Innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta

Þriðjudaginn 15. júní 2010, kl. 22:36:24 (0)


138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

255. mál
[22:36]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Eygló Harðardóttir spyr hvers vegna sú leið er farin í þessu frumvarpi að stofna A- og B-deild undir sama hatti eða á sömu kennitölu. Í frumvarpinu kemur fram að fjárhagur deildanna er algjörlega aðskilinn þannig að ef t.d. B-deild, sem er í daglegu tali kölluð Icesave-deildin, yrði gjaldþrota mundi það ekki á neinn hátt hafa áhrif á fjárhag A-deildar, sem er þá þessi nýja deild sem bankarnir eiga að byrja að greiða iðgjöld í á þessu ári. Ástæðan fyrir því að þessar tvær deildir eru undir sama hatti er þá fyrst og fremst hagræðingaratriði, þ.e. að hafa innstæðutryggingarkerfið á sama stað frekar en á mörgum kennitölum.