138. löggjafarþing — 143. fundur,  16. júní 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga.

670. mál
[04:21]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil bara árétta að ég held að enginn sé með þá hugmynd í gangi að það eigi að bjóða fjórðungi allra heimila upp á þetta úrræði. Ég held að við ættum að hætta að tala um það. Er ekki verið að kalla saman þing aftur 24. júní vegna þess að það þarf að ræða frekari úrræði, fyrir utan það að til eru fjölmargar leiðir fyrir fólk til þess að leita úrræða? Ég held að þegar fólk lendir í alvarlegum greiðsluvanda sé afskaplega mikil hindrun í vegi þess að þurfa að ganga frá Heródesi til Pílatusar, eða hvernig sem það var nú, nú er klukkan bara orðin of margt til þess að ég vitni í blessaða Biblíuna.

Það er mikilvægt að setja á stofn embætti umboðsmanns skuldara. Það mjög mikilvæg stofnun einmitt til þess að veita fólki ráðgjöf, ekki bara þeim sem eru hvað verst staddir heldur líka þeim sem eru í vanda en eiga með frjálsum samningum við lánastofnanir að geta leyst það með tiltölulega einföldum hætti, ef maður leyfir sér að nota svo léttvæg orð um það alvarlega vandamál sem það er að vera í greiðsluvanda. Það er mjög mikilvægt að maður geti komið á einn og sama stað og átt lögbundinn rétt á því að fá leiðbeiningar varðandi fjárhagsvanda sinn.