138. löggjafarþing — 142. fundur,  16. júní 2010.

varnarmálalög.

581. mál
[02:12]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við getum öll sameinast um þau markmið að nýta betur það opinbera fjármagn sem við höfum til ráðstöfunar en það hefur farið minnkandi. Það þýðir ekki að við getum tekið rangar ákvarðanir í öllum málum og reynt að snúna þeim á hvolf og halda því fram að hér sé um hagræðingu að ræða. Þetta er einfaldlega þannig, eins og hv. þm. Birgir Ármannsson sagði áðan, að tekin var pólitísk ákvörðun um að leggja niður Varnarmálastofnun vegna þess að Vinstri grænir vildu það. Þar sem þessi pólitíska ákvörðun var tekin getum við leitt að því líkur að það hafi verið í skiptum fyrir eitthvað annað og mér dettur helst í hug Evrópusambandið. Ég hef ekki sönnur fyrir því en þetta er ágætiskenning.

Vegna þess að hv. þingmaður talar um hagræðingu þegar stofnanir eru sameinaðar, þá vil ég benda á að þrátt fyrir að óskað var eftir því í nefndinni var ekki gerð tilraun til þess af hálfu meiri hluta utanríkismálanefndar að svara og fara yfir ítarlegan spurningalista Ríkisendurskoðunar. Því þarf að svara hvernig undirbúa megi sameiningu stofnana sem best, sjá fyrir kostnað og hugsanlegan sparnað og hagræðingu. Þessum spurningalista var aldrei svarað þó kallað væri eftir því af hálfu nefndarmanna í utanríkismálanefnd. Enginn veit hvort einhver hagræðing verði þegar til lengri tíma er litið.

Það var athyglisvert sem hv. þingmaður sagði að í framtíðinni ætti að athuga hvort leggja ætti einhver þessara verkefna niður. Hér er hv. þingmaður kominn í grundvallarágreining við hæstv. utanríkisráðherra, sem margendurtók í umræðu (Forseti hringir.) og hefur ítrekað það sjónarmið sitt, að þetta hafi hvorki áhrif (Forseti hringir.) á verkefnin sem stofnunin sinnir né varnarskuldbindingar Íslands gagnvart Atlantshafsbandalaginu.