Innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta

Þriðjudaginn 15. júní 2010, kl. 22:25:39 (0)


138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

255. mál
[22:25]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta frá meiri hluta viðskiptanefndar.

Með frumvarpinu verða teknar upp í íslenskan rétt eftirfarandi tilskipanir Evrópuþingsins og ráðsins: 94/19/EB um innlánatryggingakerfi, 97/9/EB um bótakerfi fyrir fjárfesta og 2009/14/EB um breytingar á tilskipun um innlánatryggingakerfi. Síðastnefnda tilskipunin hefur ekki verið tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar. Auk þess eru í frumvarpinu lagðar til breytingar sem eru tilkomnar vegna bankahrunsins.

Í frumvarpinu er lagt til að stofnuð verði ný deild í Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta, A-deild, sem taki við iðgjaldi frá innlánsstofnunum frá gildistöku laganna, verði frumvarpið að lögum, og mun þá núverandi innstæðudeild verða B-deild og að meginstefnu starfa samkvæmt gildandi lögum nr. 98/1999, sbr. ákvæði til bráðabirgða við frumvarpið.

Frú forseti. Ég mun nú fjalla um veigamestu breytingar á frumvarpinu og helstu álitaefni sem rædd voru í hv. viðskiptanefnd.

Nefndin leggur til að sjóðurinn tryggi innstæður á safnreikningum vegna séreignarsparnaðar, hvort sem um vörsluaðila eða lífeyrissjóð er að ræða. Einnig er lögð til sú breyting á 2. gr. að lántökur innlánsstofnunar, eiginfjárreikningar, peningamarkaðsinnlán, heildsöluinnlán og safnreikningar teljist ekki til innstæðna samkvæmt frumvarpinu. Tilgangur frumvarpsins og tilskipunar um innstæðutryggingar er fyrst og fremst sá að veita innstæðueigendum ákveðna tryggingavernd fari svo að innlánsstofnun geti ekki staðið við skuldbindingar sínar. Hér er leitast við að afmarka með skýrum hætti hvaða fjármálaafurðir njóti umræddrar verndar og teljist þar með til innstæðna í skilningi frumvarpsins.

Einnig er lögð til breyting á 6. gr. Lögð er til viðbót við 3. mgr. þess efnis að kostnaður við rekstur sjóðsins greiðist af eignum hans í samræmi við hlutfall hverrar deildar í heildarkostnaði. Slíku fyrirkomulagi er ætlað að tryggja að hver deild standi undir þeim kostnaði sem stafar af henni og þannig muni t.d. ekki koma til þess að A-deild þurfi að bera kostnað af rekstri B-deildar. Þetta fyrirkomulag kemur einnig fram í 1. mgr. greinarinnar þar sem mælt er fyrir um að deildir sjóðsins hafi aðskilinn fjárhag og reikningshald og beri ekki ábyrgð á skuldbindingum hver annarrar.

Þá eru lagðar til breytingar á 10. gr. sem fela í sér talsverðar breytingar á útreikningi iðgjalda. Lagt er til að ákvæði um iðgjaldagreiðslur verði einfaldað nokkuð frá því sem fram kemur í frumvarpinu, auk þess sem kveðið er á um viðbótariðgjald sem reiknast út frá áhættustuðli hverrar innlánsstofnunar. Með tillögum um breytta 2. mgr. leggur meiri hlutinn til að almennt iðgjald skuli nema á ársgrundvelli sem svarar 1% allra innstæðna sem njóta tryggingaverndar hjá viðkomandi innlánsstofnun en í frumvarpinu er hlutfallið 0,3% af tryggðum innstæðum. Álagningargrundvöllur iðgjalds er heildarfjárhæð allra innstæðna að undanskildum þeim sem njóta ekki tryggingaverndar sjóðsins.

Meiri hlutinn leggur til nokkrar breytingar á 12. gr. frumvarpsins þar sem fjallað er um greiðslur úr A-deild sjóðsins, þ.e. greiðslur til innstæðueigenda. Lagt er til að í stað fjárhæðarinnar 50.000 evrur verði vísað til 100.000 evra en nefndin leggur þó til að í ákvæði til bráðabirgða verði miðað við 50.000 evrur út árið 2010. Öðrum breytingum sem eru lagðar til er ætlað að skýra fyrirkomulagið nánar við greiðslur úr sjóðnum, framsal krafna og forgang.

Í 4. mgr. er kveðið á um að innstæður samkvæmt lögunum teljist til forgangskrafna skv. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti. Litið er svo á að kröfur innstæðueigenda og kröfur Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta njóti sama forgangs í þrotabú þar sem um sambærilegar og samkynja kröfur er að ræða. Af því leiðir að framhaldskrafa innstæðueiganda umfram það sem hann fékk bætt frá tryggingarsjóðnum og endurkrafa sjóðsins vegna þeirra krafna sem hann fékk framseldar frá innstæðueigendum teljast jafnréttháar.

Þá er lögð til breyting á 24. gr. um að sjóðnum fremur en Fjármálaeftirlitinu verði heimilt að gera útibúum innlánsstofnana eða fyrirtækja í verðbréfaþjónustu, sem hafa staðfestu í ríki sem er ekki aðildarríki, að setja frekari tryggingar fyrir því að þau geti staðið við skuldbindingar sínar. Sjóðurinn kann að vera í betri aðstöðu en Fjármálaeftirlitið til að leggja nauðsynlegt mat á umrædd fyrirtæki en til grundvallar ákvörðun um að slík stofnun setji frekari tryggingu fyrir því að hún geti staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt lögunum verður að liggja mat á viðkomandi stofnun.

Frú forseti. Á vegum vinnunefndar hjá Evrópusambandinu er unnið að endurskoðun innstæðutryggingakerfisins og er almennt miðað við að innstæðutryggingakerfi teljist fjármögnuð á fullnægjandi hátt þegar þau ráða yfir handbæru fé sem nemur tæpum 2% af heildarupphæð tryggðra innstæðna. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að sambærilegt hlutfall verði 4%. Tryggingafræðilegar líkur á því að íslenska innstæðutryggingakerfið geti staðið við skuldbindingar sínar þegar sjóðsmyndun hefur náð 4% af tryggðum innstæðum eru því töluvert hærri en það sem aðrir telja fullnægjandi.

Bæði á fundum og í umsögnum sem nefndinni bárust var bent á að eðlilegt væri að kveða á um það í sjálfum frumvarpstextanum að fjárskuldbindingar sjóðsins nytu ekki ábyrgðar ríkisins. Meiri hlutinn bendir á að sjóðurinn er sjálfseignarstofnun og ekki í eigu ríkisins. Tryggingarsjóðurinn nýtur ekki ríkisábyrgðar enda er ekki tekið fram að svo sé.

Frú forseti. Ríkisstjórnin lýsti því yfir 9. desember 2009 að yfirlýsing hennar frá 3. febrúar 2009 væri enn í fullu gildi, þ.e. að allar innstæður í innlendum bönkum og sparisjóðum og útibúum þeirra hér á landi væru tryggðar. Fram kom að yfirlýsingin yrði ekki dregin til baka fyrr en nýtt íslenskt fjármálakerfi, með breyttri umgjörð, hefði sannað sig og þá yrði gefinn aðlögunartími. Með frumvarpinu er tryggingaverndin aukin og hækkun iðgjaldagreiðslna í sjóðinn flýtir sjóðsmyndun. Því má gera ráð fyrir að ekki verði þörf á viðbótarábyrgð í náinni framtíð.

Frú forseti. Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Undir nefndarálit meiri hlutans rita Lilja Mósesdóttir, Magnús Orri Schram, Björn Valur Gíslason, Mörður Árnason og Jónína Rós Guðmundsdóttir.