Greiðsluaðlögun einstaklinga

Fimmtudaginn 24. júní 2010, kl. 10:29:12 (0)


138. löggjafarþing — 147. fundur,  24. júní 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga.

670. mál
[10:29]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef átt þess kost að fylgjast nokkuð með störfum félags- og tryggingamálanefndar og tek undir þakkir hv. þingmanns til formanns réttarfarsnefndar og þá ekki síður til nefndarmanna í félags- og tryggingamálanefnd fyrir þá miklu og góðu vinnu sem þeir hafa í hana lagt og ekki síst til varaformanns nefndarinnar sem mikið hefur mætt á í þessu góða starfi.

Ég vildi af því tilefni leita eftir sjónarmiðum hv. þingmanns um það hversu mikinn hluta vandans hún telur að þessi sértæku úrræði, greiðsluaðlögunin og umboðsmaður skuldara og önnur slík mál úr ranni félags- og tryggingamálanefndar, muni leysa, hversu mörgum við ættum að reikna með að gætu nýtt sér þetta úrræði, til að mynda hvort þeir skipti hundruðum, þúsundum eða tugþúsundum. Telur hv. þingmaður að þessi sértæku úrræði séu fullnægjandi nú sem samþykkt verða í dag til að takast á við þann mikla skuldavanda sem heimilin eiga við að glíma, eða er hv. þingmaður þeirrar skoðunar að jafnhliða þurfi að ráðast í almennar aðgerðir til að fækka í hópi þeirra sem glíma við skuldavanda í kjölfar hrunsins og deila með einhverjum hætti því mikla tjóni milli lánveitenda og lántakenda sem orðið hefur en ekki leggja það einhliða á lántakendur?