Stjórnarráð Íslands

Þriðjudaginn 15. júní 2010, kl. 22:02:54 (0)


138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

Stjórnarráð Íslands .

375. mál
[22:02]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Róberti Marshall fyrir framsögu hans. Hann mælir hér fyrir breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands og fleiri lögum, hinum svokölluðu siðareglum.

Nú langar mig til að spyrja þingmanninn í mestu hreinskilni: Telur hann þörf á þessum siðareglum? Störf og starfshættir og þær skyldur sem starfsmenn Stjórnarráðsins hafa eru meira og minna bundnar í lögum og fara lítið út fyrir þann ramma. Þessum aðilum ber náttúrlega að starfa eftir þeim lögum. Hvers vegna er verið að bæta hér einu lagi ofan á lögbundnar starfsreglur? Þegar starfsmaður ræður sig til Stjórnarráðsins gilda um hann ákveðin lög.

Í öðru lagi mig til að spyrja þingmanninn: Hvað finnst honum um þessa frumvarpsgerð? Þessu er komið inn í allsherjarnefnd, að því er virðist til þess að uppfylla 100 loforða lista ríkisstjórnarinnar en hæstv. forsætisráðherra var búinn að lofa því fyrir kosningarnar að nýjum siðareglum yrði beitt. Svo þegar þetta er komið hér til umræðu eru hvorki meira né minna, frú forseti, en fjórar lagagreinar felldar brott úr frumvarpinu. Sýnir þetta ekki arfaslök vinnubrögð í frumvarpsgerð eins og ég hef verið að benda á í þinginu? Á hvaða leið er ríkisstjórnin raunverulega þegar hún fær frumvarp eftir frumvarp til baka í höfuðið sem liggur ljóst fyrir að hvorki stenst lög né stjórnarskrá? Mig langar til að spyrja þingmanninn að þessu þar sem hann er nýtekinn við formennsku í allsherjarnefnd.