Framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna

Þriðjudaginn 15. júní 2010, kl. 18:05:07 (0)


138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[18:05]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Ég tel fulla ástæðu til að leggja hér orð í belg um málið sem hér er til umfjöllunar og varðar frumvarp til laga um þjóðaratkvæðagreiðslur. Bæði hér á þingi og úti í samfélaginu höfum við átt mikið samtal um það hvort ástæða sé til að setja lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna eða hvort auka beri hlut þjóðaratkvæðagreiðslna í okkar þjóðskipulagi.

Það eru ekki mörg ákvæði í íslenskum lögum sem kveða á um þjóðaratkvæðagreiðslur. Í umræðum síðustu ár og áratugi hefur í þessu samhengi verið rætt um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna í kjölfar þess að forseti Íslands synjaði lögum staðfestingar. Það hefur tvisvar sinnum gerst, fyrst þegar forseti Íslands synjaði fjölmiðlalögum staðfestingar og síðan á þessu ári þegar forseti Íslands synjaði lögum nr. 1/2010, Icesave-lögunum svokölluðu, staðfestingar sem leiddi síðan til þess að boðað var til þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-lögin sem voru stráfelld í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það er reyndar dálítið spaugilegt að ríkisstjórnin skuli koma fram með frumvarp til laga um þjóðaratkvæðagreiðslur núna skömmu eftir að fram fór þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave-lög ríkisstjórnarinnar. Áður en til hennar var boðað höfðu forustumenn ríkisstjórnarflokkanna haft um það mörg orð hversu mikilvægt það væri að auka hlut þjóðaratkvæðagreiðslna í þjóðskipulagi okkar og hversu mikilvægt það væri að veita bæði tilteknum meiri hluta á þingi og sömuleiðis hluta þjóðarinnar rétt til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu í mikilvægum málum. Þegar til stykkisins kom og forseti Íslands synjaði Icesave-lögunum staðfestingar virtist ekki vera mikil sannfæring á bak við þessar yfirlýsingar núverandi forustumanna ríkisstjórnarinnar. Hún sá auðvitað að hún hefði stefnt Icesave-málinu í fullkomið óefni. Hún vissi þá að þjóðin mundi fella frumvarpið úr gildi. Þegar loksins var boðið til þjóðaratkvæðagreiðslunnar, sem lengi hafði verið beðið eftir eins og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir veit, þá skoruðu hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra a.m.k. óbeint á þjóðina að taka ekki þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni um sitt eigið frumvarp. Þetta sýndi raunverulegan hug forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar til þjóðaratkvæðagreiðslna. Það er voðalega auðvelt að tala fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum þegar það hentar. Síðan þegar ráðandi öfl í þjóðfélaginu, eins og ríkisstjórn, sjá að þeim stendur ógn af vilja þjóðarinnar þá er gert eins lítið úr þjóðaratkvæðagreiðslum og vilja þjóðarinnar og mögulegt er. Við urðum vitni að því í tengslum við Icesave-málið. Hæstv. ráðherrar skoruðu beinlínis á fólk að taka ekki þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni og tjá hug sinn til umdeildasta máls sem rekið hefur á fjörur Alþingis og líklega á fjörur þjóðarinnar a.m.k. í áratugi. Það er af þessum ástæðum sem það er spaugilegt að ríkisstjórnin flytji nú frumvarp til laga um þjóðaratkvæðagreiðslur.

Í þeim umræðum sem ég hef tekið þátt í, bæði á Alþingi síðastliðið haust þegar við ræddum stjórnarskrárbreytingar og sömuleiðis í opinberri umræðu, hef ég verið talsmaður þess að auka vægi þjóðaratkvæðagreiðslna í þjóðskipulagi okkar og auka aðkomu fólksins að ákvarðanatöku. Ég hef lýst þeirri skoðun minni t.d. í tengslum við Evrópusambandsmálið að í ljósi þess hversu umdeilt það mál var, ekki bara innan ríkisstjórnarinnar þar sem hver höndin var upp á móti annarri eins og menn þekkja í Evrópusambandsmálinu heldur líka úti í samfélaginu, þá yrði leitað til þjóðarinnar um það hvort Ísland ætti að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Það skyldi þá gert áður en ákvörðun yrði tekin. Á þau sjónarmið var ekki fallist þrátt fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn legði fram sérstaka tillögu um það í þinginu. Heldur var látið þar við sitja að um væntanlegan aðildarsamning yrði kosið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ef ég man rétt treysti ríkisstjórnin sér ekki einu sinni til að lögfesta ákvæði í þá veru að sú þjóðaratkvæðagreiðsla væri bindandi fyrir ríkisstjórnina. Ég hef í grunninn verið hlynntur þjóðaratkvæðagreiðslum og hef viljað sjá hlut þeirra meiri í okkar þjóðskipulagi.

Það vekur hins vegar furðu mína þegar ég les þetta frumvarp og rifja upp það sem fram hefur komið, bæði hjá forustumönnum ríkisstjórnarflokkanna og ekki síður í ályktunum flokka þeirra, að þar hefur almennt verið gengið lengra en frumvarpið mælir fyrir um í yfirlýsingum um það með hvaða hætti eigi að tryggja þjóðinni aðkomu að ákvarðanatöku í landinu. Það vekur auðvitað athygli eins og hv. þm. Margrét Tryggvadóttir nefndi að ekki séu ákvæði í þessu frumvarpi sem kveða á um að einhver tiltekinn hluti atkvæðisbærra manna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslna. Með því að ávarpa ekki þá kröfu kemur ríkisstjórnin ekki til móts við sjónarmið þeirra sem eru helst fylgjandi þjóðaratkvæðagreiðslum. Eins og segir í nefndaráliti meiri hluta allsherjarnefndar er lagt til með þessu frumvarpi að sett verði almenn lög um tilhögun og framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna, bæði þegar Alþingi ákveður að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu og þegar skylt er samkvæmt stjórnarskrá að bera mál undir þjóðaratkvæði. Ég dreg ekki úr því að það er mikilvægt að hafa lög í landinu sem mæla fyrir um það með hvaða hætti eigi að standa að framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna. Þegar Alþingi ákveður að þjóðaratkvæðagreiðslur skuli fara fram eða þegar ákvarðanir forseta Íslands leiða til þess að lögum sem Alþingi hefur samþykkt en er synjað staðfestingar, þá er mikilvægt að fyrir liggi lagaumgjörð með hvaða hætti slíkar atkvæðagreiðslur eiga að fara fram.

Ég tók virkan þátt í umræðu um fjölmiðlafrumvarpið sem varð að lögum árið 2004 og samþykkti það. Í kjölfar þess að forseti Íslands synjaði fjölmiðlalögunum staðfestingar rann það upp fyrir mönnum bæði innan þings og utan að það voru ekki til nein lög um það með hvaða hætti ætti að framkvæma slíkar þjóðaratkvæðagreiðslur. Íslensk löggjöf var með öðrum orðum vanbúin þeim aðstæðum sem upp komu árið 2004. Þau voru vanbúin því hvernig ætti að taka á þeirri ákvörðun enda hafði fram að þeim tíma ekki verið búist við því að nokkur forseti mundi grípa fram fyrir hendur Alþingis og synja lögum sem lýðræðislega kjörinn meiri hluti á þingi hafði samþykkt. En það gerðist og í stað þess að boðað yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um fjölmiðlalögin voru þau numin úr gildi eins og alþjóð veit.

Hinn 5. janúar sl. þegar forseti Íslands synjaði lögum nr. 1/2010 staðfestingar og vísaði þeim til þjóðaratkvæðagreiðslu þá voru samþykkt á Alþingi sérstök lög um framkvæmd hennar. Eins og alþjóð man fór þjóðaratkvæðagreiðslan fram þann 6. mars og þrátt fyrir hvatningar hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra um að þjóðin sniðgengi þjóðaratkvæðagreiðslu þeirra eigin máls varð ríkisstjórninni ekki kápan úr því klæðinu. Góður meiri hluti kosningarbærra manna tók þátt í atkvæðagreiðslunni. 93,2% þeirra sem þátt tóku greiddu atkvæði gegn lögunum, 4,7% skiluðu auðu en einungis 1,8% studdu lögin.

Eins og komið hefur fram í máli okkar sjálfstæðismanna á þessu vor- eða sumarþingi hefði sú ákvörðun undir öllum eðlilegum kringumstæðum í öðrum löndum sem við kjósum að bera okkur saman við leitt til þess að hvaða ríkisstjórn sem væri hefði séð sóma sinn í því að segja af sér eftir að hafa beðið slíkt afhroð í þjóðaratkvæðagreiðslu um eitt helsta baráttumál sitt í stjórnmálum. En það gerði ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur ekki heldur lét eins og ekkert hefði í skorist að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslunni. Eins og var rifjað upp í dag undir liðnum um fundarstjórn forseta virðist ríkisstjórnin ekki af baki dottin. Það bárust fréttir frá Reuters-fréttastofunni um það að Hollendingar og Bretar ætluðu ekki að standa í vegi fyrir því að gengið yrði til aðildarviðræðna við Ísland um inngöngu okkar í Evrópusambandið vegna Icesave-málsins. Fulltrúar þjóðanna töldu sig hafa fengið tryggingu frá ríkisstjórninni um það að Íslendingar ætluðu að standa við skuldbindingar sínar. Það verður aðeins skilið þannig að Hollendingar og Bretar líti svo á að íslensk stjórnvöld ætli að fallast á kröfurnar sem Bretar og Hollendingar gera á hendur okkur Íslendingum. Það verða auðvitað ekki þær skuldbindingar sem við teljum að leiði af tilskipun Evrópusambandsins nr. 94/19 um innstæðutryggingar. Við höfum lýst því yfir og ég ítreka þær yfirlýsingar að ég óttast það mjög að núverandi ríkisstjórn ætli að hafa rannsóknarskýrsluna að engu. Ég óttast það mjög að hún sé í einhverju leynimakki að semja við Breta og Hollendinga og fara þar með á bak við þing og þjóð. Þetta var auðvitað útúrdúr.

Það sem skiptir máli er auðvitað að það gildi skýrar reglur um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna, ekki síst í ljósi þess ef ríkisstjórnin kýs að halda til streitu umsókn landsins að Evrópusambandinu sem samþykkt var á Alþingi með miklum naumindum að skyldi ráðist í. Eins og við munum var lögð fram þingsályktunartillaga þar sem ríkisstjórninni var falið að sækja um aðild Íslands að Evrópusambandinu og það hefur verið gert. Fyrir þinginu liggur merkileg tillaga um að sú umsókn verði dregin til baka. Ekki verður betur séð en að í samfélaginu sé mikill þrýstingur á að tillagan verði tekin til umræðu og atkvæðagreiðslu. Það er algerlega morgunljóst að meiri hluti þjóðarinnar er á móti því að Ísland gangi í Evrópusambandið. Burt séð frá skoðunum hv. þm. Magnúsar Orra Schrams á því máli. Skoðanakannanir sýna, (Gripið fram í.) þrátt fyrir sjónarmið þingmannsins sem oft leggur gott til málanna, að meiri hluti þjóðarinnar vill að þessi umsókn verði dregin til baka. Ef hæstv. ríkisstjórn ætlar að þráast við og halda umsókninni til streitu er eins gott að Alþingi samþykki frumvarp til laga um þjóðaratkvæðagreiðslur sem mæla fyrir um það hvernig framkvæmdinni skuli háttað. Það er rétt sem hv. þm Ásmundur Einar Daðason vék að í andsvari við hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur, að við sem erum andstæðingar þess að Ísland gangi í Evrópusambandið höfum miklar áhyggjur af framkvæmd þeirrar þjóðaratkvæðagreiðslu fari hún einhvern tímann fram. Dragi hæstv. ríkisstjórn ekki umsókn landsins um aðild að Evrópusambandinu til baka þá höfum við miklar áhyggjur af því að framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslunnar verði ekki sem skyldi. Það er hætta á að engir þröskuldar verði fyrir því að Evrópusambandið geti við framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslunnar komið til landsins með fulla vasa fjár og dælt út áróðri fyrir Evrópusambandsaðild. Það hefur Evrópusambandið svo sannarlega gert. Það hefur í krafti fjármagnsins keypt alls kyns áróður og auglýsingar. Með því hefur það kastað ryki í augu kjósenda með mátulegum fyrirvara í aðdraganda slíkra kosninga. Hv. þm. Ásmundur Einar Daðason nefndi ákveðin dæmi þessu sjónarmiði til stuðnings og ég geri ráð fyrir því að hv. þingmaður muni gera nánari grein fyrir þeim sjónarmiðum sínum í ræðu um þetta mál sem hann mun væntanlega flytja.

Ég tel, frú forseti, að þessu sögðu að það sé mikilvægt að um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu (Forseti hringir.) gildi einhverjar reglur. Það hefur tekist ágætlega í þessu máli.