Stjórnarráð Íslands

Þriðjudaginn 15. júní 2010, kl. 22:07:15 (0)


138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

Stjórnarráð Íslands .

375. mál
[22:07]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Með framlagningu þessa frumvarps er hæstv. forsætisráðherra að gefa það í skyn að stjórnsýslan öll á Íslandi sé gjörspillt. Að mínu mati er þetta frumvarp mjög niðurlægjandi fyrir starfsmenn Stjórnarráðsins. Það getur vel verið að það séu einhverjir svartir sauðir þar innan um, ég hef ekki hugmynd um það. En að koma fram með frumvarp um siðareglur fyrir þetta sama fólk, mér finnst það ekki hægt. Þetta er mikil vantraustsyfirlýsing um fólkið sem er þó að vinna góð störf í Stjórnarráðinu.

Annað sem ég nefndi áðan og ég fékk ekki fullnægjandi svar við, í breytingartillögu nú er t.d. lagt til að 9. gr. falli brott því að þar var búið að setja inn breytingu á lögum um ráðherraábyrgð. Það kom skýrt fram í allsherjarnefnd að það gilda lög um ráðherraábyrgð og hvaða ferli fer í gang þegar ráðherra brýtur lög eins og t.d. í ráðningarmálum. Enn hefur enginn ráðherra sagt af sér á Íslandi þrátt fyrir að hafa kengbeygt allar reglur varðandi þau. Og svo að sjálfsögðu komst nefndin að raun um það að þingmannanefndin, sem tók að sér vinnu eftir rannsóknarskýrslu Alþingis, eigi að taka á þeim málum. Þarna er því ein grein felld tafarlaust brott.

Þrjár standa enn eftir, greinar 5, 7 og 8, sem á að fella brott. Þess vegna langar mig til að spyrja nýjan formann allsherjarnefndar, Róbert Marshall: Ætlar hann að beita sér fyrir því sem formaður nefndarinnar að tekin verði upp betri vinnubrögð, vandaðri gerð við frumvörp svo að þau taki ekki svona miklum breytingum á milli umferða í nefndum? Og líka: Er hann ekki svolítið sjokkeraður yfir því hve ofboðslega illa unnin frumvörp (Forseti hringir.) koma fyrir allsherjarnefnd, sem er þó sú nefnd sem (Forseti hringir.) á að sjá um þau mál að mestu leyti (Forseti hringir.) er snúa að löggjafarvaldinu?