Greiðsluaðlögun einstaklinga

Fimmtudaginn 24. júní 2010, kl. 11:02:00 (0)


138. löggjafarþing — 147. fundur,  24. júní 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga.

670. mál
[11:02]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta frumvarp. Í rauninni var það hárrétt hjá hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni að rétt væri að ræða öll þau frumvörp sem snerta húsnæðisvandann í einni spyrðu, þau eru samhangandi og nátengd. Hér hefur verið vikið að sögulegum þáttum, það gerði meðal annarra hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, og mig langaði til að koma með þriggja mínútna innlegg um hina sögulegu vídd auk þess að leggja áherslu á að það þarf að skoða þessi mál í breiðu samhengi við lánamarkaðinn almennt. Við megum ekki gleyma því að þetta er neyðarlaganálgun, mjög góð og gagnleg og mikilvæg að því leyti að hún stefnir að því að koma í veg fyrir gjaldþrot svo að fólk missi ekki heimili sín. Við erum að reyna að slá skjaldborg um heimili fólks sem á í miklum greiðsluerfiðleikum.

Vandinn er náttúrlega greiðsluerfiðleikarnir og þeir eru ekki einvörðungu tengdir forsendubresti af völdum hrunsins. Húsnæðiskerfið og lánamarkaðurinn á Íslandi hefur verið ófullnægjandi um langan tíma. Af því að vísað var í sögulega þætti minnist ég þess að sitja oft á þingpöllum og álykta utan úr bæ um breytingar sem gerðar voru á húsnæðiskerfinu á tíunda áratugnum þegar þáverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks skerti kjör í almenna kerfinu, sérstaklega hvað verkamannabústaði áhrærir. Vextir á verkamannabústaðalánunum voru í byrjun tíunda áratugarins 1% umfram verðbólgu. Á fyrstu árum tíunda áratugarins hækkaði þáverandi ríkisstjórn, félagsmálaráðherra Alþýðuflokksins, þessi vaxtakjör og breytti þeim til hins verra. Síðan var aftur gerð stór breyting á húsnæðiskerfinu árið 1999. Þá tóku ný lög gildi sem færðu okkur enn inn á markaðsbrautina en engin almennileg félagsleg úrræði litu dagsins ljós. Við erum með lánamarkað sem býður upp á háa vexti og verðtryggingu að auki og sum okkar hér í þinginu hafa ítrekað lagt fram þingmál til að sporna gegn þessu.

Þegar verðtryggingin var tekin upp í byrjun níunda áratugarins, með Ólafslögum árið 1981, höfðu ýmsir á orði, t.d. þáverandi seðlabankastjóri Jóhannes Nordal og þingmaður sem hér situr og var þá stofnandi Kaupþings, hv. þm. Pétur H. Blöndal, að á verðtryggðum lánum ættu ekki að hvíla meira en 2% vextir. Verðtrygging og háir vextir færu einfaldlega ekki saman. En hvað hefur gerst síðan? Við erum með kerfi sem býður upp á verðtryggingu lána og breytilega vexti. Ég hef margoft lagt fram frumvörp í þinginu um að afnema eða koma í veg fyrir þetta forræði lánamarkaðarins gagnvart lántakendum.

Ég vil vekja athygli á breiðu samhengi hlutanna, að Alþingi verður að taka á vaxtakjörunum almennt í landinu. Við verðum að afnema verðtrygginguna og fyrsta skrefið í þá átt gæti verið þak á leyfilega verðtryggingu á lánum. Síðan verðum við að feta okkur út úr þessu kerfi. Ég hef á undanförnum árum ekki gagnrýnt verðtrygginguna en nú er svo komið að hún er að mínum dómi orðin mjög skaðleg. Ég vildi aðeins, hæstv. forseti, vekja athygli á þessum þáttum, að við erum að grípa til neyðarúrræða sem eiga vissulega við inn í framtíðina, eins og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson nefndi, en við getum ekki skotið okkur undan því að taka heildstætt á lánamarkaðnum.

Að öðru leyti vil ég taka undir það sem fram hefur komið í máli formanns félags- og tryggingamálanefndar, hv. þm. Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur, um rökstuðning sem færður er fyrir þessu frumvarpi sem ég tel tvímælalaust vera mjög mikilvægt skref fram á við og réttarbót fyrir skuldugt fólk. Það er verið að koma í veg fyrir að fólk sem á í alvarlegum greiðsluvanda missi heimili sín.