138. löggjafarþing — 145. fundur,  16. júní 2010.

tímabundið úrræði einstaklinga sem eiga tvær fasteignir til heimilisnota.

672. mál
[17:42]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég vil tala um öll frumvörpin sem koma frá félags- og tryggingamálanefnd af þessu tilefni. Ég fagna þeim öllum. Þau hafa verið unnin mjög vel í nefndinni að mínu viti og í miklu samráði við alla þá sem gerst þekkja til í þessum málaflokkum, réttarfarsnefnd og aðra. Þeir fá enn á ný tækifæri til að lesa frumvörpin yfir í þeirri viku sem við höfum, kannski koma fram einhverjar athugasemdir og þá bætum við úr því.

Þetta eru góð frumvörp fyrir þá sem eiga í miklum erfiðleikum. Það er mjög brýnt að við tölum þessi úrræði ekki niður heldur tölum þau upp, að við látum þau virka. Ef við þurfum að betrumbæta þau þá gerum við það. Um 1.100 manns, jafnvel 1.500, sitja uppi með tvær eignir og við erum að taka á því. Við gefum fólki kost á því að fara í greiðsluaðlögun sem á að koma fólki aftur á lappirnar ef það er í verulegum vanda. Þetta er hins vegar ekki almenn aðgerð, það er alveg rétt, og það þarf líka að leysa vanda þeirra sem eru (Forseti hringir.) í vandræðum þótt þeir nái kannski rétt svo endum saman. Það er hin stóra millistétt í landinu.

Ég fagna dómi Hæstaréttar í dag. Hann er tímamótadómur, ekki síst fyrir þetta fólk og Ísland allt.