138. löggjafarþing — 142. fundur,  16. júní 2010.

varnarmálalög.

581. mál
[02:03]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það kom bæði fram í máli mínu og nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar að við teljum það liggja nokkuð ljóst fyrir hvernig á að ráðstafa verkefnunum, þ.e. til Landhelgisgæslu og lögreglu. Eins og þingmaðurinn nefndi líka teljum við hægt að ná umtalsverðri hagræðingu með því að samþætta þessi verkefni þeirri starfsemi sem nú þegar fer fram hjá Landhelgisgæslunni og ríkislögreglustjóra.

Ég nefndi einnig lögregluna almennt í þessu efni. Meðal þeirra sem komu á fund nefndarinnar var lögreglustjórinn á Suðurnesjum. Hann upplýsti nefndina um að lögregluembættið þar gæti að sjálfsögðu sinnt margvíslegum þáttum þeirrar starfsemi sem Varnarmálastofnun fer með í dag. Hvað verður um skipulag lögreglunnar í landinu er síðan annað mál. Ég þekki þær hugmyndir sem hv. þingmaður nefndi að hugsanlega ætti að steypa öllum lögregluembættum í landinu saman í eitt og gera breytingar á embætti ríkislögreglustjóra. Um það hafa engar ákvarðanir verið teknar. Síðar kemur til kasta Alþingis að fjalla um hugmyndir og tillögur þar að lútandi. Eins og sakir standa er það afstaða mín og nefndarinnar að það liggir nokkuð ljóst fyrir hvert þessi verkefni eiga að fara. Við teljum að það sé ágætlega rökstutt bæði í greinargerð með frumvarpinu, í nefndarálitinu og skýrslunni sem sérstaklega var unnin til undirbúnings frumvarpinu.