Innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta

Þriðjudaginn 15. júní 2010, kl. 23:29:32 (0)


138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

255. mál
[23:29]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég stend að nefndarálitinu með 2. minni hluta viðskiptanefndar og get líka tekið undir mjög margt af því sem kemur fram í nefndaráliti 1. minni hluta viðskiptanefndar. Ég er svo sem ekki komin hingað upp til að endurtaka það sem þegar hefur komið fram en í nefndaráliti meiri hlutans er talað um að í frumvarpinu sé gert ráð fyrir hlutfalli af handbæru fé sem innstæðutryggingarsjóðurinn eigi að ráða yfir og eigi að vera 4% af tryggðum innstæðum, sem er þá tvöfalt hærra en það sem almennt er gert ráð fyrir að innstæðutryggingarsjóðir í Evrópu ráði yfir. Eins og komið hefur fram í máli hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar var kynnt fyrir okkur í viðskiptanefnd að raunar enginn af þeim innstæðutryggingarsjóðum sem eru til staðar í Evrópu, hvorki fyrir hrun né eftir bankakreppuna, gæti staðið undir því ef einn af stærstu bönkum þeirra færi í þrot. Þessi upphæð, þar sem miðað er við 2% eða 4% af heildarupphæð tryggðra innstæðna, virðist því vera enn ein talan sem gripin er úr lausu lofti.

Ef við veltum aðeins þessum tölum fyrir okkur er núna gert ráð fyrir því að það séu um 2.000 milljarðar sem skilgreina má sem innstæður í íslenska bankakerfinu. Af þeim ættu um 600 milljarðar að vera tryggðir, eða um þriðjungur af innstæðum, samkvæmt þessu frumvarpi. Þó að það sé ætlunin að fara frá því sem þegar er búið að samþykkja upp í 50 þúsund evrur og síðan samkvæmt þessari breytingartillögu meiri hlutans upp í 100 þúsund evrur þá bætast ekki svo háar upphæðir við vegna þess að það eru ekki margir reikningar með svo háar upphæðir í viðbót. Við getum því haldið okkur við að í kringum 30% af innstæðum séu tryggð þegar ríkisábyrgðin fellur úr gildi, eða yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um ríkisábyrgð. Miðað við 4% af þessum 600 milljörðum er að stefnt að því að þá verði 24 milljarðar í innstæðutryggingarsjóðnum. Til að við gerum okkur grein fyrir því hvað sú upphæð er raunar fáránleg þá eru á milli 400 og 500 milljarðar inni í Nýja Landsbanka í innlánum og þriðjungur af þeirri upphæð ætti að vera í kringum 120 milljarðar. Landsbankinn er okkar stærsti banki og því sjáum við að 24 milljarðar munu duga mjög skammt.

Ef við horfum síðan á þær upphæðir sem gert er ráð fyrir að verði rukkaðar inn frá fjármálafyrirtækjum árlega til að byggja upp þennan sjóð þá eru það 2,7–3 milljarðar sem verða iðgjöld í innstæðutryggingarsjóðinn. Þrír milljarðar eru þokkaleg upphæð í huga flestra en svo að við sjáum hvað þessar tölur eru afstæðar er bara vaxtakostnaðurinn við Icesave 3 milljarðar á mánuði. Þessir peningar eru því mjög fljótir að fara. Fyrir bankahrun kom fram í samráðshópnum að mig minnir, alla vega er vitnað í það í rannsóknarnefndarskýrslunni að þar hafi verið bent á að þegar Sparisjóður Mýrasýslu lenti í erfiðleikum hefðu innstæðurnar varla dugað. Upphæðin sem var í innstæðutryggingarsjóðnum hefði varla dugað til þess að tryggja innstæðurnar í Sparisjóði Mýrasýslu. Þessi 4% duga því ef lítill sparisjóður fellur. Þegar búið verður að taka af þessa yfirlýsingu um ríkisábyrgð má gera ráð fyrir því á næstu árum að einu innstæðurnar sem verða tryggðar út frá sjóðum innstæðutryggingarsjóðsins séu þær upphæðir sem eru til staðar í litlu sparisjóðunum.

Við getum hins vegar huggað okkur við það að reynslan af bankahruninu sýnir að það eru kannski einmitt minnstu sparisjóðirnir sem eru líklegastir til að lifa af svona áföll. Þeir sýndu mestu íhaldssemina, mestu varkárnina og voru fyrst og fremst í hefðbundnum bankaviðskiptum. Þeir tóku við innlánum, voru í mjög hefðbundnum og þröngt skilgreindum útlánum og því sem er skilgreint sem kortaþjónusta. Þegar við vorum að ræða frumvarp um fjármálafyrirtæki sem tók gildi nýlega, umfangsmiklar breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki, var samþykkt tillaga um að sett yrði á stofn nefnd sem mundi vinna ákveðna pólitíska stefnumörkun um hvers konar fjármálakerfi við treystum okkur til að hafa á Íslandi og gætum í raun og veru haft. Þar talaði ég um að það væri einmitt mjög mikilvægt að við veltum því fyrir okkur hvort við þyrftum ekki að aðskilja — og þetta er eitthvað sem ekki bara við framsóknarmenn höfum rætt heldur líka sjálfstæðismenn og þingmenn Hreyfingarinnar — fjárfestingarbanka og viðskiptabanka þannig að innlánstryggingar nái aðeins yfir mjög hefðbundin, þröngt skilgreind fyrirtæki sem eru bara í viðskiptabankastarfsemi sem er mjög íhaldssöm. Það er mjög mikilvægt að við skoðum þetta vel vegna þess að það hefur sýnt sig að það að vera tryggður hvetur til áhættusækni. Þetta er nákvæmlega það sem menn hafa bent á að sé gallinn við innstæðutryggingar, að þær umbuna í raun og veru áhættusömum fjármálafyrirtækjum, og það getum við engan veginn sætt okkur við.

Daginn eftir að skýrsla rannsóknarnefndar kom út voru umræður í þinginu. Þá kom hv. þm. Lilja Mósesdóttir, formaður viðskiptanefndar, upp í ræðustól, tilgreindi sérstaklega þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og sagði að við ættum að sitja í salnum, hlusta og læra. Ég sat og ég hlustaði og ég vona að ég hafi lært eitthvað. En þegar maður horfir á þetta frumvarp, þetta nefndarálit og þá umfjöllun sem hefur verið í nefndinni hefur maður miklar áhyggjur af því að kannski hefði frekar átt að beina þessum tilmælum til þingmanna Samfylkingarinnar og Vinstri grænna, því mér finnst þetta vera mjög mikið „déjà vu“. Við erum að endurreisa gamla Ísland en við höfum því miður greinilega ekki lært nóg.

Það sem er undirliggjandi — því megum við ekki gleyma og verðum svo sem að virða það við meiri hlutann — er að við erum skuldbundin samkvæmt EES-samningnum til að búa enn á ný til innstæðutryggingarkerfi sem byggir á gallaðri tilskipun og gallaðri hugmyndafræði. Þegar maður hlustar á umræður í Evrópuþinginu og les þau gögn sem unnin voru þegar þeir ætluðu sér að gera bragarbót á sinni tilskipun sést að þeir voru komnir takmarkað langt í því að gera sér virkilega grein fyrir takmörkun innstæðukerfis þeirra. Þingmenn á Evrópuþinginu, stjórnmálamenn sem sitja í framkvæmdastjórninni, voru ekki tilbúnir að gera sér grein fyrir því að innstæðutryggingakerfið sjálft er stórlega gallað. Það er því stórt verkefni. Ég tel að það þurfi að vera algert forgangsatriði hjá þessari ríkisstjórn, af því að við erum að tala um svo háar upphæðir og svo mikilvæga þætti, að nú verði farið og bankað upp á hjá Evrópusambandinu og talað um þetta, að við höldum áfram að berja á þeim. Núna er ekkert innstæðutryggingarkerfi í einu einasta Evrópuríki sem getur staðið við það sem það á að gera án þess að fá stuðning frá ríkisvaldinu. Ég tek algerlega undir það sem kemur fram í nefndarálitum minni hluta viðskiptanefndar og nefndaráliti okkar að það er nauðsynlegt að taka upp samstarf við stærri erlendan sjóð, hvort sem Norðurlandaþjóðirnar vilja vinna með okkur, sem væri langbest, eða um væri að ræða samstarf í allri Evrópu.

Hér hef ég fyrst og fremst talað um falskt öryggi og hvers konar fjármálamarkað við þurfum í rauninni að hafa til að geta staðið við þessar innstæðutryggingar — en vonandi þurfum við, íslenskir skattgreiðendur, aldrei að standa við þær. Í vinnslu þessa máls hef ég líka lagt mikla áherslu á gengisáhættuna. Það er eitt af því sem ég veit að nefndarmenn í rannsóknarnefndinni höfðu miklar áhyggjur af, að við erum að tryggja innstæður í annarri mynt. Ég bið stjórnarmenn og starfsmenn innstæðutryggingarsjóðsins að hafa í huga þá ábendingu sem kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans um möguleika til að takmarka gengisáhættuna, að færa gengisáhættuna frá sjóðnum yfir á innstæðueigendur. Ef aftur kemur til bankahruns, jafnvel þótt einn stór banki fari, verður gengið okkar fyrir áfalli.

Ég vil líka ítreka það sem ég spurði hv. þm. Lilju Mósesdóttur um varðandi A- og B-deildina. Ég tek líka að vissu leyti undir það sem hv. þm. Magnús Orri Schram sagði að ef EES-samningurinn gerir kröfu um að við þurfum að vera með innstæðutryggingarkerfi, að við þurfum að vera með þessa ábyrgð, þá er betra að ríkið ábyrgist 600 milljarða en 2.000 milljarða. Vandinn er bara sá að ríkið á hvorugt, það á hvorki 2.000 milljarða né 600 milljarða. Ég hefði raunar helst viljað að ekki hefði verið stofnaður nýr innstæðutryggingarsjóður, að við hefðum ekki haft áhyggjur af því að kröfuhafarnir út af Icesave gætu hugsanlega komist í þessa nýju peninga heldur að það væri einn sjóður áfram. Ég fagna breytingartillögum við frumvarpið sem koma frá meiri hlutanum, ég tel að þær geri það betra, en við erum ekki að taka grundvallarumræðuna um að það sé fjármálakerfið sem borgi á endanum fyrir áfallið. Það er verið að tryggja innstæðurnar og að fólk treysti sér til að setja peningana inn í bankakerfið og að sjálfsögðu eiga það að vera fjármálafyrirtækin sjálf sem borga þennan kostnað. Þegar ég fór í gegnum upphæðina áðan sást hve þessi iðgjöld ná skammt. Þrír milljarðar í vaxtakostnað á mánuði, ef við höldum okkur við þann Icesave-samning sem er á borðinu hjá okkur, og 3 milljarðar í iðgjöld á ári út af þessari tryggingu. Það var svo sem önnur spurning sem ég bar líka upp, hvort ekki væri hægt að hækka iðgjöldin enn þá frekar, en þetta er niðurstaðan.

Ég er engan veginn sátt en ég skal hins vegar viðurkenna að ég hef ákveðinn skilning á afstöðu meiri hlutans út frá þeim alþjóðlegu samningum sem við höfum gert og þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem við höfum tekið á okkur. Þetta er þá væntanlega það sem við lítum á sem kostnaðinn við EES-samninginn.