Greiðsluaðlögun einstaklinga

Fimmtudaginn 24. júní 2010, kl. 11:16:42 (0)


138. löggjafarþing — 147. fundur,  24. júní 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga.

670. mál
[11:16]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um greiðsluaðlögun einstaklinga. Þessu frumvarpi var sem betur fer frestað þann 16. júní vegna þess að komið höfðu fram veigamiklar veilur í því, eins og ég óttaðist þegar ég hafði efasemdir um að skrifa undir það og flytja og beiddist þess að því yrði frestað. Nú vona ég að það sé orðið það gott, að ekki séu lengur í því neinar veilur og að framkvæmdin geti verið hröð. Það er mjög mikilvægt að framkvæmdin verði hröð vegna þess að frumvarpið snertir mjög stóran hóp.

Þetta frumvarp leysir ekki vanda þjóðarinnar. Ákveðinn hluti þjóðarinnar, sumir segja 10%, er í vonlausri stöðu eftir hrunið vegna atvinnuleysis, vegna ofskuldsetningar, vegna þess að lífskjörin hafa versnað. Launin hafa ekki haldið í við verðbólguna, langt í frá. Sumir hafa þurft að sæta lækkun launa í krónutölu þannig að lífskjörin hafa versnað mjög mikið, bæði geta manna til að borga af lánum og til að halda og reka heimili. Bleiurnar hækka líka, ekki bara lánin. Við erum því að leysa vanda þeirra sem eru í glataðri stöðu sem einu sinni hét að verða gjaldþrota. Við erum að reyna að búa til úrræði sem gerir að verkum að menn verði ekki gjaldþrota, þeir haldi eign sinni og geti ráðið við vandann án þess að vera gerðir gjaldþrota. Það er mjög mikilvægt vegna þess að þegar menn verða gjaldþrota dettur allur greiðsluvilji niður og óhemju fé tapast alltaf. En ef málin eru gerð upp á þennan hátt helst viljinn til að borga af lánum og standa sig og frumvarpið á að gera það að verkum að menn geti farið í gegnum þennan pakka án þess að brotna.

Fyrir nokkru féll hæstaréttardómur um gengistryggð lán sem breytir stöðunni eitthvað. Ég geri ráð fyrir því, án þess að ég hafi nokkrar tölur um það, frú forseti, því að okkur vantar allar upplýsingar. Því miður er könnun Seðlabankans orðin gömul og ekki lengur hægt að miða við hana en ég geri ráð fyrir því að heimilunum sem eru í þeim mikla vanda sem við erum að leysa hér, fækki kannski úr 10.000 í 8.000 heimili. Þetta er bara sagt svona. Ég hugsa að það sé ekki mikið meira vegna þess að atvinnuleysið hefur ekki minnkað við þennan hæstaréttardóm. Launin hafa ekkert hækkað og menn eru jafnvel með verðtryggð lán en ekki gengistryggð. Sumir voru í miklum vanda fyrir og hafa alltaf verið í vanda þannig að frumvarpið hefði svo sem mátt vera til áður. Frumvarpið hefur því fullt gildi þótt hæstaréttardómurinn hafi fallið og fjöldi þeirra sem þurfa á þessum úrræðum að halda hafi minnkað.

Markmið laganna er að gera upp skuldir. Þegar þjóðfélög lenda í svona hruni, er almennt álitið að það sé mjög mikilvægt að skuldir séu gerðar upp, gengið sé frá hlutum og menn geti byrjað aftur með hreint borð. Þetta frumvarp er liður í því að reyna að ganga frá skuldum heimilanna, þurrka út það sem menn geta ekki borgað svo þeir geti haldið áfram og byrjað upp á nýtt með hreint borð. Ég vona að með frumvarpinu náist það markmið.

Vandinn í þessu er hraðinn. Ef um er að ræða 10.000 heimili, við skulum gefa okkur það, og við náum 20 á dag eru það 500 dagar. Við erum að tala um svo óskaplega mikið magn að þetta þarf að vinna hratt. Til að ná því fram hef ég lagt fram breytingartillögu, sem dreift var í dag, um kröfuskrá þar sem öllum kröfum landsins er safnað á einn stað í opinberri vörslu, bara með kennitölum skuldara og kröfuhafa. Hægt er að leita í þeirri skrá hratt og vel á sekúndu að öllum kröfum sem einstaklingur er talinn skulda. Svo er hægt að senda kröfuhöfum tölvupóst, líka á ljóshraða, og þeir geta lýst sínum kröfum. Þetta mundi hraða ferlinu sennilega um mánuð eða meira auk þess sem þetta er miklu fullkomnara kerfi til að halda utan um allar kröfur, ekki bara veðkröfur.

Ég vonast til að það verði rætt — það þarf ekki að ræða það einu sinni — að það fari til nefndar og fái umsögn. Ég held að það sé mikilvægt að það verði rætt og fái umsagnir. Kannski er þetta ekki fært en ég vildi prófa það.

Við erum í fyrsta lagi með frjálsa samninga og allir vilja auðvitað að heimilin fari í frjálsa samninga. En það er líka úrræði að fara í þvingaða samninga eða þvinguð úrræði. Við vonumst til þess að í starfi nefndarinnar hafi því verið náð að meiri hvati verði til að fara í frjálsa samninga en þvingaða.

Ég flyt líka breytingartillögu við 4. gr. sem fjallar um heimild til að veita greiðsluaðlögun og umsókn um greiðsluaðlögun. Þar er inni sjónarmið um að menn þurfi að hafa dálítið fyrir þessu. Menn hafa sagt fyrir nefndinni að ef þetta sé of létt taki menn það ekki alvarlega. Ég fellst ekki á þá röksemd. Ég fellst alls ekki á það.

Umboðsmaður skuldara, sem við ræðum á eftir, hefur allar heimildir til að leita í öllum skrám að upplýsingum um einstaklinginn, í skattskrám, fasteignaskrá, bifreiðaskrá o.s.frv. Ég sé enga ástæðu til þess að fólk sem er í miklum vanda og búið að vera í ógurlegum vanda sé látið klífa þrítugan hamar og hlaupa á milli skrifstofa og ná í gögn, sem eru til og hægt er að ná í rafrænt. Ég sé engan akk í því að opinberum starfsmönnum sé gert að afgreiða svona fólk sem stendur í biðröðum. Þetta gerir ekkert annað en að auka vinnu. Ég kem því með breytingartillögu um að hinn venjulegi maður komi bara með kennitöluna sína og nafnið sitt. Allt annað liggur fyrir. Hjúskaparstaðan er í þjóðskrá, fasteignirnar eru í fasteignaskrá og skuldastaðan er hjá lánastofnunum o.s.frv. Þannig finnst mér að þetta eigi að vera. Ef um er að ræða afbrigðilegar eignir, frímerkjasafn eða bókasafn eða hesta eða skartgripasafn eða eitthvað slíkt þurfa menn að telja það upp. Það vantar reyndar í frumvarpið eins og við afgreiðum það núna.

Ég tel mjög mikilvægt að breytingartillagan verði samþykkt, þetta verði gert einfalt og lipurt og að umboðsmaður skuldara aðstoði fólk eins og hann mögulega getur þannig að þetta verði einfalt kerfi. Nógu erfitt hefur það verið fyrir skuldarana. Ég legg því til að hv. þingmenn samþykki breytingartillöguna sem ég flyt við frumvarpið.