Iðnaðarmálagjald

Miðvikudaginn 08. september 2010, kl. 11:45:33 (0)


138. löggjafarþing — 153. fundur,  8. sept. 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[11:45]
Horfa

Frsm. meiri hluta iðnn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég harma það að hv. þingmaður Pétur H. Blöndal hefur ekki tekið eftir nokkru því sem fram kom í ræðu minni. Hún var að vísu nokkuð löng en það er engin afsökun fyrir því að skella skollaeyrum við boðskap ræðunnar. Hann segir að við göngum til verksins með hangandi hendi en það er víðs fjarri. Ég gekk með opnum hug til verksins og leitaði til margra lögspekinga og lét skoða hvort það væru eðlileg viðbrögð við dómnum að afnema gjaldtökuna tafarlaust. Það var enginn þeirrar skoðunar að dómurinn fjallaði um það að gjaldtakan væri óheimil. Hins vegar voru allir sammála um að ráðstöfunin til Samtaka iðnaðarins væri óheimil. Ég árétta að það fer ekki ein einasta króna af iðnaðarmálagjaldi yfirstandandi árs til Samtaka iðnaðarins. Það er alrangt sem kom fram í máli þingmannsins hér áðan að tekjurnar renni til samtakanna. Í nefndaráliti iðnaðarnefndar er sérstaklega hnykkt á því að tekjur fyrri ára munu ekki renna til Samtaka iðnaðarins, heldur fara í ríkissjóð eins og tekjur þessa árs. Ég tel okkur bregðast vasklega við þessum dómi aðeins örfáum mánuðum eftir að hann fellur. Við leggjum til, svo það sé áréttað öðru sinni, að lögin verði afnumin frá og með áramótum. Að mínu mati er niðurstaða löggjafans afar skýr og hnykkt er á lykilatriðum málsins frá því sem var í frumvarpinu sem var lagt fram í vor.