Innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta

Þriðjudaginn 15. júní 2010, kl. 22:49:30 (0)


138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

255. mál
[22:49]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Hér hefur reglan verið sú að við innleiðum tilskipanir eftir að þær eru teknar upp í EES-samninginn en ekki áður en það er gert. Þannig hefur það verið í þinginu og þannig eru skuldbindingar okkar samkvæmt EES-samningnum. Okkur ber ekki skylda til að innleiða tilskipanir sem ekki hafa verið teknar upp í EES-samninginn.

Hv. þingmaður talar um hefð í íslenskri lagasetningu, að tiltaka ekki það sem ekki má, ef svo má segja. Sagan segir okkur hins vegar það og saga Icesave-málsins kennir okkur það að ef við ætlum ekki að leggja ríkisábyrgð á skuldbindingar tryggingarsjóðsins hljótum við að verða að taka það sérstaklega fram í lögunum vegna þess m.a. að í tilskipuninni eru lagðar miklu ríkari skuldbindingar á hendur aðildarríkjunum en gert var samkvæmt gömlu tilskipuninni.

Ég ítreka síðustu spurningu mína sem hv. þingmaður svaraði ekki: (Forseti hringir.) Hver ber að hennar mati ábyrgð á innlánum ef tryggingarsjóðurinn getur ekki gert það og getur ekki tekið lán fyrir lágmarkstryggingu? Er það ríkið, eru það bankarnir (Forseti hringir.) eða e.t.v. einhver annar?