138. löggjafarþing — 142. fundur,  16. júní 2010.

stofnun opinbers hlutafélags um vegaframkvæmdir.

650. mál
[01:10]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um stofnun opinbers hlutafélags um vegaframkvæmdir, þ.e. einkaframkvæmdir í vegagerð.

Ástæða þess að verið er að fara þá leið að stofna þetta einkahlutafélag í stað þess að gera þetta með hefðbundnum hætti, þ.e. að ríkið standi beint að framkvæmdunum, er sú sem allir hv. þingmenn gera sér grein fyrir, þ.e. að við megum ekki skuldbinda ríkissjóð meira en nú er orðið. Þá er sú leið farin að fara í þessar framkvæmdir og hugsunin er sú að vegtollar standi undir því að greiða fyrir framkvæmdirnar. Þess vegna er nú farið í þessar þrjár stofnbrautir, Suðurlandsveg, Vesturlandsveg og Reykjanesbraut. Ástæðan fyrir því er mjög einföld og blasir við hverjum manni, þar er umferðin nægjanlega mikil til að vegtollurinn þurfi ekki að vera óhóflega hár. Það kom fram á fundum hv. samgöngunefndar að samkvæmt áætlun Vegagerðarinnar og samgönguráðuneytisins þyrftu vegtollar að vera 160–170 kr. til að standa undir þessum framkvæmdum. Hugsunin er sú að þær þrjár stofnbrautir sem ég nefndi áðan, Suðurlandsvegur, Vesturlandsvegur og Reykjanesbraut, verði settar undir eina framkvæmd og einn vegtoll þannig að samræmi sé þar á milli — hlutafélögin eru þá reyndar orðin tvö í meðförum nefndarinnar og það verði þá eitt hlutafélag um þessar þrjár stofnbrautir.

Því er hins vegar ekki að leyna og við verðum að vera meðvituð um það að með þessu, með þeim áætlunum sem liggja fyrir í samgönguáætlun og með því sem liggur fyrir hér, erum við að taka á næstu fjórum árum ákvarðanir um að fara hugsanlega í vegaframkvæmdir fyrir utan ríkisreikning, í einkaframkvæmdir, upp á um 33,3 milljarða. Ég ætla líka að rifja það upp að þá erum við komin með fyrir utan ríkisreikning, þ.e. með Landspítala, með hjúkrunarrýmunum og Hörpu, tónlistarhúsinu, um 110,5 milljarða fyrir utan efnahag ríkisins, þ.e. sem ekki er fært til bókar. Það er um ¼ eða 25% af heildarútgjöldum ríkisins. Ég vil koma þessu hér á framfæri, virðulegi forseti, og ég hef sagt það áður við umfjöllun um sambærileg mál þar sem við erum að taka ákvarðanir fyrir utan ríkisreikning að við þurfum að fara að skoða mjög gaumgæfilega okkar gang í þessum málum.

Þessar framkvæmdir eru hins vegar hugsaðar með þeim hætti að vegtollarnir standi undir því að greiða kostnaðinn við framkvæmdirnar. Þess vegna gefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn okkur leyfi til að fara í þessar framkvæmdir þó að maður sé hugsi yfir því. Þetta þýðir, svo að maður tali bara um hlutina eins og þeir eru, auknar álögur eða aukna skattheimtu, þetta þýðir ekkert annað. Það kom líka fram að þetta mun kosta fólk sem t.d. býr á Selfossi eða í Hveragerði og þarf að sækja vinnu til Reykjavíkur um 90.000 kr. á ári, sem þýðir um 200.000 kr. tekjur til að geta staðið undir því að greiða skatta og vegtolla. Það er gríðarlega mikilvægt að hv. þingmenn geri sér grein fyrir því hvernig þetta er.

Það kom líka fram á fundi hv. samgöngunefndar að forustumenn FÍB gera alvarlegar athugasemdir við þetta og hafna þessu. Þeir benda á að nú þegar séu tollar á umferð í landinu um 36 milljarðar á ári og ekki er verið að nýta alla þá fjármuni til uppbyggingar eða viðhalds á vegakerfinu. Þeir benda réttilega á að því fylgi aukin skattheimta að fara þessa leið. Þeir fulltrúar FÍB sem komu á fund nefndarinnar bentu á að fyrir ári voru tekjur ríkissjóðs af hverjum bensínlítra 74 kr. á lítrann en eru í dag 106 kr. á lítrann, þ.e. að skattur sem rennur til ríkisins af hverjum bensínlítra hefur hækkað um 44% á einu ári. Það er gríðarlega mikilvægt, virðulegi forseti, að við ræðum hlutina eins og þeir eru, séum ekkert að búa þeim annan búning en þeir eiga að vera í.

Í mínum huga að minnsta kosti togast þetta hins vegar á við mikilvægi þess að koma framkvæmdum af stað og hjólum atvinnulífsins í gang því að algjört hrun hefur orðið hjá þeim fyrirtækjum sem starfa í mannvirkjagerð. Þetta eru líka hugsanlega einu framkvæmdirnar sem við getum farið í sem vegtollar geta staðið undir, þ.e. með 160–170 kr. kostnaði við hverja ferð. Hins vegar er búið að bæta einni grein inn í frumvarpið sem lýtur að því að stofna má hlutafélag um framkvæmdir við Vaðlaheiði og er hlutur ríkisins allt að 51% í því hlutafélagi, sem þýðir á mæltu máli að hugsanlega muni ríkið niðurgreiða veggjöld eða vegtolla í Vaðlaheiðargöngum um allt að 51%. Það kom líka fram á fundi hv. samgöngunefndar að forustumenn Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi eystra töldu að ef framkvæmdin ætti að standa undir sér að fullu þyrfti vegtollurinn að vera 1.500–1.700 kr., og því var hafnað af heimamönnum að fara í verkið í einkaframkvæmd með þeim hætti. Ef þetta verður með því móti að ríkið fari hugsanlega að greiða niður veggjöldin í Vaðlaheiðargöngum, með eins konar skuggagjöldum, þýðir það kannski um 750 kr. í vegtoll.

Það kom líka fram og var sett inn í nefndarálitið þó að því væri ekki breytt í lögunum — það hefur verið rætt um að hugsanlega verði ekki hægt að innheimta þessa vegtolla með nýju kerfi, sem er GPS-kerfi með rafrænni innheimtu, fyrr en hugsanlega árið 2017. Þessi áætlun gerir ráð fyrir því að farið verði í framkvæmdir á tímabilinu 2010–2014. Það gæti þá myndast allt að þriggja ára tímabil, eða jafnvel lengra, þar sem ekki væri hægt að innheimta fyrir framkvæmdinni. Það væri því hugsanlegt að fyrstu þrjú árin yrðu gjaldfrjáls. En niðurstaðan er sú og það kemur skýrt fram í frumvarpinu að framkvæmdin skuli greidd til baka á 25 árum, þ.e. sá vegtollur sem fylgir þessu muni vera í 25 ár.

Það kom líka fram í máli hæstv. samgönguráðherra á fundi nefndarinnar að vilji væri til þess, hann hefði rætt við forustumenn allra þingflokka um það, að stofnaður yrði þverpólitískur hópur með formlegum hætti. Það hefur verið starfandi óformlegur hópur hjá hæstv. ráðherra en það er skilningur nefndarinnar, og það kom reyndar fram mjög skýrt í máli hæstv. ráðherra, að skipaður verður þverpólitískur hópur til þess einmitt að fara yfir og útfæra það með hvaða hætti hægt er að fara í þessa framkvæmd við innheimtuna.

Það kom líka fram í meðförum nefndarinnar að hv. þingmenn í samgöngunefnd voru mjög hugsi yfir því að gefa þessa opnu heimild til framkvæmdarvaldsins. Við erum alltaf að ræða um það að styrkja löggjafarvaldið eða þingið gagnvart framkvæmdarvaldinu og þá er það sett inn í nefndarálitið þó að það sé ekki með í lögunum sem slíkum að áður en farið er í viðkomandi framkvæmdir og búið að semja um þær muni hæstv. ráðherra kynna þær fyrir samgöngunefnd, þ.e. að þingið hafi alla vega yfirsýn yfir það sem er að gerast. Ég leyni því ekkert, virðulegi forseti, að ég er mjög hugsi yfir því að framselja þetta með þessum hætti, að hæstv. ráðherra og ríkisstjórn geti tekið einhliða ákvörðun um það án þess að ég geri mér fulla grein fyrir því hvort vegtollurinn verði 160 kr. eða 260 kr. Hins vegar er lagt upp með að hann verði u.þ.b. 160–170 kr. Það kemur hins vegar fram í nefndarálitinu og það er búið að ræða það við hæstv. ráðherra og hann mun að sjálfsögðu gera það.

Það kom líka til viðbótar, virðulegi forseti, og ég ætla að enda á því að nefna það, að á fundi nefndarinnar þar sem fulltrúar Ríkiskaupa komu — af því að gert er ráð fyrir því að hlutafélagið sem verður stofnað um þessar þrjár stofnbrautir sem ég nefndi áðan, þ.e. Reykjanesbraut, Suðurlandsveg og Vesturlandsveg, muni að sjálfsögðu kaupa gögnin sem fyrir liggja hjá Vegagerðinni, það er búið að fara í hönnun á þessum vegum. En þá kom ábending um að það stangaðist hugsanlega á við lög um opinber innkaup, þ.e. að menn mættu ekki kaupa þetta öðruvísi en að fara í alútboð. Það kemur reyndar fram í nefndarálitinu og er skautað aðeins í kringum það að þetta væri hlutur sem yrði að skoða betur, þ.e. með hvaða hætti þetta yrði gert þannig að tryggt væri að þetta yrði ekki gert. Það kom reyndar fram hjá lögfræðingi samgönguráðuneytisins að hann hefði ekki áhyggjur af þessum hlutum en það kom hins vegar ábending um þetta frá Ríkiskaupum.

Þetta er hins vegar ekki vandamál hvað varðar Vaðlaheiði vegna þess að þá mun ríkið leggja inn meira hlutafé en það sem nemur þessum 10 eða 20 milljónum sem eru þarna þannig að þá getur Vegagerðin lagt inn í frumhönnunina þau gögn og það sem fylgir hönnun á verkefninu sem slíku því að það liggur fyrir að hönnunin á hverju verki fyrir sig hjá Vegagerðinni er um það bil 10–12% af kostnaði þannig að þetta eru mjög háar tölur. Það gæti hins vegar verið vandamál með þau þrjú atriði sem ég nefndi áðan en lögfræðingur samgönguráðuneytisins hafði ekki áhyggjur af því.

Virðulegi forseti. Þó að maður sé hugsi yfir þessari auknu skattheimtu, vegtollum sem gera það þó kleift að fara í þessi verkefni, met ég þá hagsmuni meiri, eins og skrifað er inn í stöðugleikasáttmálann, hversu mikils virði það er að koma hjólum atvinnulífsins í gang og forða enn frekara hruni en orðið hefur í þeim fyrirtækjum sem starfa í framkvæmdum við mannvirkjagerð.