138. löggjafarþing — 143. fundur,  16. júní 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga.

670. mál
[04:32]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að þetta frumvarp er komið fram frá félags- og tryggingamálanefnd um greiðsluaðlögun einstaklinga ásamt þeim þrem öðrum málum sem hanga við þetta allt saman. Mig langar að fara aðeins yfir það hversu mikilvægt það er að við getum staðið saman um vinnu að þessum stóra vanda sem steðjar að íslenskum heimilum. Við sjálfstæðismenn höfum talað fyrir því allt frá því síðasta sumar að við ættum að setjast yfir þetta mál varðandi skuldavanda heimilanna saman og á þverpólitískan hátt vegna þess að það er ekki einfalt að leysa þessi mál. Það er ekki auðvelt að takast á við þessi viðfangsefni og til þess að reyna að ná sem bestri lendingu töldum við mikilvægt að það væri gert í einhvers konar sátt og sameiningu með vinnu allra flokka.

Þetta byrjaði, eins og kom fram í máli hæstv. félagsmálaráðherra, í haust þegar við fórum með þau mál sem varða greiðsluvanda heimilanna í gegnum þingið og allt frá þeim tíma höfum við verið að vinna okkur að þessu marki. Í mars, þegar frumvörpin komu fram frá félagsmálaráðuneytinu, var alveg ljóst að mikil vinna beið félags- og tryggingamálanefndar og nefndin einhenti sér í hana af miklu kappi, hefur unnið mjög mikið og vel og óháð því á hvaða tíma sólarhringsins það hefur verið. Það sýnir viljann til að reyna að leita bestu leiðanna og það er rétt, sem kom fram í máli framsögumanns frumvarpsins, hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, að þetta er ekki endilega endanlega lausnin heldur er þetta sú niðurstaða sem við getum best komist að að þessu sinni. Frumvörpin fara nú í yfirlestur hjá réttarfarsnefnd vegna þess að við viljum hafa þetta eins gott og möguleiki er á. Ég tel því að hér hafi farið fram mjög mikilvæg vinna, vönduð vinna og hún er mikilvæg að því leyti að við erum að vinna málin á talsvert annan hátt en hingað til hefur tíðkast í þinginu og ég fagna því.

Mig langar að nota tækifærið til að þakka öðrum nefndarmönnum í félags- og tryggingamálanefnd kærlega fyrir mjög gott, gefandi og oftast skemmtilegt samstarf. Stundum vorum við orðin aðeins þreytt og þó að klukkan sé orðin hálffimm að morgni er þetta eins og venjulegur dagur hjá okkur nefndarmönnum í félags- og tryggingamálanefnd. Mig langar sérstaklega að beina þökkum til hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, starfandi formanns nefndarinnar, sem hefur lagt sig í framkróka með að halda samstarfinu í nefndinni góðu, líta til allra sjónarmiða sama hvaðan þau koma og vinna að því af fullum heilindum að ná lendingu í þessum stóra og mikilvæga málaflokki.

Ég vona líka að þessi vinna sé upphafið að einhverju nýju, upphafið að einhverju meira, upphafið að áframhaldi á þessu samstarfi. Ég fagna því sem fram kom í máli hæstv. félagsmálaráðherra að hann tekur vinnu nefndarinnar vel. Hann fagnar því að við skrifum okkar eigin frumvörp í staðinn fyrir að lagfæra það sem fram kom frá ráðuneytinu án þess að vera neitt sár út í okkur fyrir það. Það er til fyrirmyndar og sýnir að við erum kannski komin ansi langt í þeirri hugsun, hvað varðar skuldavanda heimilanna, að reyna að gera þetta saman.

Síðan er það rétt, sem fram kom í máli hæstv. ráðherra, að þessi pakki er vissulega ekki lausn fyrir alla. Þetta eru úrræði fyrir þá sem verst eru staddir. Það er svo önnur umræða hvar og þá hvernig við ætlum að mæta öðrum heimilum til að reyna að hindra það að fleiri aðilar þurfi að nýta sér þessi úrræði. Það ætti að vera markmið okkar og ég vonast svo sannarlega til að við berum gæfu til að vinna í sameiningu að því stóra verkefni.