138. löggjafarþing — 143. fundur,  16. júní 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga.

670. mál
[04:38]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góðar og mjög mikilvægar spurningar. Þetta eru helstu spurningarnar sem nefndin hefur setið yfir og reynt að finna svör við. Það hafa komið fram ýmsar hugmyndir og við reyndum að undirbyggja löggjöfina með þeim hætti að setja inn þá hvata sem við töldum að kæmu til greina og gætu haldið. Reynslan ein mun svo skera úr um það hvort þetta dugir til. Ég veit að hv. þingmaður hefur verið að kynna sér löggjöfina á Norðurlöndunum og það hvernig frjáls greiðsluaðlögun hefur gengið fyrir sig þar og sá að í Noregi hefur hún t.d. ekki orðið ofan á heldur hefur þvingun orðið ofan á þar. Við höfum innbyggt inn í frumvarpið að kostnaðurinn af því að neita frjálsum samningum kemur til með að lenda á þeim aðilum sem hafna því að fara frjálsu leiðina ef til þess kemur. Það er sá hvati sem við fundum út að hægt væri að nota.

Hins vegar er það alveg rétt að við erum ekki alvitur í félags- og tryggingamálanefnd. Við viljum að réttarfarsnefnd kíki yfir þetta hjá okkur. Hugsanlega munum við nota tímann til 24. júní til að leita enn betur að því hvort við finnum einhverja fleiri hvata til að sníða inn í frumvarpið. En við verðum einfaldlega að þora að setja þetta fram, fylgja því eftir og læra síðan af reynslunni. Ég held að það sé ekkert annað að gera í stöðunni. Það verður að taka á vandanum. Þetta er það besta og það lengsta sem félags- og tryggingamálanefnd komst með þetta verkefni og ég vonast svo sannarlega til að þetta haldist.

Það er ekki hægt að segja að maður hlakki til að sjá hver niðurstaðan verður heldur verður maður einfaldlega að bíða og sjá hvort frjálsa greiðsluaðlögunin verður ofan á. Ég vona svo sannarlega að svo verði.