Greiðsluaðlögun einstaklinga

Fimmtudaginn 24. júní 2010, kl. 10:32:46 (0)


138. löggjafarþing — 147. fundur,  24. júní 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga.

670. mál
[10:32]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir fór hér mjög ítarlega yfir þær breytingar sem gerðar hafa verið á frumvarpinu á milli 2. og 3. umr. og ég hef litlu við það að bæta nema ég fagna þessum breytingum. Ég tel þær til þess fallnar að auka skilvirkni í því úrræði sem greiðsluaðlögun í frjálsum samningum verður og síðan mögulegt áframhaldandi ferli yfir í þvinguð úrræði. Það var markmið nefndarinnar að þetta yrði sem aðgengilegast fyrir þá sem eru illa skuldsettir og að það væri ekki hvati fyrir lánardrottna að hafna frjálsum samningum í ljósi þess að þeir teldu sig geta náð betri niðurstöðu fyrir sig í þvinguðum úrræðum fyrir dómstólum. Það er von okkar í nefndinni að þessar breytingar stuðli að þessum markmiðum og við fögnum því að geta bætt frumvarpið á milli umræðna.

Mig langar af þessu tilefni, af því að það er mikið gleðiefni og mikil réttarbót fyrir skuldug heimil á Íslandi að ná þessu frumvarpi í gegn, að rifja aðeins upp þá sögu sem liggur að baki þeirri afurð sem við stöndum frammi fyrir hér í dag. Hún hófst, eins og mjög margt annað í sölum Alþingis, á hæstv. forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, þegar hún sem almennur þingmaður lagði hér fram frumvarp eftir frumvarp um greiðsluaðlögun einstaklinga. Það var á tíunda áratugnum. Á 125. þingi síðustu aldar lagði hún fram breytingar á lögum um gjaldþrotaskipti en hafði áður, að mig minnir, verið með nokkur frumvörp um greiðsluaðlögun. Þessi frumvörp hlutu ekki náð fyrir augum meiri hluta þingsins þrátt fyrir lélega réttarstöðu íslenskra skuldara í samanburði við nágrannaríkin. Það er mjög bagalegt og segir hvað mikið þurfti til á Íslandi til að bæta réttarstöðu fólks, það þurfti beinlínis hrun fjármálakerfisins til þess að sjálfsögð réttarbót fyrir skuldara gæti náð í gegn í sölum Alþingis.

Í þeirri kreppu sem hafði áhrif í Evrópu í upphafi tíunda áratugarins og sérstaklega á Norðurlöndunum, þar sem voru miklir erfiðleikar í bankakerfinu og erfiðleikar á fasteignamarkaði, voru bundin í lög úrræði um greiðsluaðlögun svipuð þeim sem við erum hér að lögfesta í dag, 15–17 árum síðar.

Svo að ég haldi mig við söguna hér á Alþingi lagði hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi almennur þingmaður, fram þessi frumvörp þing eftir þing. Síðan þegar Samfylkingin settist í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum árið 2007 hóf þáverandi hæstv. viðskiptaráðherra, Björgvin G. Sigurðsson, gerð frumvarps um greiðsluaðlögun og það þótti of róttækt. Þar lagði hann til úrræði sem væru utan dómstóla og það þótti of róttækt þannig að því frumvarpi var breytt. Það var líka starfshópur sem starfaði með þingmönnum úr Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu sem reyndi að koma þessum málum í gegn en úr varð að þetta varð kafli í gjaldþrotaskiptalögunum og síðan þurfti að búa til sérstakan kafla um veðkröfur í kjölfar hrunsins. Björgvin hafði hafið þessa vinnu áður en síðan sáu menn að ekki væri hægt að lifa við svo búið og það þyrfti að herða á þessu, koma þessum úrræðum í gagnið, en það gekk ekki vandræðalaust fyrir sig.

Þetta er nú sérstakur kafli í gjaldþrotaskiptalögunum og síðan eru úrræði um greiðsluaðlögun veðkrafna alveg sértækar, ekki sami lagabálkur.

Þessi lög tóku gildi 1. apríl árið 2009 og hefur komið þó nokkur reynsla á þau. Að mörgu leyti hafa þau gefist vel þó að á þeim séu skavankar og óheppilegt sé að vinna samkvæmt svo nýjum lögum í svo erfiðum málum við jafnerfiðar aðstæður og hér eru varðandi skuldsetningu íslenskra heimila. Hefði nú verið gott ef eitthvað af frumvörpunum frá hæstv. forsætisráðherra á tíunda áratug síðustu aldar hefðu náð í gegn og við værum með almennileg ferli, sem hefðu verið reynd, í þessum málum.

Nú í vetur ákvað hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra að freista þess að slípa til þessi úrræði, reyna að koma fleirum í gegnum frjálsa samninga og er það gert í ljósi þess að þrátt fyrir að við höfum hér lögfest ramma utan um sértæka skuldaaðlögun í bönkunum hefur það alls ekki gengið sem skyldi. Þar af leiðandi var þess freistað að setja nú í einn lagabálk frjálsa samninga og þvingaða fyrir almennar kröfur og veðkröfur.

Málin komu síðan til félags- og tryggingamálanefndar og fljótlega varð ljóst að að mati umsagnaraðila var ekki hægt að búa við það að hafa þau í einum lagabálki, eðlilegast væri að þvinguðu úrræðin væru enn þá innan gjaldþrotaskiptalaganna. Við höfum lagt nótt við dag að koma þessu þannig fyrir að búa til góðan og gildan lagaramma utan um frjálsu samningana þannig að það væri með þeim hætti að lánardrottnar treystu ferlinu. Það var gert svo þeir færu ekki að mótmæla eða krefjast dómsúrskurðar til þess að gæta hagsmuna sinna heldur vissu þeir að þegar umboðsmaður skuldara væri búinn að búa til drög að frjálsum samningi væri það samningur sem væri samkvæmt laganna hljóðan og treystandi og ekki ástæða til að vera að þvælast með þau mál meira.

Hér sitjum við í raun með þrjá lagabálka í stað tveggja og í stað þess eina sem hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra vildi freista að koma hér í gegn. Ég vil leyfa mér að taka undir þau orð, sem hann lét reyndar ekki falla hér í ræðustól en ég held að hann muni ekki erfa við mig þó að ég hafi eftir honum það sem hann sagði, að það muni væntanlega taka okkur eitt ár í viðbót að horfast í augu við að þetta þurfi að vera í einum lagabálki.

Nú ætla ég rétt að vona að þetta muni ganga vel fyrir sig hjá umboðsmanni skuldara og verða lausn fyrir fjöldamörg heimili. Við höfum vandað okkur mikið við þetta mál. En ég ætla þó að leyfa mér að segja að ég ætla ekki að loka á það að við endum hér að ári liðnu enn eina ferðina og reyna að auka á skilvirkni í þessu úrræði.

Það er ekki gott að enda á þessum svartsýnu nótum því að ég er mjög ánægð með þessi frumvörp. Ég tel að þau nái þeim markmiðum að koma til móts við skuldsett heimili þannig að þau fái viðhlítandi aðstoð og stuðning og að þeirra hagsmuna sé gætt af opinberu valdi gagnvart lánardrottnum sem í langflestum tilfellum hafa miklu sterkari stöðu í samningum gagnvart sínum lántakendum. Við höfum öll lagt mikið á okkur og fengið góða aðstoð til þess að þetta verði sem best úr garði gert.

Að lokum vil ég þakka samnefndarmönnum mínum í félags- og tryggingamálanefnd fyrir ákaflega gott samstarf. Við munum fara inn í næsta vetur þar sem við munum fylgja þessum afkvæmum okkar úr garði og fylgjast með því að þau nýtist með þeim hætti sem vonir okkar standa til.