138. löggjafarþing — 142. fundur,  16. júní 2010.

varnarmálalög.

581. mál
[02:01]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það eru þrjú atriði í ræðu hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar sem ég ætla að drepa á í þessu andsvari. Í fyrsta lagi skýtur það skökku við og hefur svo sem komið fram í umræðum áður að leggja fram frumvarp sem felur í sér að stofnun verði lögð niður og mæla síðan með því að það verði samþykkt. Það liggur í efni frumvarpsins að ekki eigi að láta af þeim verkefnum sem stofnunin hefur haft með höndum. Í öðru lagi er ekki sett fram með skýrum hætti hvar á að vista þau í framtíðinni. Aðferðin er óvenjuleg sem nota á við að breyta verkaskiptingu opinberra stofnana. Í slíkum tilvikum hafa menn tekið þetta sem heildarpakka. Þá er komið með tillögu um að leggja niður stofnanir eða sameina stofnanir og hugsað út í það hvar á að vista verkefnin. Mér finnst mjög sérstakt að menn skuli treysta sér til að fullyrða að sparnaður náist í ríkisrekstrinum með þessum aðgerðum þegar ekki liggur fyrir hvar á að vista verkefnin.

Í þriðja lagi get ég ekki látið hjá líða að nefna það að ég hjó eftir því að meiri hluti utanríkismálanefndar telur það einsýnt að verkefni Varnarmálastofnunar muni færast til ríkislögreglustjóra og Landhelgisgæslu, sérstaklega í ljósi þess að innan ríkisstjórnarflokkanna hafa margir talað fyrir því að leggja niður embætti ríkislögreglustjóra. Sú skoðun hefur heyrst frá báðum stjórnarflokkunum en þó einkum Samfylkingunni. Ég spyr (Forseti hringir.) hv. formann utanríkismálanefndar hvort í orðum meirihlutaálitsins megi lesa einhverja stefnu hvað þetta varðar.