138. löggjafarþing — 143. fundur,  16. júní 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga.

670. mál
[04:19]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Það kom mjög skýrt fram í eldhúsdagsumræðunum frá hæstv. forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, og hæstv. fjármálaráðherra, Steingrími J. Sigfússyni, að þau sæju ekkert sem kæmi í veg fyrir að þingið starfaði lengur þessa vikuna. Ég hefði talið mun eðlilegra að við tækjum fyrir þessi fjögur mikilvægu mál á morgun, eða réttara sagt í dag, þannig að við gætum gefið okkur tíma til þess að ræða þetta. Þetta eru það mikilvæg mál að við eigum að vanda okkur við málsmeðferðina hér í þinginu, gefa öðrum þingmönnum sem ekki hafa starfað í nefndinni tækifæri til þess að kynna sér málið og ræða það, hlusta á umræðu hér. Ég sé það ekki gerast núna heldur fer málið í nefnd. Ég hvet þingmenn til þess að taka virkan þátt í 2. umr., lesa nefndarálitið og ræða um þetta vegna þess að þetta er stórt mál.

Í framhaldi af því sem ég talaði um er þetta úrræði fyrir þá sem verst eru staddir. Fyrir 20 árum lentu ýmis Evrópuríki í mjög slæmri bankakreppu. Þá fóru þessi ríki að setja saman greiðsluaðlögunarlög. Í Frakklandi held ég að búi um 60 milljónir manna og fyrsta árið sem Frakkar samþykktu svona frumvarp fóru held ég um 90 þúsund manns í gegnum svona greiðsluaðlögun þar, þannig að við sjáum hlutföllin. Við erum ekki að tala um að bjóða fjórðungi íslenskra heimila upp á svona úrræði, enda væri það alveg einstætt á heimsmælikvarða og mundi þýða það að dómskerfi okkar mundi gjörsamlega hrynja.