Stjórnarráð Íslands

Þriðjudaginn 15. júní 2010, kl. 22:09:30 (0)


138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

Stjórnarráð Íslands .

375. mál
[22:09]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Jú, það er mín skoðun að stefnumótunarhlutverk Alþingis þegar kemur að löggjöf eigi að vera miklu umfangsmeira en það í raun og veru er. Ég er þeirrar skoðunar að það sé of mikið um það að heilu og hálfu frumvörpin séu smíðuð í ráðuneytunum. Ég er þeirrar skoðunar að þingið eigi að vera mun sjálfstæðara í vinnubrögðum sínum en það er og hef talað fyrir því oftar en einu sinni og oftar en tvisvar eins og ég er næstum því viss um að hv. þingmanni er kunnugt um.

Taka á út ákveðnar greinar í frumvarpinu vegna þess að í gangi er vinna á vegum sérstakrar þingmannanefndar sem á eftir að skila hugsanlega tillögum um breytingar á lögum um ráðherraábyrgð. Það er því verið að bregðast við veruleika sem ég þykist fullviss um að hafi komið til eftir að frumvarpsdrögin voru lögð fram. Þetta er því ekki endilega vísbending um óvönduð vinnubrögð af hálfu ráðuneytanna. Ég ítreka það sem ég sagði hér áðan: Það er full ástæða til þess að búa til lagaramma þannig að stofnanir Stjórnarráðsins geti sett starfsmönnum sínum siðareglur og hver undirstofnun forsætisráðuneytisins getur svo sett þrengri reglur sem eiga betur við starfsemi viðeigandi stofnana. Ég held að það hljóti að vera til bóta fremur en ágalla eða leiði til þess að ástandið verði verra. Ég held að það hljóti alltaf að vera betra ef fólk sest niður og íhugar hvað gæti hugsanlega farið úrskeiðis í starfsemi þeirri sem þau sinna og hvernig væri hægt með almennum siðareglum að koma í veg fyrir að það gerðist.