Innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta

Þriðjudaginn 15. júní 2010, kl. 22:47:16 (0)


138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

255. mál
[22:47]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson spyr mig þriggja spurninga sem ég ætla að reyna að svara. Í fyrsta lagi hvort ekki sé viturlegra að bíða þar til tilskipun ESB frá 2009 verði innleidd í EES-samninginn og tilgreinir að ástæðan fyrir því að ekki er búið að gera það sé sú að Norðmenn séu andvígir henni. Samkvæmt þeim upplýsingum sem komu m.a. fram á fundi nefndarinnar hafa Norðmenn verið andvígir vegna þess að þeir tryggja hærri upphæð en sem nemur þessum 50 þúsund evrum, þeir hafa verið að tryggja 100 þúsund evrur. Það hefur nú þegar komið fram að Evrópusambandið mun ekki setja 50 þúsund evra lágmark heldur 100 þúsund evra lágmark og koma þar af leiðandi til móts við kröfur Norðmanna.

Varðandi það að setja í lagatextann að ekki sé ríkisábyrgð á sjóðnum þá er það hefð í íslenskri lagagerð að þegar eitthvað er ekki tilgreint sérstaklega í lögunum er það ekki bannað. Þess vegna þótti meiri hluta nefndarinnar ekki ástæða til að tilgreina sérstaklega að ekki væri ríkisábyrgð þar sem það er ekki ríkisábyrgð.

Síðan er spurt hver beri ábyrgð á því að lána tryggingarsjóðnum ef enginn viðskiptabanki lánar honum til að fjármagna bætur til innstæðutrygginga. (Forseti hringir.) Það er heldur ekki skýrt í þessari tilskipun.