Innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta

Þriðjudaginn 15. júní 2010, kl. 22:57:40 (0)


138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

255. mál
[22:57]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Hér er að mínu áliti alvarlegasta málið sem við tökum fyrir á þessu þingi. Því miður er þetta frumvarp sem lagt er fyrir þingið til marks um það að ríkisstjórn Íslands, stjórnarmeirihlutinn og Alþingi hafa ekki dregið nokkurn einasta lærdóm af Icesave-málinu, því síður því sem stendur í 17. kafla skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis, þar sem fjallað er um Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta og ábyrgð á innlánum almennt.

Við þekkjum öll Icesave-málið og ég ætla ekki að rekja það hér, það er okkur öllum í fersku minni. Hver eru tildrög þess máls? Jú, við Íslendingar tókum upp gallaða tilskipun Evrópusambandsins. Það liggur alveg fyrir og ég held að enginn sem sé að segja satt haldi því fram að sú tilskipun hafi ekki verið meingölluð, (Gripið fram í.) enda, eins og hv. þingmaður kallar fram í, hefur henni verið breytt. Ég verð að vísu að viðurkenna, virðulegi forseti, að það er nákvæmlega það sem við erum að fjalla um hér og þær breytingar sem Evrópusambandið hefur gert á þessari tilskipun sinni eru ekki gerðar með hag Íslendinga að leiðarljósi.

Í örstuttu máli var innstæðutryggingarkerfið sett á laggirnar á vegum Evrópusambandsins og þar af leiðandi þurftum við sem aðili að Evrópska efnahagssvæðinu að taka það upp. Hugmyndin var sú að hver innstæðueigandi gæti gengið að rúmlega 20 þúsund evrum ef viðkomandi banki mundi falla. Hugsunin var sú að einn banki af hverjum 100 eða 200 mundi falla á nokkurra ára fresti. Ekki var gert ráð fyrir kerfishruni og því síður að um væri að ræða módel eins og er á Íslandi þar sem þrír stórir viðskiptabankar sjá um 80% af innlánunum.

Ástæðan fyrir deilunni í Icesave-málinu er m.a. sú að Evrópusambandið og Bretar og Hollendingar hafa haldið því fram að ríkið beri ábyrgð á skuldbindingum innstæðutryggingarsjóðsins og samkvæmt nýju tilskipuninni frá 11. mars 2009 eru þær breytingar helstar að nú er kveðið á um að ríki skuli tryggja að vernd sérhvers innstæðueiganda nemi 50 þúsund evrum. Með leyfi virðulegs forseta stendur í frumtextanum:

„Member States shall ensure that the coverage for the aggregate deposits of each depositor shall be at least EUR 50 000 in the event of deposits being unavailable.“

Í eldri tilskipun var ekki kveðið eins sterkt að orði og þar var mælt með að áskilið væri að innstæðutryggingar veittu innstæðueigendum vernd allt að 20 þúsund evrum. Í frumtextanum er það, með leyfi forseta:

„Deposit-guarantee schemes shall stipulate that the aggregate deposits of each depositor must be covered up to ECU 20 000 in the event of deposits being unavailable.“

Nú vill stjórnarmeirihlutinn taka þessa tilskipun upp en af henni má ráða að um sé að ræða harðari eða ákveðnari skuldbindingar um það að ríki eigi að koma að málum. Meiri hlutinn vill að við setjum þetta í lög núna, áður en þetta kemur inn í EES-samninginn. Þrátt fyrir að búið sé að fara yfir það margoft í umfjöllun nefndarinnar og öllum sé ljóst að sjóðurinn verður aldrei tilbúinn til þess að taka við falli eins af stóru íslensku viðskiptabönkunum. (LMós: Ríkisbönkunum.) Virðulegi forseti. Ef hv. þm. Lilja Mósesdóttir, sem kallar fram í ríkisbankar, telur að það sé lausn á vandanum þá má hv. þingmaður alveg eiga það við sig. Það breytir ekki eðli málsins.

Virðulegi forseti. Ef vilji stjórnarmeirihlutans nær fram að ganga að klára þetta sem lög frá Alþingi og ef einhver heldur að það sé fullkomlega útilokað að einhver af stóru viðskiptabönkunum þremur fari yfir er rétt að upplýsa að fyrrverandi bankastjóri Landsbankans fór yfir það að ef stefna ríkisstjórnarinnar um fyrningarleið nái fram að ganga muni það ríða ríkisbankanum, Landsbankanum, að fullu.

Virðulegi forseti. Meiri hlutinn ætlar ekki að láta staðar numið við 50 þúsund evrurnar, heldur vegna þess að embættismaður fór í heimsókn í Evrópusambandið og fékk upplýsingar um að Evrópusambandið vildi að þetta færi upp í 100 þúsund er það lagt til. Ekkert af þessu er komið inn í EES-samninginn, ekkert. En svo mikið liggur á að verða einhvers konar — ég ætla ekki að segja hvað — í augum Evrópusambandsins að menn ætla að hlaupa til og gera þetta að lögum, menn ætla ekki aðeins að setja tilskipun sem er ekki komin í Evrópska efnahagssvæðið heldur ætla menn að setja ákvæði sem er ekki einu sinni komið í tilskipunina.

Í umfjöllun nefndarinnar kom fram að þetta kerfi er svo gott að enginn innstæðutryggingarsjóður í Evrópu þolir fall stærsta bankans. En stjórnarmeirihlutinn ætlar að hlaupa til með bundið fyrir augu og setja þetta kerfi hér. Nú getur vel verið, virðulegi forseti, að í einhverjum ríkjum séu 80% innstæðna hjá þremur viðskiptabönkum. Ég veit það ekki, það má vera. En þau yrðu þá í jafnvondri stöðu og við sem munum aldrei geta þolað fall eins af viðskiptabönkunum. Þessi innstæðutryggingarsjóður veitir falskt öryggi. Bara svo því sé til haga haldið þá er þetta evrópska innstæðutryggingarkerfi svo gott að meira að segja stóru þjóðirnar gátu ekki reitt sig á það í bankakreppunni, ekki Þýskaland, ekki Bretland, ekki Írland. Þau ríki þurftu að hlaupa til og koma með önnur úrræði. Ég spyr, virðulegi forseti, eftir allar ræðurnar, alla umræðuna um að við ætluðum að læra af mistökunum, vanda okkur betur og hugsa hlutina til enda. Eftir alla þá umræðu sitjum við með frumvarp sem gæti alveg eins heitið: Við ætlum að gera sömu mistökin aftur en nú ætlum við að leggja aðeins meira í þau. Það gæti verið heitið á þessu frumvarpi. (Gripið fram í.) Röksemdafærslan er nákvæmlega sú hin sama og hefur verið frá því að við fórum inn í Evrópska efnahagssvæðið: Af því að þetta kemur frá Evrópu hlýtur þetta að vera gott og við þurfum endilega að klára þetta. Hér, virðulegi forseti, hefur stjórnarmeirihlutinn hamast í stjórnarandstöðunni og krafist þess að þetta mál verði klárað með hraði. Skiptir engu þó að allir umsagnaraðilar færu yfir að það væri ekki skýrt eða réttara sagt, ekki væri tekið fram, sem ætti að vera tekið fram, að ekki ætti að vera nein ríkisábyrgð á þessu. Það skiptir engu máli þótt allir umsagnaraðilar færu yfir það að þessi sjóður mundi aldrei veita neina vernd nema í besta falli við fall á litlum sparisjóði, eins og það var orðað. Það skiptir engu máli. Það skal keyra þetta mál í gegn.

Til að setja þetta í samhengi þá tekur það 96 ár fyrir innstæðutryggingarsjóðinn að ná innstæðum til að ráða við fall stærsta viðskiptabankans. Það er umræða um að fækka þessum viðskiptabönkum úr þremur í tvo. Í þessum útreikningum var að vísu bara gert ráð fyrir því að um væri að ræða 50 þúsund evra vernd en látum það liggja á milli hluta. Svo sannarlega er það þannig, svo við höldum öllum staðreyndum til haga, að innstæðutryggingarsjóðurinn á að ganga á undan öðrum við fall banka þannig að hann á að hafa forgang í kröfur. En það hefur líka komið fram, virðulegi forseti, að bankar á Íslandi verða trauðla fjármagnaðir nema fjármögnun fái veð á undan innstæðutryggingarsjóðnum þannig að ljóst er að menn þurfa að reiða sig á söfnun í innstæðutryggingarsjóðinn þegar menn ábyrgjast sem svarar 16 millj. á hvern reikning.

Hér voru ágætisorðaskipti áðan á milli hv. þingmanna. Hv. þingmenn Sigurður Kári Kristjánsson, Eygló Harðardóttir og Pétur Blöndal spurðu hv. þm. Lilju Mósesdóttur út í ríkisábyrgðina. Það kom nefnilega skýrt fram hjá fulltrúum meiri hlutans að þeir túlka lögin með þeim hætti að ef — vonandi gerist það aldrei — fjármálastofnun, banki eða sparisjóður, fer á höfuðið … (PHB: Það gerðist.) Það gerðist og getur gerst aftur. En þá þarf innstæðutryggingarsjóðurinn að taka lán og það kom alveg skýrt fram í túlkun hæstv. ráðherra og hv. þingmanna í meiri hlutanum að þá þyrfti ríkið að sjá til þess að sjóðurinn fengi fjármögnun. (Gripið fram í: Í staðgreiðslu.) Að ríkið þyrfti að tryggja að sjóðurinn fengi fjármögnun heitir á íslensku ríkisábyrgð. Hv. þm. Lilja Mósesdóttir sem talar sem betur fer oft skýrt svaraði ekki skýrt fyrirspurn um þetta áðan en það var gert í nefndinni. Þar kom þetta mjög skýrt fram. En gefum okkur það, virðulegi forseti, að hér sé vafi, að við séum ekki alveg viss. Ætlum við þá eftir allt sem á undan er gengið að hafa vafa á þessu risastóra máli.

Virðulegi forseti. Rök hæstv. ríkisstjórnar eru þau að nú séum við með ríkisábyrgð á öllum innstæðum og þurfum að losna út úr því og þess vegna þurfum við að koma á innstæðutryggingarkerfi. Við skulum fara yfir það því ljóst er að þetta frumvarp er ekki lausnin. Því fer víðs fjarri. Ef við förum þessa leið erum við að festa ríkisábyrgð. Virðulegi forseti. Ef einhver hefur gleymt því eða það farið fram hjá einhverjum vil ég vekja athygli á því að við eigum enn þá í harðri viðskiptadeilu út af Icesave. Það er ekki þannig að Evrópusambandið, Holland og Bretland hafi metið það sem svo að við séum laus allra mála. Nei, virðulegi forseti. Því fer víðs fjarri.

Hér erum við að taka upp tilskipun frá Evrópusambandinu sem er ekki komin í EES-samninginn. Við ætlum að vísu að bæta um betur út af upplýsingum sem ágætur embættismaður fékk frá Evrópusambandinu og ganga skrefi lengra heldur en tilskipun Evrópusambandsins gerir ráð fyrir. Við vitum að þessi lagabálkur mun einungis veita falska vernd. Við ætlum að loka deildinni sem á að greiða út Icesave-skuldbindingarnar. Hvað þýðir það, virðulegi forseti? Það þýðir að það koma ekki frekari greiðslur inn í þá deild. Við ætlum að búa til nýja deild sem er algerlega ljóst að mun aldrei geta sinnt því hlutverki sem lagt er upp með. Það þýðir að ef hlutirnir fara á versta veg erum við með sín hvora deildina sem við verðum í deilum um hvort ríkið beri ábyrgð á eða ekki. Svo við höldum öllu algerlega til haga og segjum hlutina eins og þeir eru þá er enginn að tala um bankakerfið eins og það var. Allir útreikningar og allar forsendur gera ráð fyrir því að við séum að tala um stærð bankakerfisins á Íslandi, eins og hún er núna, enga útrás, ekkert slíkt. Þetta er bara bankakerfið eins og það blasir við okkur í dag og við gerum ekki ráð fyrir að það muni stækka.

Virðulegi forseti. Það er ýmislegt í smærri kantinum sem menn hafa farið í sem er til bóta. Menn hafa hækkað iðgjaldið, sett áhættustuðla og ýmislegt annað og ekki ætla ég að gera lítið úr því. En það breytir ekki stóru myndinni. Ef vilji meiri hlutans nær fram að ganga þá verður þetta frumvarp að lögum. Það yrði skelfilegt slys og mér finnst ótrúlegt að við séum að taka þessa umræðu korter yfir ellefu þann 15. júní og það sé í alvöru vilji meiri hlutans að klára þetta mál. Það er fullkomin nauðsyn á því og hefur aldrei verið mikilvægara að ríkisstjórnin — og þá höfum við sjálfstæðismenn lýst yfir vilja okkar til samvinnu og ég held allir í stjórnarandstöðunni — hafi frumkvæði að samvinnu við Evrópusambandið og önnur lönd um aðra lausn á þessu máli. Nú er það svo, virðulegi forseti, að menn geta haft alls konar skoðanir á Evrópusambandinu en hins vegar er það þannig að þau lönd sem eru í Evrópusambandinu og í þessu tilfelli Evrópska efnahagssvæðinu hafa margoft gætt hagsmuna sinna gagnvart því og oftar en ekki hefur það borið árangur. Hefur sú hagsmunagæsla borið árangur? Þegar ég var ráðherra í ríkisstjórn fór ég og talaði við framkvæmdastjóra í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins út af lyfjamálum. Þá fékk ég mörgum sinnum að heyra að það þýddi ekki neitt, þetta væri Evróputilskipun og það væri eins og eitthvað sem væri greypt í stein en niðurstaðan varð sú, virðulegi forseti, að það bar árangur og hefði örugglega borið betri árangur hefðu eftirmenn mínir í embætti fylgt því betur eftir. En aðalatriðið er þetta: Þessi leið, þessi túlkun er ekki fær fyrir okkur Íslendinga, hún er ekki fær. Hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans verða að skilja það og taka það alvarlega. Þetta snýst ekki um það að ganga frá einhverju máli á færibandi. (LMós: Hvernig ætlum við að tryggja innstæður?)

Virðulegi forseti. Ég vonast til þess að hv. þm. Lilja Mósesdóttir kalli ekki bara úr sal heldur fari í andsvar og í orðaskipti við mig út af þessu máli. Hún spyr úr þingsal: Hvernig ætlum við að tryggja innstæður? Það er verkefnið, virðulegi forseti, því að það er alveg ljóst að þessi leið er ekki fær. Við viljum öll losna undan þeirri ríkisábyrgð sem er til staðar hjá ríkisstjórninni. Allir eru sammála um það. En það að ábyrgjast 16 millj. á hvern innlánsreikning og segjast vera með sjóð sem allir vita að er ekki burðugur og mun ekki geta tekið við þeim áföllum er ekki lausn. Þetta mál verður að vinna betur. Bent hefur verið á að hugsanleg lausn sé að taka þátt í samvinnu í stærri sjóðum. Ég veit ekki hvort það er gerlegt. Menn hafa oft talað um sameiginlegan evrópskan innstæðutryggingarsjóð, hann er a.m.k. ekki að detta inn, virðulegi forseti. Slíkt væri mjög æskilegt ef svo væri en þá ættum við að gera ráðstafanir til að vera þar og vita hvernig þau mál standa en miðað við þær upplýsingar sem við höfum og komu fram í nefndinni þá er það ekki að gerast. Og hvort einhverjar þjóðir vilja vinna með okkur að þessu, þ.e. að við gætum tekið þátt í sjóðum hjá einhverjum stærri þjóðum, ég veit ekki hvort það er fjarlægt eða raunhæft. En ég tel að málstaður okkur gæti ekki verið mikið sterkari en hann er í dag. Það þarf ekki að útskýra það fyrir einum eða neinum, hvorki forsvarsmönnum Evrópusambandsins né öðrum þjóðum að við höfum ekki áhuga á að fara sömu leið og við fórum varðandi Icesave-málið. Hver maður sér að ef túlkun meiri hlutans er rétt og ríkissjóður þarf að koma að þessu á einhverjum tímapunkti þá er það eitthvað sem hann getur ekki borið. Það liggur alveg fyrir.

Þess vegna, virðulegi forseti, þurfum við að vinna þetta betur og höfum lýst okkur tilbúna til að taka þátt í þeirri vinnu. En hvort sem okkur líkar betur eða verr verður frumkvæðið að koma frá ríkisstjórninni. Það er alveg ljóst, virðulegi forseti, að þrátt fyrir góðan vilja hv. þingmanna er mál eins og þetta á forræði hæstv. ríkisstjórnar. Ég er tilbúinn til að leggja mjög mikið á mig til að hjálpa til við að finna lausn á þessu máli því það má ekki fara í gegnum þingið eins og það liggur fyrir núna. Það er lykilatriði að það gerist ekki og ég hvet hv. þingmenn í meiri hlutanum til að vinna með okkur og hafa forustu um að finna aðra lausn því að engin málefnaleg rök hafa komið fram sem mæla með því að við klárum þetta með þeim hætti sem lagt er upp með hér.