138. löggjafarþing — 147. fundur,  24. júní 2010.

tímabundið úrræði einstaklinga sem eiga tvær fasteignir til heimilisnota.

672. mál
[16:49]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ef sú eign sem menn ætla að afhenda kröfuhöfunum er undirveðsett er ákveðin eign í henni sem skuldarinn á og út á það skal gefa skuldabréf. Í þessari grein er fjallað um það hvernig uppboðsferli fer fram og vandinn er sá að þetta skuldabréf hvílir á eigninni aftast og við sölu eignarinnar á að taka tillit til þess. Það sem ég hef bent á í nefndinni er að hætta er á að sá sem selur hefur í sjálfu sér ekki áhuga á því að selja svo dýrt að þetta skuldabréf njóti einhvers af því, sérstaklega ef það munar litlu, ef þetta eru kannski milljón krónur, eitthvað slíkt. Ég óttast því dálítið að þetta muni ekki leiða til þess að skuldarinn fái nokkurn tímann greitt fyrir það sem hann á í eigninni sem er afhent ef hún er undirveðsett. Ég segi engu að síður já vegna þess að þetta ferli er mjög athyglisvert.