138. löggjafarþing — 142. fundur,  16. júní 2010.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

255. mál
[00:03]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér þrjú nefndarálit frá hv. viðskiptanefnd um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Nú er ég ekki í viðskiptanefnd þannig að ég hef ekki getað fylgt þessu máli eftir eða fengið þær upplýsingar sem nefndin hefur fengið. Ég hef sinnt heimilunum meira og því hefur þetta orðið dálítið út undan hjá mér, en þetta er óskaplega mikilvægt mál.

Það er rétt sem hérna hefur komið fram, frá varaformanninum held ég, að við verðum að gera eitthvað. Núna mokum við iðgjöldum í sjóð sem er gjaldþrota. Við skulum bara hafa það alveg á tæru. Það er alveg óháð Icesave-samkomulaginu af því að Icesave-innstæðueigendur eiga kröfur fyrir þvílíkum upphæðum að það mun aldrei duga, hann er gjaldþrota.

Þá er það spurning hvað getum við gert. Ég held að menn hafi farið út á dálítið hættulegar brautir. Í nefndaráliti og í frumvarpinu vísa þeir í nýja tilskipun í Evrópusambandinu sem tekur upp ríkisábyrgð á þann hátt að ríkin skulu tryggja að kerfin haldi. Eftir nokkur ár sé ég ekkert annað en ríkisbanka hjá Evrópusambandinu. Það má vel vera að það gleðji einhvern en ríkisbankar geta líka farið á hausinn og hafa gert og þá lenda ábyrgðirnar á ríkissjóði hvort sem er, þannig að það bjargar ekki neinu.

Ekki nóg með það, heldur hækkuðu þeir upphæðina á hvern reikning úr 3 millj. kr. upp í 100 þúsund evrur sem er eitthvað um 16 millj. kr. Mér finnst Evrópusambandið vera á rangri leið. Það sem Evrópusambandið átti að gera svo ég kannski nefni það var að sjálfsögðu ekki að hækka upphæðina. Það átti að koma á samtryggingarkerfi milli allra innstæðutryggingarsjóða í Evrópu þannig að þeir aðstoði hver annan ef þeir verða fyrir áfalli, sérstaklega ef þeir verða fyrir hruni. Það varð ekki.

Það er til önnur leið, frú forseti, og þá ætla ég að biðja formann viðskiptanefndar að hlusta. Hún er sú að stofna nýjan sjóð með nýrri kennitölu en á grundvelli gömlu tilskipunarinnar 94/19/EB sem gildir enn þá í Noregi, Íslandi og Liechtenstein. Sú tilskipun er ekki með ríkisábyrgð, það er alla vega minn skilningur. Ég er búinn að lesa báðar þessar tilskipanir í þaula út af Icesave-málinu, sem ég af vissum ástæðum varð að kynna mér mjög vel, og sú tilskipun er ekki með ríkisábyrgð. Hún tryggir upp að 20.887 evrum og er miklu viðráðanlegri. Ég legg nú í alvöru til, og þá bið ég bæði formann og varaformann að hlusta, og af því að ég veit að formaðurinn er mjög sjálfstæður einstaklingur legg ég til að hann skoði það hvort ekki væri skynsamlegt að breyta frumvarpinu þannig að það vísi í gömlu tilskipunina. Til bráðabirgða yrði settur upp nýr sjóður með nýrri kennitölu sem vísaði í gömlu tilskipunina með gömlu upphæðirnar. Þannig gætum við unnið í kannski eitt eða tvö ár og á meðan yrði leitað samstarfs við Noreg og Liechtenstein, sem eru enn þá á EES-svæðinu, um gagnkvæmar tryggingar. Ég held að þetta gæti verið góð leið. Svo ættu menn að sjálfsögðu að senda sendinefnd til Evrópusambandsins og segja þeim að þeir séu á algjörum villigötum.

Tæknilega séð er þetta iðgjaldið, sem var 0,15% af innstæðum á ári og átti að fara upp í 1%, sem þýddi það að á sjö ára fresti mátti einn banki fara á hausinn. — Nei, fyrirgefið, einn af hverjum hundrað bönkum mátti fara á hausinn á sjö ára fresti af því að það fór upp í 1%. Það er ekki óvenjulegt að svona gerist reglulega.

Umræðan er dálítið á villigötum. Í venjulegri bankastarfsemi standast eignir, skuldir og eigið fé á, þannig að bankinn á alltaf fyrir innstæðum. Ef illa fer verða eignirnar oft minna virði en bókhaldið gerir ráð fyrir og það er það sem við erum að lenda í. Auðvitað situr alltaf eitthvað eftir af eignum, það væri mjög undarlegt ef eignirnar hyrfu algjörlega. Innstæðusjóðurinn þarf því ekki að eiga algjörlega fyrir öllum innstæðum en menn þurfa að eiga nokkuð vel fyrir þeim af því að eignirnar rýrna mjög hratt.

Í þessari nýju tilskipun er gert ráð fyrir því að þetta fari upp í 4% í staðinn fyrir 1% áður með 0,3% iðgjald. Það tekur þá 13 ár með þessu áframhaldi að ná upp í þetta hámark. Þá duga 4% ekkert voða mikið ef einn banki fer á hausinn, hvað þá þrír. Neyðarlögin gera ráð fyrir því að innstæður hafi forgang. Það er spurning hversu lengi þau gilda og það þarf að ræða.

Það sem mér finnst verst við þetta er að nota á nýju tilskipunina þó að við þurfum þess ekki, þar er ríkisábyrgð og mun hærri upphæð. Ég held að menn séu að fara út á verulega hálan ís, sérstaklega af því að nú eru bankarnir komnir í eigu erlendra aðila sem munu taka yfir eftir tvö, þrjú ár. Þá bara stofna þeir reikninga í Grikklandi og úti um alla Evrópu með mjög háum vöxtum og hrúga inn peningum sem þeir lána sjálfum sér. Síðan fer bankinn á hausinn og við berum ábyrgð á innlánum úti um alla Evrópu nákvæmlega eins og Icesave. Ég ætla að vona að það gerist ekki. Þess vegna er mjög mikilvægt að menn hafi augun opin þegar þeir samþykkja svona frumvarp.