Samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012

Þriðjudaginn 15. júní 2010, kl. 20:13:43 (0)


138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012.

582. mál
[20:13]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Í þessum breytingartillögum sem við greiðum nú atkvæði um er m.a. gert ráð fyrir fjárveitingu, þó að ekki sé hún há, vegna Dýrafjarðarganga. Það skiptir miklu máli að í upphaflegri þingsályktunartillögu, eins og hún var lögð fram af hæstv. ráðherra með samþykki ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarflokkanna, var ekki gert ráð fyrir því að fjármunum væri veitt til Dýrafjarðarganga. Hins vegar hafði verið gert ráð fyrir því í þeirri samgönguáætlun sem hafði verið í gildi að lagðir væru til fjármunir og raunar gert ráð fyrir því að hefja þar framkvæmdir árið 2010 en því var slegið á frest.

Þarna er með öðrum orðum verið að merkja inn litla fjárveitingu til þess að undirstrika ásetning þingsins um það að halda áfram undirbúningi að gangagerð á þessu svæði, sem er gífurlega mikilvægt. Það er ekki síst með hliðsjón af því sem ég greiði atkvæði með þessari breytingartillögu.