138. löggjafarþing — 142. fundur,  16. júní 2010.

stjórn fiskveiða .

424. mál
[00:38]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Enn ræðum við í sölum Alþingis breytingar á lögum um fiskveiðistjórn eða stjórn fiskveiða. Við erum búin að ræða nokkur mál tengd þessum lögum og mikil vinna er víða í nefndum og starfshópum þar sem m.a. er fjallað um þau. Ef hægt er að tala um einhvers konar þema í þeim frumvörpum og breytingum sem við höfum verið með í þinginu þá er það kannski að færa töluvert mikið af ákvörðunum og valdi til hæstv. ráðherra. Það kann að vera að það sé eðlilegt og nauðsynlegt í ákveðnum tilvikum en það virðist vera orðið frekar regla en undantekning að fara þessa leið.

Það frumvarp sem við ræðum nú er, eins og fram hefur komið hjá hv. þingmönnum sem hér hafa talað, í rauninni þrenns konar. Ég ætla ekki að lengja þetta mikið en vil þó segja að það er athyglisvert og í rauninni mikilvægt að meiri hlutinn skuli flytja breytingartillögu við 2. gr. frumvarpsins, því að í henni voru atriði sem erfitt var að átta sig á en ganga nú upp, þannig að ég fagna því. Hins vegar er það þriðji og síðasti hlutinn sem fær mann einna helst til að velta vöngum yfir þessu máli. Við erum væntanlega öll sammála um að það getur haft mikil áhrif ef aflaheimildum, og þá um leið atvinnu eða atvinnuréttindum fólks í sjávarplássum, er ógnað á einhvern hátt, ef þær hverfa með öllu eða annað slíkt. Hér er hins vegar tekið mjög stórt skref í átt til þess að ráðherra, kannski ekki ráðskist með en hafi mikið um það að segja hvernig farið verður með mikil verðmæti ef til þess kemur að hafa þurfi áhyggjur af því að verðmætin séu að fara úr viðkomandi sjávarplássi.

Í áliti minni hlutans kemur fram að hætta sé á að þarna verði annars konar vandamál á ferðinni og það eru þá væntanlega viðskiptaleg vandamál og slíkt, eða vandamál varðandi hvernig á að veiða þær aflaheimildir sem ráðherra kýs að úthluta og hver á að veiða þær eða nýta á annan hátt. Ég tek undir það sem kemur fram í áliti minni hlutans að það hefði verið skynsamlegt að skoða þetta nánar. Ég verð að viðurkenna að ég þekki í raun ekki umræðurnar sem urðu í nefndinni um þetta mál, þ.e. hvort það sé einhver asi eða hvort það liggi á að bregðast svona við. Það kann að vera. Við vitum að það eru aðilar í sjávarútveginum sem eiga í rekstrarerfiðleikum og slíkt en sem betur fer er stór hluti þeirra í ágætum málum.

Þarna er ráðherra kominn með ákveðið vald til að hafa bein áhrif inn í atvinnulífið eða jafnvel viðskipti á ákveðnum stað og því er mikilvægt að hæstv. ráðherra fari mjög vandlega með það vald. Ég vil leyfa mér að segja að ég geri ráð fyrir að frumvarpið verði samþykkt á endanum í þinginu en ég skora á okkur öll að fylgjast mjög grannt með því að framkvæmdarvaldið fari vel með það vald sem verið er að fela því. Jafnframt skora ég vitanlega á hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að fara vel í gegnum það hvernig hann hyggst beita því.