Innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta

Þriðjudaginn 15. júní 2010, kl. 22:37:43 (0)


138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

255. mál
[22:37]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eitthvað fundust mér þetta vera óskýr svör. Í Bretlandi var engin uppsöfnun í innstæðutryggingarsjóðnum heldur voru bara loforð frá ríkissjóði um að hann mundi hlaupa undir bagga með sjóðnum ef á þyrfti að halda og það náttúrlega reyndist vera svo þegar Bretar lentu í erfiðleikum með banka hjá sér. Síðan var hugmyndin sú að í framhaldinu mundu þeir náttúrlega taka inn frá fjármálakerfinu til að greiða þá skuld eða þá ábyrgð sem hafði orðið til gagnvart ríkinu.

Er ekki langeðlilegast, eins og kom fram í máli hv. þingmanns, að þar sem innstæðutryggingarsjóðurinn er sjálfseignarstofnun, sjálfstæð stofnun sem ekki er í eigu ríkisins, að þeir sem nota þjónustuna og eru í raun og veru að kaupa tryggingu frá innstæðutryggingarsjóðnum borgi (Forseti hringir.) kostnaðinn við það ef nauðsynlegt er að greiða út trygginguna?