Innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta

Þriðjudaginn 15. júní 2010, kl. 22:44:59 (0)


138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

255. mál
[22:44]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að spyrja hv. þingmann þriggja spurninga varðandi það frumvarp sem hér er til umfjöllunar.

Í fyrsta lagi gengur þetta frumvarp út á það að innleiða nýja tilskipun Evrópusambandsins um innstæðutryggingar. Sú tilskipun hefur ekki verið tekin upp í EES-samninginn og það er ágreiningur, m.a. sem Norðmenn gera, um það með hvaða hætti eigi að innleiða hana í EES-samninginn. Í ljósi sögunnar og þeirrar hræðilegu reynslu sem við höfum af löggjöf Evrópusambandsins varðandi innstæðutryggingar langar mig til að spyrja hv. þingmann hvort hún hefði ekki talið skynsamlegt að tilskipunin yrði fyrst tekin upp í EES-samninginn áður en hún væri innleidd í íslenskan landsrétt.

Í öðru lagi langar mig til þess að spyrja hv. þingmann, úr því að það er tekið fram í nefndaráliti meiri hlutans að tryggingarsjóðurinn njóti ekki ríkisábyrgðar, enda ekki tekið fram að svo sé, hvers vegna það sé ekki tekið fram í lagatextanum sjálfum að ríkissjóður ábyrgist ekki skuldbindingar tryggingarsjóðsins eða þær lántökur sem hann þarf hugsanlega að fara út í vegna skuldbindinga sinna. Ég bendi á að ábending kom frá stjórn Tryggingarsjóðs innstæðueigenda um að öll tvímæli yrðu tekin af um þetta og ákvæði þar um sett inn í 6. og 8. gr. frumvarpsins.

Í þriðja lagi langar mig til þess að spyrja hv. þingmann spurningar sem er lykilspurning: Ef tryggingarsjóðurinn getur ekki staðið við lágmarkstrygginguna og er ekki fær um að slá lán fyrir lágmarkstryggingunni hver ber þá ábyrgð á þeim innlánum sem tryggingarsjóðurinn á að tryggja? Er það ríkið, eru það bankarnir eða enginn? (Forseti hringir.) Hver ber á endanum ábyrgð á innlánunum (Forseti hringir.) ef tryggingarsjóðurinn getur ekki gert það?