Innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta

Þriðjudaginn 15. júní 2010, kl. 23:43:41 (0)


138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

255. mál
[23:43]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Mörg af þeim málum sem hæstv. ríkisstjórn hefur lagt fram á þessu þingi eru að mínu mati afar vond. Slæm frumvörp og vond lagasetning sem mér hugnast ekki. En af öllum þeim frumvörpum tel ég að frumvarpið sem við ræðum hér, um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, sé það versta af þeim öllum og er þó samkeppnin hörð.

Eins og fram kemur í nefndaráliti 2. minni hluta viðskiptanefndar sem ég skrifa undir er frumvarp ríkisstjórnarinnar til laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta til marks um að ríkisstjórn Íslands og stjórnarmeirihlutinn á Alþingi hafi hvorki dregið nokkurn lærdóm af Icesave-málinu né af því sem fram kemur í 17. kafla skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis þar sem fjallað er um Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta og ábyrgð á innlánum almennt.

Í rauninni er það svo að með því að leggja fram þetta frumvarp lætur ríkisstjórnin eins og Icesave-málið hafi aldrei komið upp og að rannsóknarskýrsla Alþingis hafi aldrei verið skrifuð. Látið er eins og þau sjónarmið sem þar koma fram og öll þau vandræði sem ríkisstjórnin hefur verið í út af Icesave-málinu og þær ábendingar sem fram koma í rannsóknarskýrslunni, mjög vandaðar og yfirgripsmiklar ábendingar, skipti engu máli.

Frumvarpið sem við ræðum hér tekur ekki á stóru spurningunni, stóra álitamálinu sem uppi er í Icesave-málinu: Eiga íslenskir skattgreiðendur að ábyrgjast innlán í bönkum þegar þeir verða gjaldþrota?

Það furðulega við málið er að með frumvarpinu er lagt til að innleidd verði í íslensk lög tilskipun Evrópusambandsins frá árinu 2009 um innstæðutryggingar sem ekki hefur verið tekin upp í EES-samninginn. Það segir beinlínis í greinargerð með frumvarpinu að þessi tilskipun hafi ekki verið tekin upp í EES-samninginn og hafi ekki fengið þar endanlega umfjöllun. Tilskipunin er enn þá á borði sameiginlegu EES-nefndarinnar og á eftir að fá þar efnislega umfjöllun og afgreiðslu. Það er þannig og það veit ég ágætlega, hafandi setið á þingi frá árinu 2003, að almenna reglan er ekki sú að við innleiðum í íslenskan rétt tilskipanir áður en þær eru teknar upp í EES-samninginn heldur eftir að það hefur verið gert.

EES-samningurinn gengur m.a. út á að þegar Evrópusambandið samþykkir og lögfestir löggjöf fari af stað ákveðið ferli sem leiðir til þess að aðildarríkin að samningnum innleiða meginreglur þeirrar löggjafar. Því ferli er ekki lokið. Það hefur ekki einu sinni verið farið yfir það hvort íslensk stjórnvöld telji að þeim beri að innleiða allar efnisreglur tilskipunarinnar. Við höfum áður brennt okkur á því að innleiða með bundið fyrir augun tilskipanir Evrópusambandsins sem síðar kom í ljós að við þurftum ekki að innleiða. Ég nefni sem dæmi löggjöf um raforkumarkaðinn. Það er dæmi um löggjöf sem byggir á tilskipunum Evrópusambandsins og Íslendingar gengu allt of langt í að taka yfir og þurftu að gjalda fyrir það. Það er ótrúlegt að þingmenn ríkisstjórnarflokkanna skuli sætta sig við að svona sé á málum haldið svo ég tali nú ekki um þingmenn Vinstri grænna sem hafa haft ákveðnar efasemdir um Evrópusambandið og aðkomu þess að löggjafarstarfi á Íslandi. Við erum þó enn sjálfstæð og fullvalda þjóð sem eigum að ráða málum okkar sjálf og það skulum við gera í málum sem varða innstæðutryggingar ef við eigum þess nokkurn kost.

Eins og fram kom í andsvari mínu við hv. þm. Lilju Mósesdóttur þá tel ég að það sem er helst að þessu frumvarpi, helsti ókostur þess er að í því eru ekki tekin af öll tvímæli um hvort lagt sé til að íslenska ríkið beri ábyrgð á innstæðum bankanna og beri ábyrgð á skuldbindingum hins nýja tryggingarsjóðs og lántökum sem hann kann að þurfa að fara út í til að standa undir þeim skuldbindingum sem honum ber að standa undir.

Það kom beinlínis fram hjá forsvarsmönnum Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta sem komu á fund hv. viðskiptanefndar að taka yrði af öll tvímæli um hvort verið væri að leggja til að lögfest yrði ríkisábyrgð á starfsemi og skuldbindingum tryggingarsjóðsins. Þau hjá tryggingarsjóðnum óskuðu eftir að úr því yrði skorið, með vísan til 6. og 8. gr. frumvarpsins. Á það var ekki fallist af hálfu meiri hlutans. Það er auðvitað ótrúlegt í ljósi Icesave-málsins. Icesave-málið og sú deila öll gengur út á það hvort ríkið beri ábyrgð á skuldbindingum tryggingarsjóðsins, hvort um ríkisábyrgð sé að ræða, hvort íslenskir skattgreiðendur eigi að blæða fyrir það þegar bankar fara á hausinn. Það er krafa Breta og það er krafa Hollendinga en við sem viljum standa með Íslendingum og berjast fyrir íslenskum hagsmunum höfnum því að ríkisábyrgð sé sett á skuldir einkafyrirtækja sem innlán eru. Út á það gengur Icesave-málið. Við höfnum því að íslenska ríkið eigi að ábyrgjast skuldsetningu Landsbanka Íslands. Þeir sem eru ósammála því taka undir kröfu Breta og Hollendinga og það mun ég aldrei gera.

Ég spurði hv. þm. Lilju Mósesdóttur að því í andsvari áðan og varpaði þeirri spurningu reyndar einnig fram á nefndarfundi til hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra Gylfa Magnússonar, hver bæri ábyrgð á því þegar bankastofnun verður gjaldþrota og fellur og tryggingarsjóðurinn kemur til skjalanna og þarf að greiða lágmarkstryggingu til innstæðueigenda en getur ekki staðið undir þeirri skuldbindingu og er heldur ekki í færum til að taka lán til að standa undir lágmarkinu. Hver ber þá ábyrgð? Er það ríkissjóður? Er það bara tryggingarsjóðurinn sjálfur? Eru það bankarnir eða hver? Hv. þm. Lilja Mósesdóttir gat ekki svarað þeirri spurningu minni áðan og það sem verra er, hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra sem ber ábyrgð á málinu og ber það fram svaraði ekki spurningunni. Hann hefur ekki svarað spurningunni þrátt fyrir að ég hafi spurt hennar þrisvar sinnum á sama fundinum og hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra er auðvitað ekki viðstaddur þessa umræðu nú frekar en áður. Sá hæstv. ráðherra virðist ekki hafa neinn áhuga á því að taka þátt í umfjöllun um eigin frumvörp eða standa fyrir þeim. Ég vorkenni hv. þm. Lilju Mósesdóttur að þurfa að svara fyrir öll þau frumvörp sem frá því ráðuneyti og hæstv. ráðherra koma og sérstaklega þessu frumvarpi vegna þess að það er augljóst að hv. þingmaður hefur ekki mikla sannfæringu í málinu.

Af hverju spurði ég þeirrar spurningar hver bæri ábyrgð þegar tryggingarsjóðurinn getur ekki staðið við lágmarksskuldbindinguna, er ekki í færum til að taka lán fyrir henni, af hverju spurði ég að því? Vegna þess að í 5. bindi skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er þetta ein stærsta spurningin sem rannsóknarnefndin veltir fyrir sér í umfjöllun um Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta og ábyrgð á innlánum almennt samkvæmt þeim reglum sem um það gilda. Hér er langur kafli, 17. kafli skýrslunnar, líklega upp á 200 blaðsíður þar sem fjallað er mjög vandlega um þetta. Þar fer rannsóknarnefndin yfir hver sé ábyrgð ríkisins á innstæðum og skuldbindingum tryggingarsjóðsins þegar hann getur ekki staðið undir lágmarksskuldbindingum sínum og er ekki í færum til að taka lán fyrir þeim. Hver er niðurstaða rannsóknarnefndarinnar?

Þeir sem lesa 17. kafla skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis reka sig á það að þar kemur fram skipulagður, kerfisbundinn lögfræðilegur rökstuðningur fyrir því að íslenska ríkið ber ekki ábyrgð á skuldbindingum Tryggingarsjóðs innstæðueigenda samkvæmt tilskipuninni frá 1994. Það er algerlega skýrt af lestri rannsóknarskýrslunnar. Rannsóknarnefndin vísar t.d. til aðfaraorða þeirrar tilskipunar, þ.e. tilskipunar nr. 94/19/EB, með leyfi forseta:

„Í 24. málsgrein aðfaraorða tilskipunar 94/19/EB sagði hins vegar þá og segir enn: „Tilskipun þessi getur ekki gert aðildarríkin eða lögbær yfirvöld þeirra ábyrg gagnvart innstæðueigendum ef þau hafa séð til þess að koma á einu eða fleiri kerfum viðurkenndum af stjórnvöldum sem ábyrgjast innlán eða lánastofnanirnar sjálfar og tryggja að innstæðueigendur fái bætur og tryggingu í samræmi við skilmálana í þessari tilskipun.““

Þetta kemur fram í rannsóknarskýrslunni á bls. 264–265. Það eru ekki bara aðfaraorð tilskipunarinnar sem rannsóknarnefndin vísar til og leiðir þessa niðurstöðu sína af. Hún vísar líka til skrifa fræðimanna eins og Mads Andenæs prófessors og Nevenko Misitas þá gestaprófessors við Stokkhólmsháskóla. Það er vísað til Michel Tisons sem er breskur fræðimaður. Það er vitnað til doktorsritgerðar Inge Kaasens við lagadeild Háskólans í Ósló, skýrslu Financial Stability Forum og skýrslu Seðlabanka Frakklands. Niðurstaðan er klár að mati rannsóknarnefndarinnar. Íslenska ríkið ber ekki ábyrgð á skuldbindingum tryggingarsjóðsins. Nú er hins vegar verið að innleiða nýja tilskipun í íslensk lög og um hana fjallar rannsóknarnefndin. Þar kemur fram enn ein sterk vísbending um að íslenska ríkinu beri ekki að ábyrgjast kröfur Breta og Hollendinga á hendur Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta vegna Icesave-reikninga Landsbanka Íslands hf. Hana má finna í umfjöllun nefndarinnar um þær breytingar sem gerðar voru á innstæðutryggingum innan Evrópusambandsins með nýrri tilskipun um þær, nr. 2009/14/EB. Það er sú tilskipun sem hér er verið að leiða í lög.

Um samanburð á þessari nýju tilskipun Evrópusambandsins og gömlu tilskipuninni sem Icesave-málið gengur út á segir nefndin:

„Þegar hin nýja tilskipun er skoðuð vekur það athygli að til viðbótar þeim atriðum sem lagt var til að breytt væri með tillögu framkvæmdastjórnarinnar frá 15. október 2008 voru gerðar breytingar á orðalagi 1. mgr. 7. gr. tilskipunarinnar 94/19/EB en samkvæmt tilskipuninni frá 1994 hljóðaði það ákvæði svo í íslenskri þýðingu af tilskipuninni: „Innlánatryggingakerfin tryggja að samanlögð innlán hvers innstæðueiganda séu tryggð upp að 20 000 ECU ef innlánin verða ótiltæk.“ Í hinni nýju tilskipun nr. 2009/14/EB hljóðar ákvæði fyrsta málsliðar 1. mgr. 7. gr. svo: „Member States shall ensure that the coverage for the aggregate deposits of each depositor shall be at least EUR 50 000 in the event of deposits being unavailable.““

Í stað þess að gamla tilskipunin mæli fyrir um það að aðildarríkjunum sé skylt að tryggja að hér sé innstæðutryggingarkerfi þá mælir nýja tilskipunin fyrir um það að aðildarríkin skuli ábyrgjast lágmarkstrygginguna. Eins og komið hefur fram er svo sem lítið í lögskýringargögnum sem skýrir af hverju þessi breyting er gerð en það hlýtur að vera vegna þess að Evrópusambandið hefur talið að ríkisábyrgð samkvæmt nýju tilskipuninni væri ekki nógu traust þannig að breyta þyrfti orðalaginu.

Nú er það þannig að samkvæmt nýju tilskipuninni sem hv. þingmaður og hæstv. ríkisstjórn ætlar að innleiða, skal leggja ríkisábyrgð á innlán og skuldbindingar tryggingarsjóðanna. Þess vegna legg ég svo mikla áherslu á að í frumvarpinu séu tekin af öll tvímæli um þetta atriði, þ.e. að í lagatextann komi inn yfirlýsing frá löggjafanum um að ekki sé ríkisábyrgð á innlánum bankanna. Þetta er auðvitað mjög mikilvægt, ekki síst í ljósi þess að hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon hefur einkavætt tvo banka og við vitum ekki einu sinni hverjir eiga þá. Þá finnst ríkisstjórninni eðlilegt að íslenskir skattgreiðendur séu gerðir ábyrgir fyrir innlánum sem í þeim finnast ef farið er á hausinn. Það er ekki svo fjarlægt að íslenskar bankastofnanir fari á hausinn. Ásmundur Stefánsson, fráfarandi bankastjóri Landsbanka Íslands, kom fyrir nefndina og lýsti því yfir að færi ríkisstjórnin eftir stefnumörkun sinni og léti framkvæma fyrningarleið í sjávarútvegi þá mundi Landsbankinn fara á hausinn. Þá kemur til kasta tryggingarsjóðsins. Það sama gildir um hina bankana. Þá eru það ekki bara 20.000 evrur heldur ætla menn að ábyrgjast 100.000 evrur, eins og skattgreiðendur séu með fulla vasa fjár og séu reiðubúnir til að greiða fimm sinnum hærri lágmarkstryggingu en var í Icesave-málinu.

Virðulegi forseti. Þetta mál er afar vont. Það má ekki samþykkja með þeim hætti sem hér er lagt til. Sagan á að kenna mönnum að íslenska ríkið á ekki að taka á sig ábyrgðir vegna skulda einkabanka, ekki frekar en annarra fyrirtækja. Það er ekki sanngjarnt gagnvart íslenskum skattgreiðendum, gagnvart venjulegum launamanni að hann þurfi að standa undir þeim skuldum sem útrásarvíkingar eða kaupahéðnar ráðast í. Ég veit að hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson er mér sammála um þetta. Það hlýtur að vera. Við eigum að læra af sögunni, við eigum að læra af Icesave-málinu og við eigum að draga lærdóm af skýrslu rannsóknarnefndarinnar sem fjallar um þetta en því miður er það ekki gert í þessu frumvarpi.

Bráðum lýkur 2. umr. um þetta mál og það gengur til nefndar milli 2. og 3. umr. Þá þarf að snúa þeirri þróun við sem fram kemur í frumvarpinu og við þurfum að reyna að finna aðrar leiðir til að leysa málið. Ég veit vel að það þarf að vera innstæðutryggingakerfi en við skulum ekki fara þá leið sem þetta frumvarp mælir fyrir um. Við skulum reyna að finna aðrar leiðir, að minnsta kosti þar til tilskipunin hefur verið tekin upp í EES-samninginn. Við skulum leita leiða til að kanna hvort önnur ríki eru reiðubúin til að fara í samstarf við okkur um tryggingakerfið eins og það er.