Efnahags- og skattstefna ríkisstjórnarinnar

Fimmtudaginn 09. september 2010, kl. 11:20:36 (0)


138. löggjafarþing — 154. fundur,  9. sept. 2010.

efnahags- og skattstefna ríkisstjórnarinnar.

[11:20]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessa mikilvægu umræðu um leið og ég verð að segja að það er skollið heldur skjótt á skammdegið hjá stjórnarandstöðuflokkunum á þessum vetri þegar þeir lýsa veruleikanum. En það er eðlilegt að kallað sé eftir efnahagsstefnu og skattstefnu hjá þeim stjórnarmeirihluta sem glímir við stærstu og erfiðustu verkefni Íslandssögunnar á því sviði. Sú stefna liggur fyrir og um hana hélt ég að hefði verið býsna góð sátt, enda gengum við í samstarfi við stærsta flokkinn í stjórnarandstöðunni til samstarfs við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn á sínum tíma og efnahagsáætlunin með þeim sjóði liggur fyrir. (Gripið fram í: Voruð þið í ríkisstjórn?) Þar hefur farið fram endurskoðun ekki einu sinni heldur tvisvar og má segja að gangi vonum framar að ná markmiðum þeirrar efnahagsáætlunar sem unnin er með aðstoð færustu sérfræðinga og mikilvægt að við náum fram þriðju endurskoðuninni hið allra fyrsta og náum síðan að ljúka áætluninni. Hluti af henni er auðvitað það að taka á í ríkisfjármálunum.

Um það hefur líka verið lögð stefna fyrir Alþingi og legið alveg skýrt fyrir, og það er rétt að til að brúa bilið ákváðum við að taka heldur meira á skattahliðinni á fyrsta árinu til að dýpka ekki enn frekar kreppuna með of hröðum niðurskurði umsvifa hins opinbera. Það er hluti af ástæðunni fyrir því að lendingin er mýkri en menn óttuðust. Hvað er það sem við gerðum? Við afturkölluðum gamlar skattalækkanir. Hvaða skattalækkanir? Óraunsæjar skattalækkanir Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins sem voru hluti af því að keyra þessa þjóð í þrot. (BjarnB: Við buðum …) Lýðskrumsáróður Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins um óraunsæjar skattalækkanir (Forseti hringir.) sem enn þann dag í dag glymur í þessum sal þrátt fyrir að þær hafi leitt okkur í þrot. (Gripið fram í.) Við hljótum að kalla eftir því að þessir flokkar reynist í (Forseti hringir.) umræðu um ríkisfjármál á komandi vetri ábyrgari en þeir reyndust á hinum síðasta.