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslum. Það finnst mér vera mikilvægur öryggisventill í þjóðfélaginu. Við sáum hvað gerðist í janúar 2009 í hinni svokölluðu búsáhaldabyltingu. Sú bylting hefði getað orðið mun blóðugri en hún varð og ég held að við séum í raun og veru heppin að svo varð ekki. Ég óttast ástandið í haust þegar boðnar verða upp íbúðir fólks í stórum stíl. Það er nauðsynlegt að þjóðin geti á friðsaman hátt gripið inn í ákvarðanir stjórnvalda, tekið umdeild mál til sín og ákveðið að þjóðin skuli kjósa um þau.

Annað sem ég sakna í þessu frumvarpi er að minni hluti þings geti ekki vísað málum til þjóðarinnar. Við sjáum t.d. að í Icesave-málinu hefði minni hluti þings viljað vísa því til þjóðarinnar en samkvæmt frumvarpinu þarf það að vera meiri hluti þings. Við vitum öll að meiri hluti þings hefði aldrei vísað því til þjóðarinnar. Þannig mætti lengi telja. Ég óttast að meiri hluti þings muni aldrei spyrja þjóðina nema það sé ljóst að niðurstaðan verði já. Þá verður bara beðið eftir rétta augnablikinu, eins og t.d. ESB-atkvæðagreiðslunni sem við vitum að verður vísað til þjóðarinnar. Auðvitað mundi ég vilja sjá slíka atkvæðagreiðslu bindandi þótt ég viti að það verður ekki meðan við búum við óbreytta stjórnarskrá, en það er framtíðarmúsík.

Ég tek undir með hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni sem kom áðan upp í andsvar um mikilvægi þess að fram fari hlutlaus óháð kynning sem opinberir aðilar standa fyrir þannig að tryggt verði að almenningur geti einhvers staðar gengið að hlutlausum upplýsingum. Þetta finnst mér að skipti mestu máli í þessum málaflokki og mér finnst slæmt að sjá ekkert um það í þessu frumvarpi.