138. löggjafarþing — 147. fundur,  24. júní 2010.

tímabundið úrræði einstaklinga sem eiga tvær fasteignir til heimilisnota.

672. mál
[12:25]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég átti ekki annað erindi hingað upp en að þakka hv. félags- og tryggingamálanefnd kærlega fyrir afgreiðslu á þessu máli. Ég held að þó að lítill tími hafi verið til þess að sníða af því vankanta sé gríðarlega mikilvægt að gera það að lögum núna vegna þess að það nær til stórs hóps fólks, 1.000–1.500 fjölskyldna þar sem staðan er aðkallandi og brýn, þar sem fólk situr með tvær eignir, báðar skuldsettar, og getur við hvoruga losnað. Við vitum hvílíka angist og hve mikla erfiðleika slíkt getur lagt á fjölskyldur og hver vika sem hægt er að stytta þá stöðu um er mikilvæg. Því er ákaflega brýnt að það takist að leiða málið til lykta áður en gert verður hlé á þingstörfum.

Ég veit að það var vandasamt hvernig fara skyldi með mál í þeim tilfellum þegar verið er að skila af sér eign þar sem veðrými er ekki að fullu nýtt. Þar voru uppi hugmyndir um að þá væri hægt að færa af hinni eigninni. Það verður hins vegar ekki fram hjá því litið að þar geta auðvitað átt aðild veðhafar, einstaklingar, ekki bankar eða fjármálafyrirtæki, heldur jafnvel iðnaðarmenn sem eiga bara fjárnám fyrir vinnulaunum sínum sem þá og þeirra fjölskyldur getur munað stórlega um. Þess vegna er hæpið að fara fram með mikilli hörku gagnvart stöðu þeirra kröfuhafa. Ég vonast til þess að sú leið sem farin er með útgáfu tryggingarbréfs leysi það mál fyrir flesta sem þannig er ástatt fyrir. Auðvitað verður langalgengast að fólk losi frá sér þær eignir sem eru yfirskuldsettar, þar sem þetta vandamál er ekki fyrir hendi. Þess vegna er brýnt að afgreiða málið eins og það liggur fyrir nú þannig að á annað þúsund aðilar sem eiga við þennan skelfilega vanda að stríða fái lausn á honum. Allir geta svo auðveldlega sett sig inn í hversu erfitt það er að sitja uppi með tvær skuldsettar eignir. Það er full ástæða til að þakka nefndinni fyrir vel unnið starf í þessu efni.