Iðnaðarmálagjald

Miðvikudaginn 08. september 2010, kl. 12:06:15 (0)


138. löggjafarþing — 153. fundur,  8. sept. 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[12:06]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hér fer fram nokkuð merkileg umræða og lýtur ekki einasta að mannréttindum Íslendinga, heldur einnig þeirri áráttu löggjafans að leggja á margvíslegar álögur og gjöld sem vara svo gjarnan í lengri tíma en þeim var ætlað og almenningur stendur uppi með léttari pyngju fyrir vikið. Auðvitað er það svo, frú forseti, að Alþingi á að beita miklu aðhaldi á hverjum tíma í þeim málaflokki sem snýr að álagningu alls konar gjalda með lögum og síðar jafnvel reglugerðum fyrir alls konar hópa sem þiggja gjöldin. Það er einmitt krafa nú um stundir að Alþingi beiti enn frekara aðhaldi á þessum sviðum. Það er ekki sjálfgefið að setja auknar álögur á almenning og fólk á vinnumarkaði til langframa. Það kann að vera réttlætanlegt um tíma, en þessar álögur eiga að vera í eilífri endurskoðun.

Til umræðu, frú forseti, er iðnaðarmálagjald sem á sér langa sögu eins og fram hefur komið hjá fyrri ræðumönnum. Vísað hefur verið til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í Strassborg frá 27. apríl fyrr á þessu ári. Iðnaðarnefnd Alþingis tók fljótt og vel á málinu og mjög málefnalega. Auðvitað stöldruðu nefndarmenn fyrst við að framkvæmd laga um iðnaðarmálagjald væri það sem er í andstöðu við 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, þ.e. framkvæmd gjaldsins brýtur sem sagt að mati dómsins í bága við lög. En dómurinn tekur ekki á meintu ólögmæti gjaldtökunnar sem slíkrar og að mati nokkurra þeirra sem komu fyrir iðnaðarnefnd má telja sem svo að dómurinn sé fyrir vikið nokkuð mildur í garð ríkisins. Má svo sem taka undir að framkvæmd iðnaðarmálagjaldsins brjóti í bága við lög vegna þess að það er ekki sjálfgefið að sjálfstæð hagsmunagæslufélög úti í bæ, ef svo má segja, taki að sér og hafi um það sjálfdæmi að úthluta því gjaldi sem með nauðum er tekið af landsmönnum, eins og gert hefur verið í þessu dæmi. Mannréttindadómstóllinn bendir á að úthlutun þessa gjalds til margvíslegra verkefna hafi að einhverju leyti verið með losarabrag, reglur ekki skýrar á því sviði og í sjálfu sér gagnrýnivert að svo hafi ekki verið.

Iðnaðarnefnd tekur á þessum dómi með skýrum hætti. Leggur til að iðnaðarmálagjaldið verði lagt af frá og með næstu áramótum. Engu að síður var búið að velja gjöldunum ágætan farveg til uppbyggingar í menntamálum. Lagt er til að það sem eftir stendur af þessu gjaldi renni fram til áramóta til, eins og fram kemur í nefndaráliti, með leyfi forseta, „verkefna á vegum menntastofnana sem Samtök iðnaðarins höfðu þegar skuldbundið sig til að fjármagna en þær tekjur sem eftir standa renni í Tækniþróunarsjóð til eflingar nýsköpun í landinu og starfsmenntasjóði“.

Ég efast um að þingmenn hér í salnum deili mjög hart á þessa úthlutun. Um mjög þarft og gott verk er að ræða. Það sem eftir stendur er að úthlutun er tekin úr höndum hagsmunagæsluaðila og þar af leiðandi er tekið mjög skýrt á dómsorði Mannréttindadómstólsins í Strassborg.

Að mínu viti stóð iðnaðarnefnd mjög eðlilega að málinu. Framkvæmd iðnaðarmálagjaldsins brýtur í bága við lög, en ekki sjálf gjaldtakan. Hún stenst lög svo sem fram kemur í orðum Hæstaréttar hér á Íslandi og svo síðar í dómsorði Mannréttindadómstóls Evrópu.

Ég legg ríka áherslu á, frú forseti, að þessu áliti fengnu og umsögn iðnaðarnefndar að horfa beri til fleiri gjalda á þessu sviði. Ég drap á því í upphafi ræðu minnar að ekki væri sjálfgefið að leggja gjöld á til frambúðar sem rynnu svo til hinna ýmsu samtaka. Þau mega vel heita nauðungargjöld. Því ber að líta til margvíslegra annarra gjalda sem eru á floti í íslensku hagkerfi, svo sem búnaðarmálagjalds, aflagjalds og fleiri gjalda í gömlu atvinnugreinunum, sem hljóta að vera gagnrýniverð og lúta sömu lögmálum og iðnaðarmálagjaldið. Ég hvet því nefndir Alþingis til að skoða mjög vandlega hvort ýmis gjöld sem nú eru tekin af landsmönnum standist lög og kröfur okkar um mannréttindi. Ég tel að mikill einhugur sé meðal þingmanna og áhugi á að það verði gert.