Efnahags- og skattstefna ríkisstjórnarinnar

Fimmtudaginn 09. september 2010, kl. 11:13:00 (0)


138. löggjafarþing — 154. fundur,  9. sept. 2010.

efnahags- og skattstefna ríkisstjórnarinnar.

[11:13]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. málshefjanda að við Íslendingar glímum enn við mikla erfiðleika og það kemur væntanlega engum á óvart, það vissum við. Við urðum fyrir miklu áfalli, við vissum að það yrði erfitt að vinna okkur út úr því.

Það sem skiptir þá máli er: Á hvaða leið erum við? Erum við að ná árangri í þeim efnum og fara betri tímar í hönd? (Gripið fram í: Nei.) Hvert stefnum við? spyr hv. þingmaður. Er einhver ágreiningur um stefnuna? Er ekki stefnan að vinna landið, þjóðarbúið, út úr þessum erfiðleikum, (Gripið fram í.) að endurreisa hér stöðugleika, ná tökum á hallarekstri ríkissjóðs, berjast gegn atvinnuleysi og öðrum slíkum hlutum? Jú.

Það er unnið samkvæmt einfaldri efnahagsáætlun að því að endurheimta stöðugleika og þar erum við að ná miklum árangri. Verðbólga hefur farið úr 18% niður í 4,5%, stýrivextir lækkað úr 18% niður í 7% og fleiri slíkar kennitölur mætti nefna sem allar vísa í rétta átt. (Gripið fram í.) Við erum hægt og bítandi, vissulega með miklum fórnum, að endurheimta stöðugleikann.

Í öðru lagi gengur efnahagsáætlunin út á það að ná tökum á búskap ríkisins og snúa honum úr hundraða milljarða halla yfir í afgang á þremur til fjórum árum. Markmiðið er að ná frumjöfnuði á næsta ári og heildarjöfnuði 2013. Við erum algerlega á þeirri efnahagsáætlun og reyndar gott betur. Eftir hálft ár 2010 eru tekjur nákvæmlega í samræmi við áætlun fjárlaga og gjöldin umtalsvert undir áætlun fjárlaga. Er það ekki árangur? Ég hélt að einhvern tíma hefðu menn glaðst yfir því að verið væri að ná þessu fram þrátt fyrir þann niðurskurð og þá erfiðleika sem menn hafa orðið að taka á sig í opinberum rekstri.

Goðsögnin um hinar miklu skattahækkanir, að skattahækkanir séu að kæfa hagkerfið, stangast í fyrsta lagi á við vísbendingar um að hagkerfið sé að rétta úr kútnum, þó að deila megi um nákvæmlega hvenær innan ársfjórðunga menn koma til með að tímasetja viðsnúninginn. (Gripið fram í.) Skatttekjur ríkissjóðs, ég sé það af fjölmörgum vísbendingum sem við fáum úr ríkisbókhaldinu varðandi vinnumarkaðinn, um aukna atvinnuþátttöku og lengri vinnutíma, að um tvö þúsund fleiri störf eru á öðrum ársfjórðungi 2010 en 2009 o.s.frv. Það eru margar slíkar jákvæðar vísbendingar — hv. frammíkallandi, ef ég mætti nota þessar fimm mínútur mínar sjálfur — sem við sjáum þó að vissulega hafi síðustu tölur Hagstofunnar valdið vonbrigðum og kannski einkanlega það hversu gríðarlegt hringl er á mati Hagstofunnar milli ársfjórðunga, bæði fram í tímann og aftur í tímann.

Ef við tökum skatttekjur ríkissjóðs og goðsögnina um hinar gríðarlegu skattahækkanir og skoðum áætlaðar heildarskatttekjur ríkisins og raunverulegar heildarskatttekjur ríkisins á núgildandi verðlagi eða öllu heldur kannski verðlagi ársins 2009 þá voru heildarskatttekjur ríkisins árið 2005 473 milljarðar. Árið 2006 498 milljarðar, árið 2007 514 milljarðar. Þær féllu niður í 463 milljarða 2008 og í 383 milljarða 2009 þrátt fyrir þær breytingar sem þar var gripið til, að reyna að halda skatttekjunum uppi. Og hverjar eru þær áætlaðar á árinu 2010 á sama verðlagi, á verðlagi ársins 2009? 389 milljarðar. Skattahækkanirnar gera því ekki betur en að rétt halda sjó í heildartekjum fyrir ríkið, (Gripið fram í: Kakan minnkar.) og áætlað er að þær losi kannski 400 milljarðana árið 2011.

Ef við lítum á annan mælikvarða þá var hlutfall skatttekna ríkisins af vergri landsframleiðslu um 32% á árunum 2006–2007 og féll niður í 28% 2008, niður í 25,6% af vergri landsframleiðslu 2009 og rétt heldur sjó, 25,7% er áætlað, á árinu 2010. Með öðrum orðum, skatttekjur ríkisins sem hlutfall af heildarverðmætasköpun í landinu hafa stórlækkað og rétt halda sjó. (Gripið fram í: Klárinn er að sligast.)

Þegar við horfum á gjöldin kemur í ljós að þar hefur náðst miklu meiri árangur en efnahagsáætlunin gerði ráð fyrir þrátt fyrir að ríkið verði að mæta auknum útgjöldum vegna aukins atvinnuleysis og aukins vaxtakostnaðar. Niðurstaðan af greiningu þessara talna er sú að mikill árangur er að nást í samdrætti á gjaldahlið og aðlögunin er að uppistöðu til að eiga sér stað þar. Ég mun geta birt rækilegri tölur og ítarlegri rökstuðning fyrir þessari greiningu mála í síðasta lagi þegar fjárlagafrumvarpið kemur fram og þá mun goðsögnin um það að hinar ægilegu skattahækkanir séu að kæfa hér hagkerfið og að aðlögun eigi sér öll stað á skattahlið hrynja til grunna. (Gripið fram í.)