138. löggjafarþing — 142. fundur,  16. júní 2010.

afgerandi lagaleg sérstaða Íslands varðandi tjáningar- og upplýsingafrelsi.

383. mál
[00:15]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Frú forseti. Eva Joly lét hafa það eftir sér eftir að ég sótti fundi með henni út af þingsályktunartillögu þeirri sem við fjöllum hér um, með leyfi forseta:

„Ég er stolt af því að vera til ráðgjafar þingsályktunartillögu til að tryggja alþjóðlega vernd fyrir rannsóknarblaðamennsku. Í huga mér inniber þessi ályktun sterk skilaboð og hvatningu til eflingar heilinda og gagnsæis hjá ríkisstjórnum víðs vegar um heim, þar á meðal á Íslandi. Í starfi mínu við rannsóknir á spillingu hef ég orðið vitni að því hve mikilvægt það er að hafa öflugt regluverk til tryggja aðgengi almennings að upplýsingum. Ísland getur með nýstárlegri sýn á samhengi tilverunnar og vegna tilhneigingar til að fara sínar eigin leiðir orðið hinn fullkomni staður til að hrinda af stað verkefni af þessu tagi sem yrði til þess að efla gagnsæi og réttlæti á heimsvísu.“

Ísland er á einstökum tímamótum. Á slíkum tímum er mikilvægt að finna sameiginlega framtíðarsýn og stefnu sem gæti þjappað þjóð og þingi saman. Það er markmiðið með þessari ályktun, að fela ríkisstjórninni að leita leiða til að styrkja tjáningarfrelsi, málfrelsi, upplýsingamiðlun og útgáfufrelsi hérlendis auk þess sem vernd heimildarmanna og uppljóstrara verði tryggð. Til þess að það geti orðið að veruleika þarf að undirbúa nauðsynlegar lagabreytingar eða nýja löggjöf sem byggð væri á bestu mögulegu löggjöf annarra þjóða sem við berum okkur gjarnan saman við til að skapa Íslandi sérstöðu á sviði tjáningar- og upplýsingafrelsis.

Frú forseti. Nú þegar hefur verið haft samband við fjölmarga aðila og tillagan kynnt fyrir þeim sem lýst hafa stuðningi við ályktunina enda gerir almenningur og sér í lagi fjölmiðlamenn og þeir sem berjast fyrir mannréttindum sér vel grein fyrir því hve mikilvægt það er að mörkuð verði heildræn stefna og löggjöf sem tryggir tjáningarfrelsi. Það hefur verið mikið ánægjuefni hvað þessari ályktun hefur verið tekið vel alls staðar og ánægjulegt að lesa í gegnum umsagnir frá aðilum víðs vegar úr samfélaginu en jafnframt hefur okkur borist mikill fjöldi af tölvupóstum og bréfum víðs vegar að úr heiminum þar sem lýst hefur verið stuðningi við þetta. Nú síðast lýstu stór samtök sem berjast fyrir upplýsingafrelsi í Indónesíu og Tælandi yfir stuðningi og óskum og vonum um að þetta verði að veruleika hérlendis því að ekki búa mörg lönd við það upplýsingafrelsi sem við búum við nú þegar. En við rákum okkur þó allhressilega á það að betur má ef duga skal því að hér hefur ríkt lítið gagnsæi þegar kemur að t.d. upplýsingum til almennings.

Það hefur líka verið gríðarlega mikill áhugi meðal erlendra blaðamanna á þessu máli og ég hef ekki tölu á því hvað ég er búin að fara í mörg viðtöl út af því. Eins hafa aðrir þeir sem komið hafa að gerð þessarar þingsályktunartillögu gert það. Það er ánægjulegt að flestir þessara erlendu blaðamanna sem hafa verið í sambandi við okkur hefðu áhuga á að flytja starfsemi sína, þ.e. rannsóknarblaðamennskuþátt þeirrar vinnu eða útgáfu, til Íslands ef þessi ályktun verður að veruleika. Ég talaði síðast í gærkvöldi við einn þekktasta rannsóknarblaðamann Bandaríkjanna. Þegar ég sagði henni að þetta væri að fara í umfjöllun í þinginu í dag og yrði hugsanlega samþykkt sagði hún: Hvenær get ég flutt? Ég fer að geta flutt til Íslands. Þetta virðist vera viðkvæðið og hún meinti þetta. Ég hitti hana reyndar þegar ég var með erindi um þetta í Kaliforníu í síðasta mánuði og þar var gríðarlegu áhugi og ekki bara áhugi, heldur fann ég líka þörf fyrir þetta þar því að það er alltaf verið að þrengja að upplýsinga- og tjáningarfrelsi í heiminum okkar. Ég held að fólk geri sér ekki almennt grein fyrir hvað ástandið er slæmt fyrr en það fer að tala saman um ástandið í sínu landi. Það sem hefur kannski háð okkur mest hér á Íslandi er sjálfsritskoðun og einkennilegt eignarhald á fjölmiðlum en þetta nær náttúrlega yfir miklu fleiri þætti en það.

Það hefur sem sagt verið mikill áhugi erlendra blaðamanna á fyrirhugaðri lagasetningu enda á sú stétt undir högg að sækja vegna þess að frelsi blaðamanna til að flytja fréttir er í sívaxandi mæli skert. Í þeirra huga gæti Ísland orðið að andhverfu skattaskjóla, einhvers konar rannsóknarblaðamennskuskjól. Tillögurnar í greinargerðinni eru til þess fallnar að umbreyta reglugerðinni á þann hátt að hér verði framsækið umhverfi fyrir skráningu og starfsemi alþjóðlegra fjölmiðla og útgáfufélaga, sprotafyrirtækja, mannréttindasamtaka og gagnaversfyrirtækja. Slíkar breytingar mundu treysta stoðir lýðræðis, verða hvati til nauðsynlegra umbóta hérlendis og auka gagnsæi og aðhald. Stefnumörkunin gæti gefið þjóðinni aukið vægi á erlendum vettvangi og orðið lyftistöng í atvinnu- og efnahagsmálum.

Frú forseti. Vegna þess hve heimurinn er samofinn á flestum sviðum, sér í lagi þegar kemur að frjálsu flæði fjármála og upplýsinga, er deginum ljósara að þær tálmanir á birtingu upplýsinga sem almenningur á rétt á að hafa aðgang að er ekki aðeins okkar vandamál heldur hnattrænt vandamál. Það þarf að styrkja rétt almennings til að skilja hvað er að gerast í samfélögum þeirra. Það gerum við með því að setja hér bestu mögulegu löggjöf sem völ er á til að tryggja öruggt starfsumhverfi fyrir þá hugrökku blaðamenn og rithöfunda sem margir hverjir hafa misst vinnu sína við að fjalla um málefni þeirra sem eitthvað hafa að fela og vilja leggja allt í sölurnar til að halda huldu. Með því erum við að standa vörð um réttlæti, heiðarleika og mannréttindi í alþjóðasamhengi.